Ætli við myndum ekki flest reka upp stór augu ef ekki væri hanskahólf í bílnum sem við settumst inn í. Hvar ættum við þá að geyma skráningarskírteini bílsins?
Tókuð þið eftir þessu? Ekki myndi maður hugsa: „Hvar á ég þá að geyma hanskana?“ Nei, aldeilis ekki! Skráningarskírteinið er það sem á lögheimili í hanskahólfi en sannarlega ekki hanskar. Ekki einu sinni á Íslandi troða bíleigendur hönskum í hanskahólfið. Nema örfáir kannski.
Kassettutæki, geislaspilari og… hanskahólf?
Sannarlega heyrir ýmislegt fortíðinni til sem áður var á meðal staðalbúnaðar í hinu almenna ökutæki. Það sem áður þótti mikill munaður, eins og til dæmis að vera með útvarp og kassettutæki, er núna skýrt merki um að eiga virkilega aldraðan bíl. Kasettutækið vék fyrir geislaspilaranum og nú er það svo að margir nýir bílar eru hreint ekki með geislaspilara heldur er allt stafrænt og fyrirferðalítið.
Þetta er gott og blessað og þó svo að sú er þetta ritar eigi tvo fornbíla með útvarpi OG kassettutæki er alls ekki meiningin að þetta hafi allt verið miklu betra þegar maður gat flækt spólurnar í kassettutækinu í bílnum. Nei, alls ekki! Tæknin er ótrúleg og henni ber að fagna.
Það sem er svo merkilegt í þessu samhengi er að hanskahólfið er ennþá þarna! Nánast í óbreyttri mynd. Jú, sum þeirra eru eins konar kælihólf líka en flest eru þau bara þarna. Með skráningarskírteini bílsins, smurbók kannski og handbók bílsins þegar vel lætur.
Vilt þú segja mér hvað er í hanskahólfinu þínu?
Ætli stutta svarið sé ekki: NEI! En það væri áhugavert að líta inn í nokkur hanskahólf. En það getur líka verið ógeðslegt. Eins og þegar einhver fór á Vestfirði á fjölskyldubílnum að sumarlagi og miðstöðin í bílnum var biluð. Tveimur vikum síðar opnaði einhver, t.d. ég, hanskahólfið og sá þar eitthvað fyrirbæri er svipaði til blöðru og inni í henni var túnfiskssamloka. Já, ekki var það kræsilegt.
Því má alveg mæla með að fólk opni blessað hanskahólfið endrum og sinnum. Oft hefur maður vonað að í bríaríi hafi einhverjir þúsundkallar endað þar en því miður hef ég ekki rambað á slíkan fjársjóð í mínum bílum.
Þó eru meiri líkur á að finna hanska í hanskahólfum þessa dagana en oft áður: Plasthanska, grímur og kannski sprittbrúsa.
Ekki tengist kona þessu?
Oft hafa menn (já, karlmenn eingöngu) hent gaman að því þegar undirrituð minnist á það í reynsluakstursgreinum að snyrtispegil vanti í sólskyggnið bílstjóramegin. Þetta þykir mörgum alveg sprenghlægilegt og það er frábært! En ætli þeir myndu sakna hanskahólfsins ef það hyrfi?
Hanskahólfið, segja sumir, er einmitt í bílum vegna konu nokkurrar sem var mjög ákveðin. Hún hefði pottþétt „fílað“ snyrtispegilinn ef hann hefði, ásamt sólskyggninu verið til á þeim tíma. Bíðum nú aðeins hæg: Nei, hvað haldið þið, lesendur góðir?
Var þetta ekki bara einmitt sama manneskjan; sama konan, sem átti fyrst allra hugmyndina að baksýnisspeglinum, snyrtispeglinum og, tjah, hanskahólfinu? Þetta kvenfólk!
Má ég kynna: Dorothy Levitt!
Konan sem um ræðir, var hreint út sagt mögnuð. Ég er nýbúin að kynnast henni, þ.e. kynna mér sögu hennar en hún dó fyrir margt löngu síðan. Dorothy Levitt fæddist 99 árum á undan mér (stundum er maður dálítið eftir á…), árið 1882, og dó aðeins fjörutíu ára gömul (hér vil ég endilega vera eftir á).
Mun ítarleg umfjöllun um Dorothy Levitt birtast hér á Bílabloggi innan nokkurra daga og þess vegna vil ég ekki segja of margt um þessa merku konu að þessu sinni.
Höfum þetta skýrt og skorinort: Dorothy Levitt var ökukappi mikill og var ákaflega vel að sér um allt er snerti bíla. Hún var sennilega fádæma hæfileikaríkur ofviti með verkvit – en aftur: Meira um það síðar!
Hanskahólfið vildi hún hafa í bílum. Af hverju?
Árið 1909 kom út bók eftir Levitt og er titill bókarinnar: The Woman and the Car: A Chatty Little Handbook for all Women who Motor or Who Want to Motor.
Fimm árum eftir að fyrsti bíllinn kom til Íslands, hafði þessi breska kona gefið út handbók í Bretlandi um bíla og akstur! Merkilegt, verð ég að segja.
