Séra Baldur og bílarnir
Fátt fannst mér skemmtilegra, sem barni, en þegar húmoristinn og sögumaðurinn hann faðir minn heitinn, sagði mér sögur af bílunum hans séra Baldur Vilhemssonar í Vatnsfirði. Tengdust sögurnar akstri og Vestfjörðum órjúfanlegum böndum og pólitík blandaðist ósjaldan inn í þær.
Séra Baldur Vilhelmsson (22. júlí 1929 – 26. nóvember 2014) tók árið 1956 við embætti sóknarprests í Vatnsfirði og því embætti gegndi hann til starfsloka árið 1999.
Margir skrifuðu um hann á sextugsafmæli klerks árið 1989 og lýsti Einar Laxness séra Baldri ágætlega í afmæliskveðju sem birtist þann 22. júlí það ár í Tímanum. Vísa ég hér í orð Einars:
„Sr. Baldur er félagslyndur maður og vinsæll, enda á mannamótum hrókur alls fagnaðar, óvenjulega hnyttinn í orðum og lætur margt fjúka, uppfullur af húmor, oftast í græskulausu gamni, þótt broddur geti verið í falinn á stundum. Af honum eru sagðar sögur, kannski stundum ekki allar gullsannar, en maðurinn er orðinn þjóðsaga í lifanda lífi, ef svo má segja.“
Rússajeppinn og austræna loftið
Fyrstu árin í Vatnsfirðinum ók séra Baldur á rússajeppa, eins og eðlilegt þótti. Sögðu menn þá að meðan jeppinn var nýr og dekkin með „austrænu lofti“, hafi hann átt í erfiðleikum með að „þræða hina mjóu og krókóttu vegi Djúpsins, en þó ekki hlotist af, holdlegur skaði. Sagt var að svo hafi hann látið setja vestfirskt Shellloft í dekkin, eftir það hafi aksturslagið batnað til muna,“ stóð í Degi árið 1999 [Íslendingaþættir].
Kunninginn varð eftir
Ýmsar sögur voru sagðar um Baldur og rússajeppann. Eitt sinn átti hann að hafa boðið kunningja sínum út í Kaldalón og komið við á Ármúla hjá þeim Sigurði Hannessyni og Rósu Jóhannsdóttir konu hans. Vísa ég aftur í það sem fram kom í Degi árið 1999:
„Ætlaði Baldur að fá Sigurð með þeim út í Lón til útskýringar á örnefnum. Þegar þeir fóru frá Ármúla, settist kunningi Baldurs aftur í jeppann, en þar voru bekkir meðfram hliðum. Þetta var blæjujeppi og blæjan aftaná blakti laus.
Baldur var þekktur fyrir það að gefa jeppanum vel inn um leið og hann tók af stað og það brást ekki í þetta sinn, jeppinn prjónaði um Ieið og hann tók af stað og kunninginn átti sér einskis ills von og rann aftur bekkinn, út úr jeppanum og varð eftir á hlaðinu.
Ekki urðu þeir Baldur og Sigurður varir við hvarf mannsins og héldu áfram sem leið liggur út í Lón. Voru þeir alltaf að útskýra staðháttu fyrir manninum sem hvarf, en þegar þeir voru komnir vel útfyrir Ármúlatúnið, fannst þeim skrýtið að heyra ekkert frá manninum aftur í. Brá þeim heldur í brún þegar þeir litu við og sáu að þar var enginn.
Keyrðu þeir í ofboði til baka og skimuðu eftir manninum á leiðinni en fundu ekki, fyrr en þeir komu í eldhúsið á Ármúla. Þar lá maðurinn á grúfu á bekk og Rósa að tína glerbrot úr rasskinn mannsins, hann hafði verið með pela í rassvasanum.“
Ók þá bara hring
Gríp ég öðru sinni niður í skrif þau sem birt voru í tilefni sextugsafmælis þessa áhugaverða prests, árið 1989. Hér var það Halldór nokkur Þórðarson sem skrifaði:
„Í Vatnsfjarðarprestakalli eru fjórar kirkjur. Vegalengdir eru miklar og oft torsóttar. Leið milli ystu bæja í prestakallinu eru 175 km og ökumælir í bíl séra Baldurs færist um 200 km við eina messuferð til UnaðsdaIs, þ.e.a.s þegar hægt er að aka alla leiðina, sem er ekki nema hluta úr árinu. Marga ferðina mun hann hafa gengið á ís yfir Kaldalón og harðfenni í Lónseyrarleiti. Þó skemmra sé til annarra kirkna er þar um langvegu að fara og vegir misjafnlega illir yfirferðar.
Víða er þar langt milli bæja, t.d. fyrir Ísafjörð þar sem hættulegir svellbólstrar voru oft á leið prestsins. Ekki hefur séra Baldur sett þetta fyrir sig, en aldur hefur ekki orðið bílum hans að meini.
Fyrr á árum notaði hann oft lítinn bát í embættisferðum og var þá jafnan einn á ferð. Sem betur fer, vona ég, að hann sé hættur slíkum bátsferðum, nema út í Borgarey.
Landleiðin er hættuminni, þó minnist ég þess að seint á hausti, er séra Baldur var á ferð daginn áður en hann átti að tala yfir moldum gamals frænda míns, að hríð var svo dimm á hluta leiðarinnar að ekki var hægt að sjá niðurgrafinn vegarslóðann og lenti bíllinn útaf. Ók séra Baldur þá hring á flatlendinu þar til hann kom á veginn aftur og gat fylgt honum eftir það. Fleiri slíkar ferðir mun hann hafa farið þó ekki verði þær taldar hér.“
Dautt svín inni í Djúpi
Í Harmonikublaðinu árið 2010 birtust þrjár stuttar gamansögur af séra Baldri sem Frosti G. tók saman:
„Fyrir nokkrum árum hringdi séra Baldur í lögregluna á Ísafirði og kvaðst hafa fundið dautt svín í vegkantinum skammt frá Vatnsfirði og væri líkast sem ekið hefði verið á það. Halldór Jónsson (Dóri Jóns í Rit hf.) varð fyrir svörum: Hvern andskotann ertu að hringja í okkur út af þessu? Við getum ekki verið að skipta okkur af dauðu svíni inni í Djúpi. Prestur svaraði: Já, já, góði. Þetta er nú allt í besta lagi. En það hefur nú verið venjan hér í prestakallinu að láta þá nánustu vita þegar dauðsfall verður.“
Dyntóttur Gipsy
„Séra Baldur átti um skeið Austin Gipsy jeppa er var orðinn nokkuð dyntóttur og þurfti meðal annars að troða bremsurnar ótt og títt ef stöðva átti bílinn í snarheitum. Leið svo að árlegri skoðun jeppans og kom bílaeftirlitsmaður frá Ísafirði heim í Vatnsfjörð að fullnægja þeirri kvöð.
Eftir að hafa kíkt undir bílinn og þjösnast eilítið á dempurunum sest skoðunarmaðurinn undir stýri og prestur í farþegasætið. Er svo ekið af stað og allt gefið í botn því nú átti að kanna hemlunarvegalengd. Í fyrstu sat séra Baldur rólegur í sæti sínu, en þegar bíllinn stefndi á hlöðuvegg og skoðunarmaðurinn eldroðnaði við að stíga bremsupedalann í botn án þess að jeppinn hægði hið minnsta ferðina, æpti Vatnsfjarðarklerkur í dauðans ofboði: Pumpaðu, maður! Pumpaðu!“
Bölvað vestfirska vegakerfið
„Einhverju sinni var séra Baldur að kvarta undan vegalengdum og erfiðum landsamgöngum í prestakalli sínu. Er hann hafði farið ófögrum orðum um hið vestfirska vegakerfi og bölsótast út í hinar dreifðu byggðir í sókninni, greip viðmælandi hans fram í og spurði kankvíslega: Já en af hverju styttir þú ekki leið þína um sóknina og gengur á vatninu eins og Kristur forðum?
Séra Baldur var skjótur til svars og sagði: O, þeir höfðu nú léttara skótau í þá daga, góði.“
Dásamlegar sögur hreint út sagt! Þær eru vissulega mun fleiri og ef lesendur eru í stuði má endilega senda mér sögur á malin@bilablogg.is eða hreinlega birta þær á Facebookþræði þessarar færslu (hlekkur fyrir neðan).
Góðar stundir!
Forsíðumynd af Austin Gipsy er úr auglýsingu sem birtist í Tímanum árið 1962.
Í svipuðum dúr:
„Kjarval var svolítið skrýtinn“
1965: Svíinn, glymskrattinn og Landrover-inn
Ótrúlegt að bíll kæmist leikandi yfir Öxnadalsheiði?
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein