Sem betur fer er það nú ekki á hverjum degi sem bílum er stolið hér á landi. Það er þó ótrúlegt til þess að hugsa að bifreið var fyrst stolið á Íslandi fyrir 105 árum! Já, í júlímánuði árið 1917 gerðist það.
Kælivatn á hreyfivélina borið í höttum
Morgunblaðið greindi svo frá, þann þriðja júlí árið 1917: „Í fyrrakvöld var rænt bifreið Magnúsar Skaftfelds bifreiðarstjóra þar sem hún stóð á götu.“
Eftir því sem undirrituð kemst næst var Magnús frá Kárastöðum í Þingvallasveit. Hann ók leigubíl í Reykjavík en hann varð skömmu eftir umrædda atburði „einkasali á Íslandi fyrir Hudson og Essex“ bifreiðar.
Magnús fór t.d. með Gullfossi árið 1920 til að kaupa bíla erlendis en meira um það síðar og aftur að fyrsta bílstuldinum!
Ekki leið á löngu þar til eigandinn fór að sakna bílsins og „fékk Skaftfeld þá tvær bifreiðar til þess að leita að þeirri sem hvarf. Náðu þeir henni hjá Miðdal. Hafði bifreiðin þá orðið að staðnæmast þar til þess að fá kælivatn á hreyfivélina, en vegna þess að ferðamennirnir höfðu engin ílát til að sækja vatnið í, þá urðu þeir að bera það í höttum sínum og sóttist það seint,“ segir í fréttinni.
Ferðamenn en ekki þjófar
Já, blessaðir „ferðamennirnir“ allslausir og þurftu að fórna höttunum sínum undir kælivatnið á „ferðabifreiðina“, ekki satt? Fyrst þetta voru nú bara ferðamenn en ekki þjófar, þá hlýtur ránsfengurinn að vera ferðabíll en ekki stolinn bíll.
Nei, ég segi nú bara svona! Smá kaldhæðni. En áfram heldur fréttin og ekki laust við að spennan aukist þegar greint er frá „för ferðamannanna“!
„Foringi fararinnar var Einar Þorgrímsson. Kunni hann eitthvað að stýra bifreið, en hefir þó eigi tekið ökumannspróf svo kunnugt sé,“ segir þar.
Algengt en þó refsivert!
Það hefði eflaust farið verr, ef „foringi fararinnar“ hefði ekki eitthvað kunnað að stýra bifreið. Svo ekki sé minnst á ef „ferðamennirnir“ hefðu verið hattlausir. Það gerðist nú sjaldan í þá daga en eins og grúskarar kannast við má sjá höfuðfat nánast á hverju höfði þegar ljósmyndir þess tíma eru skoðaðar vandlega.
Sem var líka eins gott!
Eins og dæmið hér að ofan sýnir þá kom höfuðfat að gagni við ýmsar aðstæður. En áfram heldur frásögnin í Morgunblaðinu:
„Þetta er í fyrsta skifti að bifreið er rænt hér á landi. Erlendis er það alltítt og eru þó lagðar þungar hegningar við því. Eigi verður um það sagt að svo stöddu hvernig fer um þetta mál, en líklegt er að sektir verði látnar nægja.“
Fleiri orð voru ekki höfð um það að þessu sinni og blaðamaður virðist hafa hitt naglann á höfuðið; lítið ef nokkuð var gert í þessu máli. Í það minnsta fann undirrituð ekkert sem gaf til kynna að Einar þessi, Þorgrímsson, hafi mátt þola frekari opinbera vansæmd en þá að vera nafngreindur í Morgunblaðinu þann 3. júlí 1917. Það er oftar en ekki mikil smán í sjálfu sér og refsing líka.
Þannig var nú sagan af fyrsta bílstuldi Íslandssögunnar og var ekki gert sérlega mikið úr honum. Oft fer allt vel að lokum og þannig virðist það hafa verið í þessu tilviki.
Tengt efni:
Á blússandi ferð á rafbíl 1899
Hjól sem ekki þarf að stíga
Ótrúlegt að bíll kæmist leikandi yfir Öxnadalsheiði
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein