Muna lesendur eftir því úr ökunáminu þegar bakka átti í stæði? Nei, það er kannski ekkert til að muna sérstaklega eftir. Nema maður hafi gert það á svo stórbrotinn hátt að heimurinn frétti af því.
Þannig var það í tilviki konu nokkurrar í Maryland í Bandaríkjunum. Hún var gríðarlega óheppin (frekar en svakalegur klaufi).
Af einhverjum ástæðum voru hjón á sjötugsaldri aftur í bílnum. Kannski afinn og amman að fylgjast með barnabarninu í ökutíma. Auðvitað gat þau ekki grunað að þetta væri næstum síðasta bílferðin þeirra. En nú er ég farin fram úr sjálfri sögunni. Afsakið öll!
Ökukennarinn sagði nemandanum til, þar sem hann [nemandinn] reyndi að mjaka bílnum sómasamlega inn í stæði. Þá gerðist það: Gangstéttarbrúnin einfaldlega gaf sig.
Bíllinn húrraði gegnum girðingu, niður grasi gróna brekku og beinustu leið ofan í almenningssundlaugina í North Creek í Maryland. Ökukennslan varð skyndilega að sundkennslu, því fólkið þurfti auðvitað að koma sér út úr bílnum sem lenti í lauginni miðri.
Það vildi svo stórkostlega til að þetta var í lok september og var nýbúið að loka lauginni fyrir veturinn. Það var þó lán í óláni, ef svo má segja.
Skemmst er frá því að segja að sýnilegir áverkar voru litlir sem engir á blessuðu fólkinu; þessum fjórum hræðum sem enduðu í lauginni. En mögulega var einhver með laskaða sjálfsmynd eftir þetta. Hvað veit maður? Nú eru liðin rúm þrjú ár frá atvikinu og vonum bara að sárin hafi náð að gróa.
Magnaðar sögur sem tengjast ökukennslu:
Ökukennsla: Þegar allt klikkar!
Stórfurðulegar umferðarreglur
300 ökutímar að baki en höldum endilega áfram
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein