Toyota Corolla af 1988 árgerðinni seldist nýverið á 17.000 dollara í Bandaríkjunum. Toyota Supra ´87 seldist á tæplega 89.000 dollara og ´94 árgerðin af Supra Turbo á 140.000 dollara. Úr gulli eða ekki, það skiptir engu. Það er nefnilega slegist um gamlar Toyotur í góðu standi.

Byrjum á þessari:
Toyota Supra Turbo ´87

Hún seldist á uppboði fyrr á þessu ári hjá Bring a Trailer og greiddi kaupandi 88.888 dollara fyrir gripinn eða tæpar 12 milljónir króna.

Ef akstursmælirinn er réttur þá er bíllinn í raun ónotaður því hann stóð í 147 mílum eða 236 kílómetrum. Þetta er nánast nákvæmlega vegalengdin Reykjavík – Arnarstapi ef Hvalfjörðurinn er ekinn. Nú eða Akureyri – Staðarskáli. Góð dæmi, ekki satt?

Nema hvað! Í bílnum er líka alveg geggjað segulbandstæki og alls konar sem gerir hann eflaust 12 milljóna króna virði í augum margra.


19 milljóna skruggukerra: Toyota Supra Turbo ´94

Næst er fínt (áður en saga dagsins verður sögð) að minnast snöggvast á þetta eintak:

1994 árgerð af Supra Turbo sem er svaðalegur bíll og lesa má nánar um hér.

Einungis er einn eigandi frá upphafi, akstur 75.000 mílur (120.000 km) og kaupverðið var 140.000 dollarar. Það eru 19 milljónir króna!

Saga til næsta bæjar og næstu heimsálfu

Þá er loks komið að sögunni. Bílarnir tveir sem nefndir voru hér að ofan eru báðir dæmi um þær gríðarlegu vinsældir sem eldri Toyotur njóta í Vesturheimi. En svo eru sérstök tilvik og víkur nú sögunni að ljósblárri Toyota Corolla, árgerð 1988.
Hún seldist á uppboði í síðasta mánuði hjá sama uppboðshaldara og hinir bílarnir, þþe. hjá Bring a Trailer og eins og fram kom hér í inngangi var söluverðið 17.000 dollarar. Það eru um 2.3 milljónir króna.
Akstursmælirinn stóð í 68.000 mílum sem er um 110.000 kílómetrar og ekkert sérstaklega merkilegt við það í raun og veru. Bíllinn er sannarlega heillegur og vel með farinn af myndum að dæma. 1.6 lítra vél, þriggja þrepa sjálfskipting og jú, þarna kom það: Sony segulbandstæki!

Nei, segulbandstækið er nú ekki endilega það flottasta við þessa Corollu. Þetta var líka grín þó tækið sé vissulega ekkert grín. Hvað er svona merkilegt við téðan bíl?
„Tilfinningakaup“ og ekkert annað
Langur umræðuþráður um þennan tiltekna bíl er á síðu uppboðsins. Bíl sem í raun er ekki sérlega merkilegur þótt hann líti vissulega ljómandi vel út. Á þræðinum tjáði nýr eigandi sig einmitt um kaupin á bílnum og er ástæðan fyrir kaupunum fremur sérstök. Gefum kaupandanum orðið í einstakri og lauslegri þýðingu undirritaðrar:
„Þetta voru tilfinningakaup. Þegar ég var barn var mér skutlað í leikskólann og seinna í grunnskólann í nákvæmlega svona bíl. Sömu árgerð, sömu útfærslu og meira að segja sama lit. Í svona bíl ókum við heim til ömmu á laugardögum. Á sunnudögum fórum við bílasölurúnt á bílnum og skoðuðum nýjustu kaggana eins og Viper og F-Body Camaro.“

„Á svona bíl ókum við á fornbílasýningar þar sem pabbi kenndi mér allt um 454, 427, 396, SS, Yenko og fleira (við vorum nefnilega Toyota og Chevy fjölskylda),“ skrifar kaupandinn tilfinningaríki. En þetta er ekki búið!

„Að heyra hljóðið í bílnum fara í gang í myndbandinu [sem fylgir kynningunni á bílnum- hlekkur hér að ofan] og meira að segja hljóðið þegar skottlokinu var skellt rifjaði upp fyrir mér ótal góðar og skemmtilegar minningar. Ég man að ekki mátti kveikja á loftkælingunni fyrr en orðið var óbærilega heitt í bílnum því þar var eins og 30 hestöfl af 90 færu í það eitt að kæla okkur niður,“ segir hann enn fremur.

Þegar hér var komið sögu hugsaði ég nú með mér að „þangað leitar klárinn sem hann er kvaldastur“ og allt það, en að borga 17.000 dollara fyrir bílinn? En rúsínan í pylsuendanum var enn eftir og hér er sá eftirsótti biti:

„Veturnir í Iowa gerðu út af við bílinn okkar eftir 15 ár og man ég glöggt hve mikil sorgin var þegar við skildum bílinn eftir á partasölunni og ókum á brott. Ég hef verið svo heppinn að eiga marga frábæra bíla en þessi er og verður alveg sérstakur. Það eitt að sjá svipinn á pabba þegar ég opna skúrinn, verður hverrar krónu virði.“

Fleiri voru þau orð ekki en við skulum nú vona að pabbi gamli hafi orðið kátur þegar hann sá bílinn í skúrnum og að kaupandinn hafi vit á að bóna bílinn svo veturinn í Iowa éti Corolluna ekki upp til agna.

Myndir: Bring A Trailer.com
Fleiri sögur af sérstökum bílaviðskiptum:
Fann falin skilaboð í notuðum bíl
Martraðarkennd upplifun bílasala
Fann gommu af seðlum þegar hann lagaði bílinn
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein