Í gær birti Euro NCAP fyrstu niðurstöður sínar á árinu 2022 með öryggiseinkunn sjö ökutækja. Volkswagen Polo og Taigo krossoverinn fá báðir fimm stjörnur.
Megane E-Tech, fyrsti al-rafmagnaði bíllinn á nýjum grunni undirvagns fyrir rafbíla frá Renault náði einnig hæstu öryggiseinkunn ásamt nýjum Lexus NX. BMW 2 Coupé náði hins vegar ekki nema fjórum stjörnum.
Í júli 2022 gengur í gildi ný löggjöf ökutækja sem hefur með mikilvæg öryggiskerfi að gera. Kerfi á borð við sjálfkeyrandi búnað, sjálfvirka hemlun og skynvæddan hraðastilli.
Þessi nýja tækni verður því sett inn í prófunarferli Euro NCAP á árinu. Það verður vísast nóg að gera hjá þeim við að innleiða nýju tæknina inn í ferlið, og það á sjálfu tuttugu og fimm ára afmæli Euro NCAP.
Allt er þetta gert með framtíðaröryggi ökutækja og notenda þeirra í huga.
Bílaframleiðendur geta því áfram treyst á að viðurkenning á borð við fimm stjörnur í Euro NCAP prófunum auki sölumöguleika bíla þeirra.
Volkswagen var einmitt að koma nýjum Polo á markað með talsverðum útlitsbreytingum ásamt slatta af nýrri tækni í akstursöryggiskerfum.
Fyrir vikið rann Polo-inn ljúflega í gegnum prófið og fékk skráðar fimm stjörnur.
Lexus NX er fáanlegur sem hefðbundinn Plug-in-hybrid og deilir sama undirvagni og RAV4. Þó að Lexus-inn hafi staðið sig vel í prófunum og skorað nægilega mörg stig til að fá fimm stjörnur skráðar, veittu verkfræðingar Lexus ekki nægilegar tæknilegar upplýsingar um bílinn sem venjulega er deilt með Euro NCAP, eitthvað sem telst afar óvenjulegt þegar Toyota samsteypan á í hlut.
Megane E-Tech er nýja stjarna Renault; hreinn rafbíll sem á að endurheimta hlutdeild Renault á markaðnum fyrir meðalstóra fjölskyldubíla.
Með alveg nýrri grind, útliti og endurbættum öryggiskerfum eins og háþróaða akstursaðstoðarkerfinu AEB slær þessi Renault í gegn hvað varðar bíla sem eru ekki bara fallegir heldur öruggir líka. Fimm stjörnu bíll hjá Euro NCAP.
Prófanir á BMW 2 Coupé sýndu að bíllinn býður upp á góða árekstrarvörn og viðunandi öryggisbúnað varðandi gangandi vegfarendur.
Sjálvirka neyðarhemlunarkerfið virkaði vel í einföldum aðstæðum en þar sem fleiri bílar og gangandi vegfarendur komu við sögu var búnaðurinn ekki nægilega góður til að skora fullt hús stiga.
Sérstaklega var nefnt að kerfið virkaði ekki nógu vel þegar hjólað var í veg fyrir bílinn. BMW 2 Coupé fær því aðeins fjórar stjörnur á prófinu.
Afmælisárið hjá Euro NCAP byrjar með prófunum á nokkrum eðalbílum eins og minnst var á hér að ofan.
Euro NCAP telur að næsti áratugur muni hafa í för með sér miklar áskoranir og meðal þeirra breytinga sem vænta má er eitt og annað sem hefur með sjálfkeyrslubúnað að gera sem og annað sem honum tengist.
Síðustu ár hefur Euro NCAP einbeitt sér að nýjum kerfum sem bílaframleiðendur hafa teflt fram á markaðnum eins og háþróaðri sjálfkeyrandi tækni. Markmiðið er að veita bílakaupendum lykilupplýsingar um öryggi bíla á markaðnum eftir sem áður.
Euro NCAP hefur einnig birt einkunnir fyrir VW ID.5 sem fékk fimm stjörnur líkt og forveri hans ID.4 í fyrra ásamt Ford Tourneo, tvíburabróður fimm stjörnu VW Caddy.
Umræður um þessa grein