Í þessari áhugaverðu bók stendur skrifað [þýðing greinarhöfundar]:
Um hanska – klæðist aldrei ullarvettlingum, því ullin rennur auðveldlega til á sléttu yfirborði stýrisins og kemur því í veg fyrir að bílstjóri nái almennilegu taki á stýrinu sjálfu. Loðfóðraðir hanskar úr mjúku skinni, belgvíðir með þumli, eru ákjósanlegir til aksturs að vetrarlagi.
Áfram heldur hún og ítrekar að ekki verði hjá því komist, ætli manneskja á annað borð sjálf að aka eigin bifreið, að hafa vinnugalla nærhendis. Gallinn, „svipaður þeim er listmálarar klæðast“ þarf að vera langerma.
Þér getið ætíð smeygt yður úr kápunni og klæðst vinnugallanum á augabragði – og er vinnugallinn nauðsynlegur ef eiga þarf við bílinn. Munið að betra er að fá smurningsfeiti á vinnugallann því auðveldara er að þvo hann en kápu eða önnur föt.
Þetta er sannarlega vandlega hugsað hjá Levitt, skömmu eftir aldamótin 1900 þegar ökumenn þurftu að vera við öllu búnir í bílferðum. Og hér komum við að hanskahólfinu í bílnum:
Sumt er hreinlega ógjörningur að eiga við hanskalaus, flest sem þarf að gera (fylla á geyma o.þ.h.) krefst þess að notaðir séu leðurhanskar. Þér finnið leðurhönskunum stað í þar til gerðu hólfi undir bílsætinu.
Bílar þess tíma
Hér verður að hafa í huga að árið er 1909: Bílafornöld. Bílarnir voru margir hverjir opnir, þ.e. ekkert eiginlegt þak og því má segja að akstur hafi verið nokkurs konar „útivera“ sem kallaði á þykkan hálsklút, hlífðargleraugu, hanska (já, maður lifandi!) og eitthvað á höfðinu. Annars var hætt við að náttúrulegur, og jafnvel varanlegur ryk- og leirmaski, hefði sest að í andliti bílstjóra.
Það munu hafa verið hönnuðir hjá Packard sem komu fyrir vatnsþéttu geymsluhólfi í bílum upp úr 1900. Hér er hlekkur þar sem sjá má hólf sem svipar til þeirra fyrstu. Minnir það lítið á hanskahólf eins og við könnumst við, en þetta var hægt að taka með sér inn í hús og út í bíl aftur. Nokkurs konar „hanskafötu“ með loki.
Það er óhætt að miða við að hanskahólfið hafi tilheyrt staðalbúnaði bíla, á borð við sæti, stýri og annað bráðnauðsynlegt, um 1930.
Til er myndband sem bílaframleiðandinn Chevrolet lét gera um árið 1935. Þar má sjá litla stúlku koma hvolpi fyrir í hanskahólfinu í „nýja bílnum hennar mömmu,“ eins og segir í myndbandinu. Hanskahólf varð þar að hundahólfi. Auðvitað var hólfið ekki hugsað til þess brúks en markaðssetningin var vissulega sérstök, eins og sjá má hér:
Leyndarmál vandláta ökumannsins
Þarna er skýringin á mikilvægi hanskahólfsins komin ljóslifandi og auðvitað er í manni dálítil skömm fyrir að hafa ekki komið auga á þessa augljósu staðreynd: Hafi maður ætlað á „rúntinn“ á fyrstu árum bílaaldar, var auðvitað nauðsynlegt að vera í stakk búinn til að takast á við allt sem komið gat upp á.
Það var ekki eins og aðrir ökumenn væru á ferli þegar varla voru komnir vegir og bílar sjaldséðari en norðurljósin og páfinn. „Nei, ég hringi bara eftir hjálp!“ Hringja? Já, einmitt; Alexander Graham Bell var nýbúinn að fá einkaleyfi fyrir talsímanum og 27 ár liðin frá fyrsta símtali veraldarsögunnar. Sem minnir mig á það! (smá útúrdúr). Fyrsta símtalið kom eiginlega ekki til af góðu:
Bell og vélfræðingurinn Watson unnu að tilraunum sem miðuðu að því að flytja talað mál gegnum senditæki í líkingu við trekt (þetta er gríðarleg einföldun en það má).
Við undirbúning fyrir prófanir á tækinu var Bell svo klaufalegur að sturta yfir sig sýru og gólaði á Watson sem var staddur í næsta herbergi: „Herra Watson! Komdu hingað. Ég þarfnast þín!“
Ómuðu vein Bells inni í næsta herbergi og þar með var það afstaðið: Fyrsta símtal sögunnar! Í mars 1876. Hér geta áhugasamir lesið langa útgáfu af sögu fyrsta símtalsins.
Vonandi skýrir þetta litla dæmi af hverju hanskahólfið var þarfaþing. Ekki var hægt að rjúka til og síma í næsta hjálpfúsa mann. Né heldur að treysta á hjálp annarra vegfarenda því fáir voru vegirnir og enn færri farendur.
Áfram heldur sagan af tilurð hanskahólfsins og grípum aftur niður í bók Levitt:
Þetta litla hólf er leyndarmál hins vandláta ökumanns. Það sem þér kjósið að geyma í hólfinu fer vissulega eftir smekk yðar en hér á eftir hafið þér ráðleggingar mínar um mikilvæga hluti sem geyma skal í hólfinu.
Já, hefði ég verið til á þessum árum og lesið ráðleggingar Levitt hefði ég ekki þorað fyrir mitt litla líf að virða þær að vettugi. Levitt skrifar eins og hún tali beint til manns: „Þú ræður auðvitað hvað þú gerir en fylgdu ráðum mínum, annars…!“
Þetta „skal“ vera í hólfinu
Leyndarmál ökumannsins vandláta er þetta hólf og hefst nú upptalning Levitt á því sem „á“ að vera í því:
Hreinir hanskar, vasaklútur, hrein slæða, púðurkvasti [púði til að púðra sig með] (nema þér hafið óbeit á þeim), hárspennur og títuprjónar, snyrtispegill – og dálítið af súkkulaði getur verið gott að eiga, í það minnsta stundum!
Einnig getur komið sér vel að hafa í hólfinu töflu af „Antiokkíu“sápu. Hafi reynst nauðsynlegt að gera hanskalaus við bílinn er nánast ómögulegt að ekki leynist smurningsfeiti á höndum yðar, og erfitt getur reynst að ná henni af með hefðbundinni sápu. Sannarlega má ná henni af með ögn af bensíni, en bensínið hefur gert hendur mínar hrjúfar og þá er nú „Antiokkíu“sápan mun betri kostur.
Hér víkur sögunni að speglinum
Ljóst er að þessi kona var ekkert að gantast. Hún hafði augljóslega gert öll þau mistök sem hún varaði við og hafði komið sér upp góðu „neyðarsetti“ þar sem hugsað var fyrir öllu. En af hverju á snyrtispegill og púður heima í slíku setti? Hér er spegillinn lykilatriði og hann var ekki hugsaður til þess að konurnar gætu verið sætar eftir bílaviðgerðir og gengið úr skugga um að ekki væri spínatklessa á milli framtannanna:
Til að spegillinn komi að gagni þarf hann að vera meðalstór og best er að á honum sé handfang. Rétt áður en bifreiðin er gangsett skal spegilglerinu komið fyrir í spjaldvasanum [sólskyggni þess tíma með vasa]. Það kemur sér vel að hafa hann innan seilingar – ekki einungis til einkanota heldur til að bregða upp og sjá hvað kann að vera fyrir aftan yður.
Þér gætuð á stundum, talið yður heyra í bifreið en þrátt fyrir eðlislæga og ósjálfráða tilhneigingu til að líta aftur er það illmögulegt meðan á akstri bifreiðar stendur. Er þá hentugt að geta á augabragði litið í spegilinn og séð aftur fyrir bifreiðina og hvorki er litið af veginum né taki hægri handar á stýrinu sleppt.
Þar er baksýnisspegillinn kominn fram á sjónarsviðið og um leið blessaður snyrtispegillinn. Eftir sem áður sást hann ekki í fjöldaframleiddum bílum fyrr en allnokkrum árum síðar, þegar bílaframleiðendur kynntu til sögunnar sjálfan baksýnisspegilinn.
Uppfinningin er þó alla jafna eignuð Elmer Berger sem kom með þessa snjöllu uppfinningu, baksýnisspegilinn, árið 1921. Ári fyrir andlát Levitt. Berger var uppfinningamaður, níu árum yngri en Levitt og er þekktastur fyrir þessa uppgötvun.
Aðrir hafa verið nefndir í þessu samhengi, sem „spegilfattarar“ og má þar einna helst nefna ökukappann Ray Harroun sem þó er sagður hafa fengið hugmyndina annars staðar frá.
Svo sem fæstir séu skildir út undan þá ber að geta þess að sólskyggni í bílum var í upphafi „vega“, nei, upphafi bíla frekar, utan á framrúðunni. Náungi að nafni Edgar F. Hathaway, fann upp sólskyggnið árið 1924 og var það í Ford T, þeim ágæta bíl, sem sólskyggnið rataði innan á framrúðuna. Það mun hafa verið árið 1931. Samkvæmt gögnum alnetsins fékk hans einkaleyfi árið 1937 og þökk sé honum sjá ökumenn ekki of mikið af sólinni við akstur.
„Allir vildu Lilju kveðið hafa,“ en Dorothy Levitt var þó ekki ein þeirra sem sóttist eftir viðurkenningu. Hún var einfaldlega að benda, þarna árið 1909, á hvað hefði reynst henni vel við akstur bifreiða.
Áður en langt um líður mun greinarhöfundur gera sögu Dorothy Levitt skil og þá verður hún hvorki aukapersóna í umfjöllun um hanskahólf, baksýnisspegla né snyrtispegla.
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein