„Bæjarleiðir, góðan dag.“
„Góðan dag. Get ég fengið að tala við 79 af stöðinni?“
„Hann Ásgeir er bara ekki við, hann keyrir nefnilega strætó á daginn. Það er helzt að reyna að ná í hann heima.“
Eftir langa mæðu er Ásgeir loksins heima, og þegar við spyrjum, hvort hann sé ekki til með að láta rekja ofurlítið úr sér garnirnar, svarar hann, að það sé allt í lagi, leigubílstjórar séu svo léttlyndir.
Ásgeir er Stefánsson og keyrir Y-523.
Þannig hófst umfjöllun Tímans sumarið 1962, um leigubílstjóra; mennina á „stöðinni“ eins og segir þar.
Kveikjan að umfjöllun Tímans var kvikmynd sem unnið var að, kvikmynd gerð eftir bók Indriða G. Þorsteinssonar, Sjötíu og níu af stöðinni. Bókin kom fyrst út árið 1955 en mikið þótti til þess koma að gerð væri kvikmynd eftir bókinni.
Segir í fyrrnefndri grein í Tímanum 1962 að ástæða þess að bókin væri á allra vörum „er sú, að þessa dagana er unnið að kvikmyndun hennar, fyrztu íslensku sögunnar, sem kvikmynduð er á Íslandi með íslenzkum leikurum og íslenzku tali.“
Jú, og samtalið hér að ofan, þar sem óskað var eftir að ná tali af „79 af stöðinni“ var raunverulegt og hjá Bæjarleiðum var það fyrrnefndur Ásgeir sem var með það númer. Verður vikið nánar að „79“ bílstjórunum síðar í greininni.
Forvitni fréttamanns kviknar
Þegar undirrituð var fréttamaður á RÚV kom það fyrir að leigubíll var notaður til að komast á milli staða. RÚV var með samning við leigubílastöð og var þetta kostur sem gott var að nýta þegar kvikmyndatökumaður og fréttamaður gátu ekki samnýtt ferðir.
Í þessum ferðum ræddi ég við ófáa leigubílstjóra og komst að því hvílíkir gullmolar það eru oftar en ekki sem gegna þessu starfi. Tala fæstir af sér. Hlusta. Sjá öll ósköpin í litrófi mannfólksins.
Sjá fólk í versta standi og því besta.
Þjónusta fræga og ósnertanlega sem og þá sem enginn þekkir né vill þekkja. Sjá og heyra það sem enginn ætti að heyra eða sjá. Veita nokkurs konar sálfræðihjálp. Fá stundum út um allan bíl það sem „býr“ innra með (magainnihald) farþegum.
Þegja yfir öllu saman.
Lenda í fáránlegum aðstæðum
Leigubílstjórar eru magnaðir og ég ber ómælda virðingu fyrir flestum þeirra. Auðvitað eru bjálfar inn á milli eins og í hverri annarri stétt. En þeir eru nú ekki til umfjöllunar hér.
Nokkrum sinnum á þessum fréttaferðum mínum í leigubílum, viðraði ég við bílstjóra áhuga minn að safna þessum ótrúlegu sögum þeirra saman. Eðli máls samkvæmt er það erfitt og þyrfti nafnleynd að vera svo gríðarleg að hætt væri við að karaktereinkenni myndu alveg þurrkast út og sögurnar missa marks.
Hvað sem því líður þá er starfsvettvangur leigubílstjórans eins og Gósenland í augum hvers mannfræðings og þarf maður virkilega að halda sér fast og spenna öll beltin til að fara hreinlega ekki á flug inni í leigubílnum þegar sumir bílstjórarnir byrja að tala.
Eins og segir í millifyrirsögninni lenda leigubílstjórar oft í ótrúlegum aðstæðum; jafnvel fáránlegum.
Fólk neitar að borga. Býður blíðu sína sem greiðslu fyrir farið. Gerir dónalega hluti í bílnum. Grætur. Hótar lífláti; sínu eigin eða bílstjórans. Bílstjórinn er því oftar en ekki í hlutverki sáttasemjara, sálfræðings eða sjálf rödd samviskunnar eða hreinlega rödd hins alvitra.
Þetta er nú ekki nýtt af nálinni. Það má glögglega sjá þegar skroppið er 60 til 70 ár aftur í tímann. Bílarnir hafa breyst og umferðin líka en farþegarnir og bílstjórarnir hafa ekki tekið ævintýralegum breytingum.
Þar sem umfjöllunarefnið er mikið að umfangi, datt undirritaðri í hug að skipta því í tvo eða þrjá hluta og vonandi kunna lesendur því vel. Annar hluti verður birtur eftir fáeina daga.
Ökuskírteini númer 78
Bílstjórinn sem við byrjum á var hvorki númer 79 á sinni stöð né heldur með ökuskírteini númer 79 heldur var skírteinið númer 78 og ökumaðurinn fæddur árið 1888. Ökuskírteinið fékk hann árið 1918 og þegar blaðamaður Vísis ræddi við hann, Magnús Ólafsson, árið 1953, var hann elsti starfandi leigubílstjóri landsins. Þá ók hann R-392 hjá BSR og hafði gegnt starfi leigubílstjóra í 36 ár. Þá, árið 1953, voru leigubílar á Íslandi á bilinu 300-400 talsins.
Bíll Magnúsar var ekki sá nýjasti í flotanum en um var að ræða Dodge, árgerð 1941.En Magnús blessaður, átti í vandræðum með að finna nýrri bíl en ´41 árgerðina af Dodge sem hentaði: „Hefi ekki getað fengið bíl, sem ég vil eiga, en mér er ekki sama, hvað ég keyri.
Mér hefur ekki litizt á þá bíla, sem til boða hafa verið.
En það er geysidýrt að aka gömlum bíl. Tekjur mínar fara að verulegu leyti í viðhald. Að vísu fékk ég nýjan mótor, en það er sama. Þetta er óhemju peningur. Nú þarf ég bráðum að kosta miklu upp á „boddíið“. Annars eru þeir fleiri, sem hafa svipaða sögu að segja hjá BSR,“ sagði Magnús árið 1953.
Átti að sækja konuna úti í mýri
Að standa í pexi var eitthvað sem Magnúsi hugnaðist alls ekki, enda ekki beinlínis í starfslýsingu leigubílstjóra. Helst sagðist hann ekki vilja skipta sér af farþegum sínum en þó kom það fyrir.
„Einu sinni ók ég hjónum, sem rifust svo heiftarlega, að eiginmaðurinn barði konu sína, en þau höfðu farið út úr bílnum. Maðurinn kom upp í bílinn og sagði mér að sækja konu sína út í mýri.
Ég hélt nú ekki og sagði að það stæði honum nær. Hins vegar vildi ég ekki skilja konuna eftir þarna, og sótti hana og bar hana upp í bílinn.
Svo var ekið af stað, en á Öskjuhlíðinni ætlaði maðurinn að fara að berja konu sína á nýjan leik. Þá sagði ég „pass“, opnaði bílinn og rak manninn út, en ók konunni heim. Svona lagað er ósköp leiðinlegt.“
Já, maður getur rétt ímyndað sér að annað eins hafi áhrif. Höfum í huga að þetta var árið 1953 og möguleikarnir í stöðunni kannski ólíkir eða færri en í dag.
Þau eru falleg, lokaorðin í grein Vísis um leigubílstjórann Magnús Ólafsson. Þar er greint frá fjölskylduhögum hans en hann hafði kvænst á ný eftir að eiginkona hans lést mörgum árum fyrr:
„Síðari kona hans er Guðrún Sveinsdóttir frá Miklholti í Biskupstungum. Þau eiga tvo drengi, 5 og 7 ára, sem fagna pabba sínum, er hann kemur þreyttur heim úr vinnunni, sem hann hefur stundað svo lengi og af svo mikilli trúmennsku,“ sagði þar.
Patandi Frakki og bíll á iði
Nú er tímabært að víkja aftur að „79“ bílstjórunum.
Ásgeir Stefánsson, sem var númer 79 hjá Bæjarleiðum árið 1962 og sá sem minnst var á í inngangi greinar, var spurður hvernig væri að „keyra kanana“. Ásgeir sagði að þeir væru síst verri en Íslendingarnir, að því gefnu að bílstjóri skildi hvað þeir segðu. Ekkert til að gera veður út af!
„Það er verra, þegar farþegarnir tala ekkert nema frönsku, eins og kokkurinn, sem var í Glaumbæ í vetur. Ég keyrði hann nokkrum sinnum, og það voru nú meiri lætin, maður. Ég skildi ekki orð af því sem hann sagði.
Hann er nú ekkert smásmíði, maðurinn, og svo pataði hann í allar áttir og blaðraði.
Ég skildi ekkert, hvað hann var að fara, en ég pataði bara á móti, eins og vitlaus maður,“ sagði Ásgeir.
Lokaði eyrunum alveg
„79 af stöðinni“ hjá BSR árið 1962 reyndist vera maður að nafni Marel Vilbogason, kallaður Malli. Blaðamaður Tímans tók hann tali með það fyrir augum að kanna hvort ólán fylgdi því að vera númer 79. Malli, sem hafði ekið leigubílnum R-1241 í sjö ár, kannaðist ekki við ólán vegna númersins en sagði að ýmislegt fylgdi starfinu; bæði gott og slæmt.
„Auðvitað getur komið fyrir að maður fái ruddamenni í bílinn, en ég man ekki eftir neinum sérstökum vandræðum í því sambandi. Yfirleitt eru menn kurteisir og almennilegir.“
Aðspurður hvort leigubílstjórar heyrðu ekki ýmislegt, svaraði Malli: „Sjálfsagt, ef maður nennti að leggja eyrun við. Ég loka þeim alveg, maður getur ekki verið að hlusta á það, sem manni kemur ekkert við.“
Dónalegur íþróttakappi
Síðasti leigubílstjóri númer 79 árið 1962, var Gísli Sesselíusson, á Borgarbílastöðinni. Sá var fyrrum lögregluþjónn en nætuvaktirnar hjá lögreglunni urðu til þess að hann skipti um starf. Þegar blaðamaður Tímans náði tali af Gísla var hann hæstánægður á splunkunýjum leigubíl með númerið R-7520.
Ekki taldi hann ógæfu fylgja númerinu 79, frekar en hinir bílstjórarnir tveir og sagði Gísli að farþegar væru alla jafna dásamlegir. Aðeins einu sinni hefði komið fyrir „að maður hafi sýnt slíka ruddamennsku, að ég þyrfti að vísa honum út úr bílnum, og þó skömm sé frá að segja, þá var það þekktur íþróttakappi, sem ekki sízt hefði átt að sjá sóma sinn í að haga sér vel.“
„Sjáum oft aðra hlið á þjóðlífinu“
Dýrfirðingurinn Kristján Þorgeirsson rabbaði við blaðamann Alþýðublaðsins vorið 1965. Þá hafði hann verið leigubílstjóri í átta ár, eða frá árinu 1957.
Þroskuð sýn hans á mannfólkið og lífið sjálft vakti athygli mína og er hér gripið niður í viðtalið þar sem Kristján var spurður hvernig hann kynni við sig í starfi leigubílstjóra:
„Eitthvað þurfa allir að hafa til að lifa af, og þá er meira atriði hvernig starfið er rækt en hvað það er. Bílstjórastarfið er lærdómsríkt. Við kynnumst mannlífinu frá ýmsum hliðum, sjáum oft aðra hlið á þjóðlífinu en upp snýr daglega. Þannig skapar starfið möguleika til mikillar lífsreynslu, veitir á vissan hátt möguleika til að eiga hlutdeild í annarra manna lífsreynslu líka,“ sagði Kristján Þorgeirsson og þessi góðu vísdómsorð eiga án efa víða við.
„Bera með sér einkenni fábjánans“
Áhuginn á starfi leigubílstjórans virðist hafa verið nokkur á þessum árum og vorið 1966 birti Fálkinn frásögn leigubílstjóra sem ekki vildi koma fram undir nafni.
Bílstjórinn hafði átt við drykkjuvanda að glíma en þegar þarna var komið sögu hafði hann verið allsgáður um árabil og sagðist hafa séð margt hörmulegt tengt áfengisneyslu á margra áratuga löngum ferli sem bílstjóri.
„Ég hef séð þúsundir manna undir áhrifum, og það er alltaf sama sagan: eftir tvö-þrjú staup fara þeir að bera með sér einkenni fábjánans. Gáfaðir menn verða að idjótum, prúðar konur gerast lauslátar, siðferðiskenndin slævist og hverfur jafnvel algerlega. […]
Þegar menn eru búnir að fá sér mátulega mikið verða þeir svo skemmtilegir, svo ræðnir, fjörugir og orðheppnir… en hverjum finnst það? Jú, þeim finnst það sjálfum,“ sagði bílstjórinn nafnlausi sem sjálfur sagðist áður fyrr hafa eitt um hundrað dögum á ári í fyllirí.
Trúnaðurinn: Hin heilaga skylda bílstjórans
Sá nafnlausi hélt áfram: „Þær voru ófáar sögurnar sem ég fékk að heyra meðan ég keyrði um með drukkið fólk, bæði menn og konur, öll sín leyndustu einkamál vildi það tala um. […] þeim finnst eins konar fróun í því að fá útrás við bílstjórann sem þeir þekkja ekki og ekki þekkir þá – og þó get ég stundum vitað meira um mann sem ég sé kannski einu sinni eða tvisvar á lífsleiðinni en fólk sem hefur umgengizt hann alla ævi.
En ég hef alltaf talið það heilaga skyldu bílstjórans að bregðast ekki trúnaði farþega sinna.“
Annars skýt ég þig eins og hund!
Árið 1964 birtist grein í Degi um þúsundþjalasmiðinn Kjartan Stefánsson frá Vatnsenda. Hann tók bílpróf árið 1929 og hafði starfað sem leigubílstjóri, mjólkurbílstjóri og fleira. Norðlendingurinn (fæddur á Grísará í Eyjafirði 1909) rifjaði í blaðaviðtalinu upp minnisstæð atvik úr akstrinum:
„Einu sinni á mínum Reykjavíkurárum var ég sendur austur í bæ. Þegar ég kom á staðinn, gaf ég hljóðmerki og eftir litla stund kemur maður og sezt inn í bílinn og segir mér að aka vestur í bæ. Þegar við erum komnir vestur á Vesturgötu biður hann mig að stoppa, hvað ég gerði.
Þá segir hann: Nú ferð þú frá stýrinu og lætur mig aka. Ég segi nei. Þá dregur hann upp skammbyssu og segir: Nú ferð þú frá stýrinu eða ég skýt þig eins og hund.
Þú um það vinur, segi ég, en heldur þú að þú vinnir nokkuð við það. Þá fór maðurinn að hlægja og segir: Þú ert ágætur. Borgaði bílinn og fór. Ég ók þessum manni oft eftir þetta og féll hann vel í geð.
En við yngri bifreiðastjóra vil ég segja þetta: Sýnið kurteisi og lipurð í umferðinni og treystið aðeins á sjálfa ykkur, máske er það klaufi eða ruddamenni sem þið mætið næst,“ sagði Kjartan Stefánsson um starf leigubílstjórans, árið 1964.
Já, í öllu lenda þeir, leigubílstjórarnir!
En að lokum
Það er nóg eftir en samt er sennilegast rétt að ljúka fyrsta hluta umfjöllunarinnar um starf leigubílstjórans hér. Í næsta hluta verða rifjuð upp grátbrosleg augnablik sem leigubílstjórar hafa orðið vitni að. Hver veit nema hlið farþega fái sömuleiðis að koma fram!
Hafið þið, lesendur góðir, ábendingar þá eru þær vel þegnar. Netfangið er malin@bilablogg.is.
Sögur, hugmyndir, skammir (helst ekki samt) og hvers kyns ábendingar er um að gera að bomba á greinarhöfund. Nú, og þið sem ekki hafið látið ykkur vel við okkur líka á Facebook þá er ekki seinna vænna en að finna Bílablogg hér og er velkomið að láta ljós sitt skína með athugasemdum þar.
[Birtist fyrst sumarið 2021]
Tengdar greinar:
Starf leigubílstjórans: Annar hluti
Starf leigubílstjórans: Þriðji og síðasti hluti
Stórkostleg saga Eddu Björgvins af leigubílstjóra
?Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein