Veturinn bankar senn upp á!
Ýmislegt sem við getum gert til að undirbúa bílinn – og okkur fyrir veturinn
Núna sýnir dagatalið okkur að það er rétt mánuður í fyrsta vetrardag, og nokkrum dögum seinna er okkur heimilt að setja vetrardekkin undir bílinn.
Það er ýmislegt sem við getum gert til að mæta vetrinum á auðveldari hátt, og gera okkur þar með lífið einfaldara í vetrarbyrjun.
Mikilvægt að halda gúmmíköntum umhverfis hurðir og farangursrými hreinum
Þegar snögg veðrabrigði verða og næturfrostið laumast inn, kemur oft fyrir að erfitt er að opna hurðirnar á bílnum. Þetta á einnig við um farangursrýmið og í dag er það sérlega mikilvægt að þar virki þetta eins og það á að gera, því margir nýir bílar eru komnir með sjálfvirka opnun, eða fjarstýrða.
Þessar gúmmíþéttingar á brúnum hurða á bílnum þínum eru mikilvægar til að halda rigningu, sandi, köldum vindi og raka frá því að síast í gegnum bilið inn í farþegarýmið. Ef gúmmíkantur skemmist eða ástand hans versnar verður andrúmsloftið í bílnum þínum það sama og það úti – hvort sem það er heitt og rakt eða kalt og ísing.
Til að koma í veg fyrir að þetta gerist eru hér nokkrar leiðir til að sjá um að halda gúmmíköntunum hreinum.
1. Þvoðu kantana
Haltu gúmmíköntunum hreinum með því að þvo þá reglulega með heppilegri sápu fyrir bíla og volgu vatni. Dýfðu tusku eða svampi í fötuna og þvoðu óhreinindin af gúmmíkantinum. Þetta ætti að gera reglulega samtímis og það er verið að þvo afganginn af bílnum – sem ætti að gera reglulega. Þetta tekur ekki nema fáeinar mínútur og það sem þarf til er fata með sápuvatni og tuska eða svampur.
2. Skoðaðu alla gúmmíkanta og hvort þeir séu farnir að losna
Það er mikilvægt að gúmmíkantarnir séu örugglega fastir á sínum stað svo að þeir virki almennilega og haldi raka úr innanrými bílsins. Þegar þú hreinsar gúmmíkantana skaltu skoða þá vel til að tryggja að þeir séu hvergi byrjaðir að losna. Í dag sitja margir gúmmíkantar í „klemmufestingu“ sem kantinum er þrýst inn í. Ef svo er, er einfalt að festa hann aftur, stundum gæti þurft að nota mjótt áhald eða borðhníf til að koma gúmmíinu inn í festinguna.
Ef um er að ræða límda kanta er einfalt að kaupa túpu af snertilími, bera á kantinn og samsvarandi stað í hurðarfalsinu og þrýsta á sinn stað þegar límið er tilbúið. Fylgdu leiðbeiningunum á líminu til að festa gúmmíið aftur við hurðarfalsið.
Til að tryggja að gúmmíkantur hrindi vel frá sér raka er gott að smyrja hann með sílíkoni. Ýmist er hægt að úða sílíkoni í klút og strjúka yfir gúmmíkantinn eða smyrja því beint á kantinn og strjúka síðan yfir með mjúkum klút. Mikilvægt er að þurrka yfir á eftir til þess að sílíkon smyrjist ekki í fatnað þegar farið er inn eða út úr bílnum.
3. Berðu sílíkon á kantana
Til að koma í veg fyrir að gúmmíið þorni og harðni og springi í framtíðinni er gott að bera sílíkon á það. Þetta verndar kantinn gegn kulda og hita, heldur mýkt hans og smyr í leiðinni.
Síðast en ekki síst kemur þetta í veg fyrir að raki safnist á kantinn sem síðan frýs og „lokar“ hurðinni!
Úðabrúsar með sílikon-úða innihalda aðeins lítið magn af „smurefni“, þannig að betri leið til að bera sílíkonið á er að nota þykkni, ef það er aðgengilegt. Með því er hægt að bera sílíkonið beint á kantinn og strjúka síðan yfir með mjúkum klút. Ef aðeins úðaefni er til staðar á að úða því í mjúkan klút og nota hann síðan til að bera á kantana.
- Með því að gera þetta reglulega kemurðu í veg fyrir að veðrið hafi áhrif á ástand gúmmíkantana.
- Munum að óhreinir þéttikantar endast skemur og eins draga óhreinindi í sig raka og þannig er meiri hætta á að frostið hafi áhrif.
Skoðum þurrkublöðin
Eitt mikilvægasta öryggistækið á bílnum eru þurrkublöðin. Núna þegar fyrirsjáanlegt er að veður gerast misjöfn er mjög mikilvægt að þau séu í lagi.
Þurrkublöðin eru oft orðin slitin eftir notkunina yfir sumartímann. Þurrkublöðin harðna í hita og sólarljósi og hörð blöðin eiga það til að „skripla“ hreinlega á rúðunni þegar kveikt er á rúðuþurrkunum.
Það eru til margar gerðir þurrkublaða, en þeim sem þetta skrifar hefur reynst best að vera með „heil“ blöð, sérstaklega að vetrarlagi. Eldri gerðir þurrkublaða voru úr gúmmí sem haldið var af málmboga með klemmum sem héldu utan um sjálft þurrkublaðið. Hægt er að fá svona þurrkublöð með „kápu“ utan um málmarminn, en í dag eru hins vegar komin þurrkublöð þar sem sjálft blaðið er burðurinn og engin málmgrind lengur til staðar. Þessi gerð af þurrkublöðum hentar sérlega vel að vetrarlagi því þau safna á sig mun minni snjó og ísingu.
Gott að nota vatnsfráhrindandi vörn á framrúðuna
Auk góðra þurrkublaða getur verið frábær viðbót að nota vatnsfráhrindandi varnarefni sem er borið á framrúðuna. Dæmi um slíkt efni er Rain-X, sem borið er á hreina framrúðuna (gæta þarf þess að hreinsa rúðuna vel áður en efnið er borið á) og síðan skolað með vatni og þurrkað yfir með mjúkum klút eftir að efnið hefur þornað á rúðunni. Sá sem þetta skrifar hefur notað Rain-X um árabil með ágætum árangri, en núna í seinni tíð hef ég notað nýtt efni frá Japan, Glaco soft99, sem verslunin Classic Detail á Bíldshöfða 16 selur, en á umbúðunum er „púði“ sem gagnast mjög vel til að bera efnið á.
- Sé svona efni borið á framrúðuna nær frost og hrím ekki eins vel að festast við hana.
Eru ljósin í lagi fyrir veturinn?
Það gefur auga leið á þessum árstíma þegar veturinn færist nær og dagurinn verður sífellt styttri, að ljósin á bílnum skipta máli.
- Það er líka mikilvægt að ÖLL ljósin á bílnum virki rétt, séu rétt stillt og það logi yfirleitt á þeim, því þannig sést vel til bílsins í umferðinni.
Hvers konar aðalljós eru á bílnum?
Bílar eru búnir tiltekinni gerð aðalljósa. Algengar gerðir eru meðal annars halógen, Xenon (eða HID) og LED á nýjum ökutækjum. Flest ökutæki eru þó enn í dag með halógenljósum. Hér er fjallað um mun á milli þeirra:
- Halógen: Halógenljós nota volfram-halógenþráð blandað við halógengas til að mynda mun bjartara ljós en venjuleg aðalljós.
- Xenon/HID: Xenon er ein tegund af HID (high intensity discharge) peru. Í stað þess að nota hitaðan þráð, nota Xenon aðalljós gas. Xenon ljós eru bjartari, hafa lægra hitastig og endast lengur. Hafa verður einnig í huga að HID perur geta verið aðeins dýrari og oft betra er að mæla með uppsetningu þeirra með aðstoð fagmanna.
- LED: LED (ljósdíóður) hafa forskot á halógen að því leyti að LED-ljós þurfa miklu minni orku til að virka, hitna mun minna en halógenljós og endast lengur.
Dofna ökuljósin með aldrinum?
Stutta svarið er JÁ! – Flest aðalljós verða daufari með tímanum. Sé skipt reglulega um þau tryggir það bestu lýsinguna. Sumir eigendur bíla hafa skipt út venjulegum halógenljósum og látið setja öflugri aðalljós sem senda frá sér ljós sem er nær lit á náttúrulegu dagsbirtu. Þessar hvítari og bjartari perur hjálpa til við að auka sýnileikann á nóttunni.
- Dagarnir eru styttri um þessar mundir og það er myrkur lengur, sem þýðir að við treystum aðalljósunum miklu meira yfir veturinn en restina af árinu.
- Þoka og mikil rigning getur dregið úr skyggni og það er mjög mikilvægt að ganga úr skugga um að bíllinn sé sýnilegur öðrum ökumönnum.
Athugaðu ljósin á bílnum
Kveiktu á öllum ljósunum; stöðuljósum, afturljósum, stefnuljósum, lágu- og háu ljósum, bakkljósum og hemlaljósum til að tryggja að þau virki rétt. Ef þú ert ekki með neinn til að hjálpa við að kanna aftur- og bremsuljósin, getur þú notað speglun frá rúðu til að athuga þetta sjálfur. Viðgerð á öllum sprungnum perum er venjulega einföld og getur aðeins tekið nokkrar mínútur.
Mikilvægt er að skipta um perur í báðum aðalljósum ef önnur þeirra fer. Hægra megin á myndinn er bíll með eina nýja peru og þá hægra megin gamla. Mikill munur er á ljósstyrkleika.
Munum að hreinsa snjó af ljósunum
Mikilvægt er að hreinsa óhreinindi og ekki sé talað um snjó af ljósunum á bílnum áður en ekið er af stað. Hér í gamla daga voru allir bílar með perur sem hitnuðu og með tíð og tíma náði hitinn frá ljósunum að bræða snjóinn og klakann af ljósunum.
- Nýju perurnar hitna mun minna – eða bara alls ekki neitt og þá þarf að hreinsa þetta vel að með handafli.
Muna eftir að nota rétt dagljós!!
Því miður eru margir bílar með þannig ljósabúnaði að það kviknar bara á „dagljósum“ að framan á bílnum, en slökkt er á öllum ljósum að aftan. Munið að snúa ljósarofanum af AUTO yfir á stillingu fyrir full ljós!
Staðreyndin er að margir ökumenn nýrra bíla eru ólöglegir við akstur sökum ljósleysis.
Flestir nýir bílar eru búnir ljósum sem kvikna þegar bíllinn er settur í gang og í fyrstu má halda að um sé að ræða ökuljós en sú er ekki raunin. Víða má sjá í umferðinni ökumenn nýrra bíla sem gera sér ekki grein fyrir þessu og aka um með takmörkuð ljós og eru jafnvel ljóslausir að aftan. Þessi ljós sem kvikna sjálfkrafa á nýjum og nýlegum bílum eru yfirleitt ófullnægjandi til aksturs þar sem ekki er um að ræða ökuljós og því verða ökumenn sjálfir að sjá til þess að öll „ökuljósin“ séu kveikt.
Ljósabúnaður bifreiða í dag er orðinn töluvert fjölbreyttari en áður en það er alfarið á ábyrgð ökumanna að hann sé rétt notaður.
Drögum úr hættu á raka inni í bílnum
Ekkert er hvimleiðara en að koma að bílnum að morgni og sjá að rúðurnar eru hrímaðar að innan eftir frostkalda nótt.
Hrímið myndast vegna raka sem er til staðar inni í bílnum. Oftast myndast þessi raki vegna þess að við berum með okkur snjó og bleytu með fótunum þegar við komum inn í bílinn í vetrarfærð, og þessi raki gufar upp og sest innan á rúðurnar.
- Draga má úr þessari rakamyndun með því að setja dagblöð undir motturnar í bílnum. Dagblöðin draga í sig rakann, og ef við skiptum um reglulega og setjum ný og þurr dagblöð í staðinn minnkum við rakamyndunina.
- Mjög hefur það færst í vöxt að settar séu vindhlífar á hliðarglugga bíla. Sé bíllinn með svona hlífar er gott ráð að skilja eftir nokkurra millimetra bil efst á framrúðunni, þar sem vindhlífin veitir skjól, og þá nær rakinn að sleppa út í stað þess að setjast á rúðurnar og mynda hrím.
Umræður um þessa grein