Nokkur orð um LED ljós eða ljósdíóður
Stundum vilja bíleigendur skipta út hefðbundnum perum fyrir ljósdíóður. Sem er ágætt ef það stangast ekki á við reglur. Litur og ljósstyrkur þarf að vera réttur.
Ég hef rekið mig á það að sumir eru að panta sér LED perur á Netinu en lenda í vandræðum vegna þess að þeir pöntuðu ekki rétt eða fara út í varahlutaverslun án þess að vita nákvæmlega hvaða ljósdíóður þá vantaði.
Allir nýir bílar eru með tengdar tölvur á svokölluðum CAN Bus (Controller Area Network). Bílar sem eru með CAN Bus þurfa að vera með sérstakar CAN Bus LED perur annars fara að koma skilaboð í mælaborðið um að það séu bilaðar perur. Stundum enda bílarnir á verkstæði og bifvélavirkinn þarf að eyða tíma í það að finna út hvað er að og það kostar allt of mikið.
Margir eldri bílar eru líka með búnaði sem fylgist með ástandinu á perunum. Það er hægt að skipta út perum í þeim með venjulegum LED perum en stundum þarf að setja auka viðnám á vír til að „plata“ tölvuna.
Sennilega þarf ekki að gera neitt annað en skipta út gömlu perunni fyrir ljósdíóðu í bílum sem eru ekki með neinum „eftirlitsbúnaði”. En eins og áður segir þarf ljósstyrkurinn að vera réttur og liturinn á ljósinu sem kemur frá díóðunni.
Líklega er hægt að leika sér með liti á ljósum inni í bílnum en þó verður að vera hægt að sjá á mælana í mælaborðinu og ljósin mega ekki trufla aksturinn.
Hér eru góð ráð um hvað skal varast þegar skipt er út gömlu perunum fyrir LED. Þar er líka að finna ágæta töflu sem segir hvaða LED á að koma í staðinn fyrir venjulegu peruna.
Umræður um þessa grein