Fyrir rúmum mánuði síðan var hinn tvítugi Anthony Perry á leið til vinnu, eins og aðra virka daga, þegar hann kom auga á mann sem lá hreyfingarlaus á lestarteinunum. Perry gerði það sem allir ættu að gera en fáir myndu í raun og veru gera. Hann bjargaði manninum.
Perry er býr í Chicago. Hann er nokkuð vel að sér þegar kemur að almenningssamgöngum því hann þarf að skipta um strætisvagn á leiðinni í vinnuna og síðasta spölinn fer hann með lest. Þetta tekur tíma en svona er rútínan.
Mánudag nokkurn í síðasta mánuði tók hann eftir að maður lá á járnbrautarteinunum þar sem Perry vippaði sér út úr lestinni. Maðurinn virtist með litla ef nokkra meðvitund og því stökk Perry niður á rafmagnaða teinana.
„Ég vonaði að ég gæti bara náð taki á manninum og komið honum af teinunum án þess að finna sjálfur fyrir nokkru en jú, ég fékk dálítið rafstuð. Fann það reyndar um allan skrokkinn en ég lét það ekki stöðva mig,“ sagði Perry sem hóf strax endurlífgun þegar hann hafði dröslað meðvitundarlausum manninum af teinunum. Perry fékk aðstoð frá öðrum vegfaranda við endurlífgunina.
Þeim tókst að lífga manninn við en sá hafði fengið rækilega á lúðurinn í slagsmálum með fyrrgreindum afleiðingum; hann hrundi niður á rafmagnaða lestarteinana og fékk raflost.
Maðurinn var fluttur á sjúkrahús og virðist hafa lifað af. Víkur þá sögunni aftur að alþýðuhetjunni, hinum tvítuga Perry.
Hann fékk mikið hrós fyrir að hafa bjargað manninum og sýnt snarræði. Tveimur dögum síðar var Perry formlega veitt viðurkenning fyrir afrekið og voru það samtökin I’m Telling Don’t Shoot sem vildu verðlauna hann, auk þess sem lögreglan í Chicago veitti honum viðurkenningu.
Bensínkort að gjöf
Early Walker er maðurinn sem stofnaði samtökin I’m Telling Don’t Shoot (sem hafa það að markmiði að losa Bandaríkin við byssubrjálæðinga og stuðla að friði) og afhenti hann Perry 25 dollara bensínkort í viðurkenningarskyni og sagði: „Við vildum sýna í verki hversu mikils við metum þig og það mættu fleiri vera eins og þú. Heimurinn þarf á fleiri Anthonyum að halda,“ sagði Walker.
Hann bætti svo við: „Við vitum að bensínverð hefur rokið upp og vildum þess vegna gefa þér þetta bensínkort.“

„Vá,“ sagði Perry og brosti út að eyrum. „Kærar þakkir. Það kann ég vel að meta,“ sagði hann þakklátur. En staðreyndin var sú að engan átti hann bílinn til að dæla bensíninu á.
Þá heyrðist bílflaut og stór trukkur kom akandi með stærri gjöf á pallinum: Audi A8 árgerð 2009.
Perry greip fyrir munninn og var að vonum orðlaus. Myndin af honum er falleg.

Yfirlögregluþjónn að nafni Roderick Watson var á meðal viðstaddra og sagði hann að það væri mikilvægt að sýna Perry að hann hefði unnið afrek.
„Þetta er það sem við þurfum. Lögreglan getur ekki alltaf verið til staðar. Þetta er fullkomið dæmi um hvernig á að bregðast við slíkum aðstæðum. Hér er óbreyttur borgari sem tók af skarið og gerði það sem þurfti að gera. Fyrir það á hann hrós skilið.“
Á meðan Perry stökk niður á teinana og gerði og græjaði stóð fjöldi fólks og horfði á, mjög margir með síma á lofti og stillt á upptöku. En færri komu til hjálpar. Nei, fólk var upptekið við að deila myndböndum í rauntíma á samfélagsmiðlum.
„Þegar ég horfði sjálfur á myndbönd af þessu og lagði við hlustir þá var nokkuð ljóst að fólk var hrætt en enginn gerði neitt. Fólk vildi bara taka myndband af þessu,“ sagði Perry í samtali við dagblaðið Chicago Sun Times.

Glaður í bragði sagði Perry að bíllinn myndi koma í góðar þarfir. Eftir langar vaktir í vinnunni hefur það oft gerst að hann sofni í lestinni á leið heim og bruni framhjá sinni stöð. Vonandi verður hann ekki eins þreyttur þegar hann ekur þessum fína A8 til og frá vinnu, laus við alla strætisvagnana og lestarklefana.

Fleiri sögur af góðu fólki og bílum:
Fann falin skilaboð í notuðum bíl
Strákurinn sem safnar bílamerkjum
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein