Skrítnar skrúfur, skrúfuskortur og lausar skrúfur! Mannfólkið er til í ýmsum útgáfum og ekki alltaf hægt að grípa skrúfjárnið og herða þegar skrúfur eru lausar í fólki. Hér er áhugaverð saga af stúlku sem varð ill út í Chevrolet Impala ´67.
Það er kannski ekki fallegt að segja að hún hafi verið með lausa skrúfu, stúlkan sem um ræðir. Þá hlýtur að vera í lagi að segja að hún hafi ekki „gengið á öllum“. Er það ekki mun fallegra?
Gjörsamlega bugaður maður skrifaði sögu, mikla sorgarsögu, á Reddit fyrir nokkrum misserum. Með hryggð í hjarta sagði hann frá kærustu, fyrrverandi kærustu, sem var með einhverjar „gangtruflanir“ og ekki gekk sambandið upp því það þarf jú tvo til.
Þannig var að maðurinn hafði eignast sérdeilis fínt eintak af Chevrolet Impala, árgerð 1967. Eins og við auðvitað vitum vel þá er ómögulegt og beinlínis rangt að eiga ekki bílskúr þegar maður á svona fínan bíl. Þess vegna keypti hann sér hús og húsinu fylgdi risastór bílskúr. Tvöfaldur og rúmlega það.
Bílnum kom hann fyrir í skúrnum og hófst handa við að gera fínan bíl enn fínni. Hann komst í stuð og tók bílinn eiginlega alveg í sundur. Það bara gerðist, og allt í góðu með það því maðurinn vissi vel að hann gæti sett bílinn saman aftur.
Jæja, þar sem bíllinn var búinn að dreifa úr sér í skúrnum var eiginlega ekkert pláss fyrir annan bíl, eðli máls samkvæmt. Þetta líkaði kærustu mannsins hreint ekki.
Húsið stendur á flennistórri lóð og hægt að leggja á ýmsum stöðum en kærastan vildi ekkert leggja bílnum sínum undir „bölvuðum trjánum þar sem bölvaðir fuglarnir gætu dritað á bílinn hennar“. Með öðrum orðum þá féll tillaga mannsins (þess efnis að hún legði bílnum undir tré) í grýttan jarðveg og kærastan var alveg „drullufúl“ og afsakið orðavalið.
Gaman að koma heim?
Þegar okkar maður kom heim úr nokkurra daga vinnuferð tók kærastan á móti honum og var alveg æðislega kát og glöð.
Þegar maðurinn spurði hvar hún hefði lagt bílnum sínum (því hann var hvergi að sjá) svaraði hún ljómandi glöð að hún hefði fengið flutningakarla, indælisnáunga, til að flytja bílinn, og allt sem honum fylgdi, beinustu leið á næstu ruslahauga.
Þarna áttaði maðurinn sig á því að ekki einasta væru gangtruflanir í stúlkunni heldur virtist vélartölvan og allt hreinlega farið. Já, brunnið yfir!
Rökrétt næsta skref var að ráða lögfræðing og það var einmitt það sem hann gerði. Hann kærði stúlkuna fyrir þjófnað og sönnunargögnin voru öll til. Hann var nefnilega með eftirlitsmyndavélar út um allt og fékk lögreglan upptökurnar.
Lögreglunni tókst að hafa uppi á flestu því sem gerði bílinn að bíl. Svona næstum öllu.
Svona getur lífið nú verið kúnstugt! Vonandi er sjaldgæft að annar aðilinn í sambandi verði afbrýðisamur út í bíl en það getur greinilega gerst.
Fleiri mannlegar bílasögur:
Martraðarkennd upplifun bílasala
Stal 50 bílum til að gleðja kærusturnar 16
Algjör skúrkur: Sagan af Darren og Dave
?Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein