Uppgerður Ford Bronco árgerð 1979 kostar slatta
Uppgerð eða endurbygging á gömlum bílum virðist vera að gefa af sér sand af seðlum ef marka má eftirspurn. Yngri gerðir verða vinsælar til uppgerðar og verðið á þeim eintökum sem í boði eru er talsvert hátt.
Fyrir áhugasama bílasafnara: Þessi Bronco árgerð 1979 er boðinn til sölu á ebay og byrjunarverð er ríflega 10 milljónir.
Ford F-150 í grunninn
Í grunninn var þessi bíll byggður á þáverandi F-150 grunni frá árinu 1978 en hann var arftaki hins eina sanna Ford Bronco sem flestir þekkja.
Í augum bílasafnara hefur hann reyndar fallið aðeins í skuggan af þeim gamla góða en er að sækja í sig veðrið núna.
Tekinn í nefið
Þessi Bronco árgerð 1979 hefur verið tekinn í nefið og sést það vissulega á meðfylgjandi myndum. Í endurgerð bílsins hefur brúni tónninn fengið að njóta sín en sá litur hæfir bílnum líka vel.
Lúxus innrétting
Bíllinn er í Ranger XLT útgáfu og innréttingin hefur alveg verið endurgerð einnig. Teppin ná upp á hurðaspjöldin og viðarpanellinn gefur mikið.
Loftkælingu og hljómtækjum hefur verið bætt við pakkann. Einnig má taka toppinn af bílnum og þá er hann orðinn pallbíll.
Kraftur í kögglum
Undir vélarhlífinn má sjá 351 kúbika V8 vél sem smíðuð var árið 1973. Hann er með MSD kveikju en slík gefur marga neista við lægri snúningshraða ásamt öflugari og sneggri neista til að kveikja betur í blöndunni. Þessir öflugu neistar tryggja fullkomna brennslu eldsneytisblöndunnar frá lausagangi að hámarks snúningshraða og framleiða þannig meiri kraft.
Vélin hefur síðan verið pöruð við þriggja gíra sjálfskiptingu (handskiptri) og að sjálfsögðu er hann fjórhjóladrifinn.
Nýja Bronco æðið sem virðist þegar skollið á, áður en nýjasta útgáfa bílsins hefur verið sett á markað mun væntanlega tendra upp áhugann á Ford Bronco frá þessum gamla tíma. Hins vegar gæti verið flott að sjá þann nýja í svona tvítóna brúnni litasamsetningu.
(Byggt á grein autoblog.com)
Umræður um þessa grein