- ?Land Rover Defender gæti orðið enn stærri og glæsilegri
- ?Sögusagnir eru um nýja gerð sem byggð er á Range Rover í fullri stærð
Sagan segir að Land Rover velti því fyrir sér hvort færa eigi merki Defender enn fjær upprunanum með því að setja nafnið á stærri óg íburðarmeiri jeppa en sá Defender sem við Þekkjum í dag. Verði hann samþykktur gæti Defender í fullri stærð deilt sínum grunni og nokkrum vélrænum íhlutum með næsta Range Rover sem er væntanlegur árið 2022.
Lengri en núverandi Defender 130
Án þess að vitna í heimildir greindi breska tímaritið Autocar frá því að þessi nýja gerð, sem enn hefur ekki fengið nafn, muni verða lengri en átta sæta Defender 130 sem sást í prófunum fyrr á árinu 2021. Þó að það sé eðlilegt að gera ráð fyrir að „fjölskyldusvipur“ sjáist á Defender línunni, líkt og nokkrar útlitsvísbendingar tengja Range Rover Evoque við Range Rover í fullri stærð, munu líkindin ekki verða mikil því samkvæmt sögusögnum verður sá byggður á útgáfu af MLA-grunninum. Fimmta kynslóð Range Rover mun vígja MLA-grunninn þegar sá bíll fer í sölu.
Notkun MLA-grunnsins mun gera hönnuðum kleift að hafa Defender stærri og innleiða mikla rafvæðingu á mörkuðum sem krefjast þess. MLA-grunnurinn var hannaður með mildan blending í huga, tengitvinngerð og rafbíl sem aðeins notar rafhlöður. Nokkrar breytingar á farþegarýminu munu aðgreina Defender og Range Rover; Autocar bendir einkum á „lista úr málmi, náttúrulega veðruð efni og nýjar viðaráferðir“ sem möguleika.
Nýr Freelander væntanlega úr sögunni
Í einhverjum eldri fréttum var því haldið fram að innan Defender fjölskyldunnar yrði einnig minni gerð, „krossover“, sem væri meira ætlaður fyrir akstur á vegum, sem yrði langt undir núverandi gerð hvað varðar verð og búnað. Það hefði mátt líta á þessa gerð sem „endurfæddan“ Freelander/LR2. Sama sagan fullyrðir að þessi gerð hafi verið sett í „bið“.
Hins vegar er talið að „pallbílsútgáfa“ sé ennþá í bígerð.
Kæmi ekki fyrr en 2025
Samkvæmt tímaritinu Autocar myndi Defender (byggður á Range Rover) væntanlega ekki koma í sýningarsali fyrr en snemma árs 2025. Land Rover hefur ekki tjáð sig um þessar sögusagnir, og hefur ekki gefið upp hvernig, eða hvort, Land Rover muni stækka Defender-fjölskylduna á næstunni.
(Byggt á fréttum á vef Autoblog og Autocar)
Myndband sem fjallar um 2022 árgerð Land Rover Defender fær að fljóta hér með:
Umræður um þessa grein