Fyrir Ísland, frá Japan
Fyrir Íslendinga sem vilja komast leiðar sinnar er aðeins eitt verkfæri til, fjórhjóladrif. Subaru XV afhendir þér það í litlum pakka, innsiglaðann með frábærum aksturseiginleikum.
Það ríkir enn vetur á Íslandi þegar þessi orð eru skrifuð. Hann er reyndar rétt að byrja. Þriðja og fjórða haustið er farið og sýnishorn vetrarins er búið að koma tvisvar svo nú hlýtur að vera kominn vetur. Það var því vel við hæfi að ég fengi að eyða degi með Subaru XV á meðan að veturinn var, því daginn eftir að ég skilaði honum var aftur komin hláka á Suðvesturhorni landsins. En daginn sem við sexý vaff (já, ég gaf honum gælunafn) vorum saman var stíf norðanátt, sex stiga frost og 20 sentímetra jafnfallinn snjór yfir öllu. Niðurskurður bæjarfélaganna á Höfuðborgarsvæðinu til snjóhreinsunar gerði daginn líka enn betri.
Skemmtileg hönnun með kröftugt útlit
Það sem kom mér fljótt á óvart með XV var hversu flott hönnunin á honum er. Jafnvel þegar ég sá hann standa í sýningarsalnum hjá BL á Sævarhöfða fannst mér hann vera á fleygiferð. Kröftugar línur í ljósunum að framan gefa honum sterkan svip sem teygir sig svo aftur með hliðunum. Fagurt tæki sem sver sig vel í Subaru ættartréð. Það leynir sér líka ekki að það er eitthvað sérstakt undir húddinu því það er með lægri línu en gerist hjá öðrum bílaframleiðendum. Subaru hefur einmitt einsett sér að bjóða bifreiðar með Boxer vélum.
En hvað eru boxer vélar? Fyrir þá sem ekki vita það er best að útskýra þær svona: Ef við ímyndum okkur að bílvél sé brauðrist og brauðsneiðar strokkarnir (þar sem bensínið brennur til að koma okkur áfram) þá er boxer vél ein af þessum flottu brauðristum á hótelum þar sem brauðin liggja flöt.
Ekki bara útlitið, heldur gáfur líka
Og hvað þýðir það að stokkarnir liggja flatir? Jú, þyngdarpunktur bílsins er lægri og finnst manni hann því halla mun minna í beygjum en aðrir skutbílar. Það gerir aksturinn enn ánægjulegri. Ef þú ert svo allt í einu kominn í farþegasætið og ljósmyndarinn þinn byrjaður að keyra um sveitir Mosfellsbæjar á snæviþöktum vegum ertu þakklátur fyrir hversu rásfastur hann er og drífur vel, því þá þarftu ekki að fara út og ýta ef hann festir sig. Þar virkar líka fjórhjóladrifið og sannaði það sig mjög vel á þeim vegum sem við fórum. Bíllinn notar spól og skrikvörn til varnar því að festast og hægt er að sjá á litlum fjölnotaskjá efst í mælaborðinu hvað tæknin er að gera fyrir þig. Sá fjölnotaskjár sannaði notagildi sitt þegar að ég var búinn að tengja símann minn við Apple Carplay. Hann hélt þá áfram að sýna þær upplýsingar sem þú vilt sjá frá bílnum þínum eins og eyðslu, útihitastig, fjarlægðarskynvædda hraðastillirinn og þessháttar.
Geggjuð sæti og innrétting
Á bílnum sem við prufukeyrðum voru gullfalleg grá og svört leðursæti með appelsínugulum saumum. Þau koma ótrúlega vel út og myndu þau sæma sér prýðisvel sem stofudjásn. Einstaklega gott efnisval er í XV og í miðju mælaborðinu var snertiskjárinn til að stýra afþreyingarkerfi bílsins og var hann auðveldur og þægilegur í notkun. Í aftursætinu var mjög gott pláss og hrósaði konan mín sérstaklega hversu auðvelt það var að koma fyrir barnabílstól. ISIOFIX festingarnar voru á sínum stað og í skottinu er að finna gott pláss fyrir farangur. Skottið hafði líka króka í hliðunum til að hengja upp burðarpoka og þar var líka að finna eina bestu útfærslu sem ég hef séð á geymslu miðjubelti aftursætis þegar það er ekki í notkun.
Lokaorð
Á Íslandi er oft á tíðum erfitt að komast á milli staða vegna hálku, möl og snjó. En á Subaru XV er ekkert mál að komast á milli staða þökk sé frábærum aksturseiginleikum og góðu fjórhjóladrifi. Hann hefur gott pláss fyrir litlar fjölskyldur og hönnun sem sker sig úr bílum í svipuðum stærðarflokki. Hann kemur mjög vel búinn og skilar sér mjög vel áfram. Það eru fáir fólksbílar í þessum stærðarflokki sjálfskiptir og með fjórhjóladrif. Ég mæli með XV fyrir alla sem vilja komast leiðar sinnar, hvernig sem færðin er. Taktu hann bara í rauðu eða appelsínugulu.
Ef þér lýst áann’, keyptann.