Það getur verið sniðugt, áður en básúnað er að maður hafi fundið Batmobile úti á víðavangi, að kanna umhverfi fundarstaðarins aðeins. Já, bara að ganga úr skugga um hvort í næsta nágrenni sé skemmtigarður eða tökustaður kvikmyndar, svo dæmi sé tekið.
„Batmobile Mysteriously Found Abandoned In A Field“ er fyrirsögn greinar sem birtist í dag á bílavefnum Motorious. Í greininni er fjallað nokkuð ítarlega um þessa eftirlíkingu Batmobile sem fannst „yfirgefin einhvers staðar í útjaðri Dallas-Fort Worth en nákvæm staðsetning liggur ekki fyrir,“ eins og segir þar.
Myndirnar af bílnum birtust fyrir nokkrum dögum á Instagram-síðu Rotting Classics. Fylgjendur eru hátt í 200.000 og hafa eðli máls samkvæmt spunnist nokkrar umræður um þennan „dularfulla“ Batmobile
Skemmst er frá því að segja að í fyrrnefndri grein fer greinarhöfundur á flug og fullyrðir að bíllinn sé í toppstandi og að augljóst sé að vel hafi verið hugsað um hann áður en Batmobile endaði með „dularfullum hætti“ úti í móa.
„Myndi seljast á augabragði“
Svo heppilega vill til að bíllinn er með lykilinn í svissinum, eins og algengt er með yfirgefna bíla – er það ekki annars?
Greinarhöfundur minnist raunar ekki á lykilinn en hann sést nú alveg á tveimur myndum.
Hins vegar segir hann að þessi dularfulli Batmobile sé í svo góðu standi að hann myndi pottþétt „seljast á augabragði“ ef hann væri til sölu.
Ekki nóg með það heldur mætti án efa fá fyrir hann væna summu. „Sú staðreynd er skammarleg að bíllinn sé bara úti í móa,“ segir þar.
Skemmtigarðurinn með Batman-þemanu
Þannig er að í útjaðri Dallas-Fort Worth er risastór skemmtigarður og nefnist hluti hans einfaldlega Gotham City.
Þar er vissulega margt Batman-tengt og til að mynda er svipaður bíll við hlið eins Batman-rússíbanans.
Gott ef þessi „dularfulli“ Batmobile stendur ekki bara einmitt ásamt ýmsum tækjum sem tekin hafa verið úr notkun og eru geymd á draslaralegu svæðinu við einn enda skemmtigarðsins Six Flags Over Texas.
Undirrituð skrapp þangað gegnum hræódýra ferðagátt er nefnist Google Earth. Þar má til dæmis úr lofti sjá ýmislegt sem vel gæti verið hinn „dularfulli“ og „yfirgefni“ Batmobile.
Almenn skemmtilegheit og fleira Batman-tengt:
Ensk skrítnubílaleiga hressir bætir og kætir
Furðuveröld Jays Ohrberg
Neðanjarðarsafn með „bubblu-bílum“ og ótrúlegum hlutum
Bílabrellumeistari margra James Bond kvikmynda
?Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein