Scoutinn var af tröllaætt
Það muna eflaust margir eftir International Scout. Sambandið gamla og góða seldi þessa trukka og man undirritaður vel eftir nýjum svona bílum í porti Véladeildar Sambandsins við Ármúla 3.
Rámar meira að segja í þessa gulu/hvítu samsetningu á svona bíl hér í Reykjavík.
Þetta eintak sem hér sést er Scout II og var smíðaður í mars árið 1973 og seldur nýr í gegnum Boyle‘s Moter Sales Inc. í Batavia í New York.
Umboðið keypti bílinn aftur eftir að upphaflegur eigandi lést árið 1984 og hafði hann í sýningarsal sínum þangað til umboðið lokaði árið 2015.
Glæsilegt eintak
Síðast var jeppinn til sölu árið 2019. Þessi jaxl er búinn 345cu V8 vél með þriggja gíra sjálfskiptingu. Trukkurinn er síðan búinn Dana hásingum og Dana/Spicer millikassa.
Þessi bíll er kom í Deluxe útgáfu með spegli svörtu rifluðu sætaáklæði, bólstruðum hurðaspjöldum og sígarettukveikjara.
Bílnum fylgja upprunalegar þjónustu- og handbækur ásamt upphaflegum lyklum og kvittunum fyrir bílnum frá umboði.
Deluxe útgáfa
Andstæður í litum gera bílinn ansi fallegan en boddý liturinn er sólgulur (4401) á móti hvítum „travel“ toppi.
Að utan inniheldur Deluxe pakkinn krómaða spegla og lista að neðanverðu.
Afturstuðarinn hefur verið sérpöntun en hann er með dráttarkrók eða „trailer-hitch“ eins og kaninn kallar hann.
Krómaðir koppar
Fimmtán tommu stálfelgurnar eru með krómuðum koppum og undir bínum eru Safemark Whitewall dekk. Framöxull er Dana 44 með Lock-O-Matic driflæsingum.
Lítið ekinn, einn eigandi
Stýrishjólið er þriggja arma og láréttir mælarnir sjást vel í gegnum það. Hámarkshraði á hraðamæli er um 120 mílur. Mílumælirinn sýnir aðeins 16.547 mílur.
Skráningarmiðinn af framleiðslulínunni fylgir bílnum eins og ekkert sé sjálfsagðara á þessum tæplega fimmtuga öldungi.
Umræður um þessa grein