Í fyrradag var tilkynnt að Max Verstappen væri vinsælasti ökumaðurinn í Formúlu eitt. Sama dag tilkynnti Verstappen að hann ætlaði ekki að taka þátt í hinum vinsælu Netflixþáttum Drive to Survive. Hið síðarnefnda er einn allsherjar skellur fyrir aðdáendur hans sem færðu honum einmitt titilinn „vinsælasti ökumaður Formúlu eitt“.
Könnunin sem leiddi þetta í ljós var á vegum Motorsport Network í samstarfi við F1 og Nielsen Sports. Er könnunin sú stærsta sem gerð hefur verið af Motorsport Network en svarendur voru 167.000 talsins og búsettir hér og þar á jarðarkúlunni. Aðallega þar, en löndin voru 187.
Hamilton samt enn voða vinsæll
Þessi tuttugu og fjögurra ára ökumaður skaut m.a. Ricciardo og Hamilton ref fyrir rass í þessari vinsældarkosningu en það þýðir síður en svo að þeir séu eitthvað óvinsælir.
Hinn kornungi (21) drengur Lando Norris var næstur í þessu kjöri aðdáenda. Þar á eftir kom Lewis Hamilton, en hann var vinsælastur allra ökumanna árið 2017. Þannig að krakkaormarnir hafa hrifsað af honum vinsældirnar. Hann er samt örugglega ekkert fúll, miðað við hvað hann virðist almennt séð kátur.
Fyrst minnst er á það: Að vera kátur. Þá er hinn síbrosandi Daniel Ricciardo í fjórða sæti í vinsældarkosningunni. Svei mér ef maðurinn er ekki alltaf brosandi. Og það er bráðsmitandi – þetta bros!
Þetta leiðinlega
Já, það er komið að hinu sem kom greint var frá í fjölmiðlum eftir að að tilkynnt var um vinsældir Verstappen (og kann að draga eitthvað úr nýbökuðum vinsældunum):
Hann kýs að vera ekki með í næstu þáttaröð af Drive to Survive. Þetta eru þættir um Formúlu eitt sem ég held að varla þurfi að kynna fyrir lesendum. Nú ef þið kannist ekki við þessa þætti sem Netflix framleiðir þá mæli ég hiklaust með því að þið horfið á þá strax í kvöld. Ég meina, það er föstudagur og ekkert í sjónvarpinu. Er það nokkuð?
Blaðamaður náði því miður ekki tali af Verstappen sjálfum við vinnslu fréttarinnar en það kann að stafa af því að ég [blaðamaður] er ekki með símanúmerið hjá honum. Hann passar sig á að gefa ungum konum ekki símanúmerið hjá sér. Þess vegna skil ég ekki af hverju ég er ekki með það.
Umræður um þessa grein