Geta Eco-dekk sparað peninga í eldsneyti?
Framleiðendur „eco dekkja“ lofa sparnaði á eldsneyti, en virka þau virkilega?
Stutta svarið er: ekki mikið!
Það er alltaf verið að leita leiða til að spara peninga í útgerð bíla og eftirfarandi grein var á dögunum á vef Car Throttle, skoðum hana nánar:
Bretland og Bandaríkin hafa orðið fyrir áhrifum af miklum breytingum á eldsneytiskostnaði og það að innleiða litlar breytingar á akstri getur skipt miklu í bílatengdum útgjöldum. Fólk gæti freistast til að setja vistvæn dekk undir bílinn í nafni þess að spara peninga í eldsneyti, en virka þau í raun og veru? Ef svo er, er þá þess virði að leggja út aukakostnaðinn?
Það eru nokkrar gerðir sem telja má til þeirra helstu þegar kemur að „grænum dekkjum“ – eins og Michelin E Primacy og Continental EcoContact 6.
Þessi dekk fá „eco“ stimpilinn vegna þess að þau hafa umtalsvert lægri mótstöðu í akstri miðað við hefðbundin dekk, með allt að 30 prósenta lækkun á heildarmótstöðu í sumum tilfellum.
Þessi lækkun veltiviðnáms gæti skilað sér í þokkalegum eldsneytissparnaði, þar sem bíllinn getur ekið lengra með því að nota minna eldsneyti á þessum dekkjum. Hins vegar er stærðfræðin á bak við vistvæn dekk og sparnaðinn frekar flókin.
Fyrrnefnd lækkun á veltimótstöðu jafngildir ekki 30 prósenta sparnaði í eldsneytisnotkun vegna þess að eldsneytisnotkun bíls byggist á ýmsum þáttum, eins og loftmótsstöðu og orkutapi í drifrásum.
Dekk bíls eru aðeins ábyrg fyrir um fimmtungi af heildarorkunotkun ökutækis, sem þýðir að vistvæn dekk skipta aðeins sex prósenta mun á heildareldsneytisnotkun á pappír, sem jafngildir 3,5 prósenta mun þegar kemur að raunverulegum akstri.
Eins og greint var frá af systursíðu CarThrottle – DrivingElectric, sýndi önnur rannsókn frá háskólanum í München að vistvæn dekk gætu veitt lítinn sparnað miðað við venjuleg dekk – um það bil 28.000 krónur á um 320.000 km. Það er ekki hægt hunsa þetta, en það er næstum gagnslaust að kaupa ný dekk til að spara smá pening.
Minni dýpt á slitmynstri
Þessi dekk eru oft í upphafi með minni slitlagsdýpt en venjuleg dekk til að lækka mótstöðu þeirra í akstri. Þetta þýðir að slitlagsdýpt mun minnka hraðar en á dæmigerðum dekkjum, sem leiðir til styttri heildarlíftíma og tíðari skipti. Að hafa minni mynsturdýpt gæti einnig haft töluverð áhrif á grip ökutækis, meðhöndlun og hemlun við blautar aðstæður. Það neikvæða við svokölluð vistvæn dekk er kannski ekki virði þess sem lofað er á pappír.
Veggrip í bleytu er mikilvægasti öryggisþátturinn þegar kemur að dekkjum ökutækja og að minnka öryggi við blautar akstursaðstæður í nafni aukinnar skilvirkni á þurru er einfaldlega ekki þess virði fyrir marga kaupendur.
Vistvæn dekk framtíðarinnar kunna að hafa betra jafnvægi á milli frammistöðu á blautu yfirborði og þurru, en í augnablikinu eru þessi dekk ekki besta lausnin til að bæta heildarsparnaðinn.
Það eru nokkrir aðrir hlutir sem er hægt að gera til að nýta dekkin sem best og til að hámarka eldsneytisnýtingu. Haltu dekkjum bílsins á þeim þrýstingi sem mælt er með, þar sem þetta er ókeypis og auðveld leið til að lækka veltiviðnám bílsins og draga úr eldsneytisnotkun. Athugaðu dekkjaþrýstinginn og stilltu að minnsta kosti í hverjum mánuði, eða helst í hverri viku.
Þú getur líka prófað að gera tilraunir með að dæla aðeins of miklu lofti í dekkin á bílnum – um eitt eða tvö psi fyrir ofan ráðlagðan þrýsting.
Þetta gæti dregið úr heildareldsneytiseyðslu bílsins og einnig bætt viðbrögð í stýrinu, en málamiðlunin verður málamiðlun við þægindi og gæði aksturs og slitlagið í miðju dekksins slitnar hraðar en venjulega.
Þetta þýðir að þú þarft að skipta um dekk fyrr en venjulega, sem hefur augljóslega í för með sér aukinn kostnað. Annað sem þú getur gert er að aka bílnum sjaldnar, þó að þetta sé ekki valkostur fyrir marga ökumenn. Prófaðu að draga úr heildarhraða, lyfta fætinum frá bensíngjöfinni þar sem það er hægt og láta bílinn renna áfram með skriðþunga til að lágmarka sóun á orku.
Umræður um þessa grein