Míkróskurður – hvað er það?
Míkróskurður er aðferð við að skera þunnar rifur yfir gúmmíyfirborð til að bæta grip í bleytu eða hálku.
Það hefur töluvert aukist að láta „míkróskera“ dekk til að bæta hæfni þeirra til að takast á við vegyfirborð í bleytu eða hálku.
Í upphafi, hér á landi, voru þetta einkum jeppamenn – og konur – sem létu míkróskera dekkin á jeppunum sínum, en í framhaldinu varð þetta æ algengara – og notað á fleiri gerðum bíla.
Einkaleyfi frá árinu 1923
En þetta er ekki alveg nýtt, því einkaleyfið á þessum skurði er frá árinu 1923. Míkróskurður, sem oft er kallað „siping“ var fundinn upp af John F. Sipe og fékk hann einkaleyfi á árinu 1923.
Sagan sem sögð er á ýmsum vefsíðum er sú að á 2. áratugnum hafi Sipe þessi unnið í sláturhúsi og orðið þreyttur á að renna á blautum gólfum. Hann komst að því að rifur í slitlagi sólanna á skónum hans veittu betra grip en „óskorið“ slitlag.
Önnur saga er að hann hafi verið við vinnu á þilfari á skipi og vildi forðast að renna á blautu þilfarinu.
Hvað er „míkróskurður“ eða „siping“ og hvernig er þetta gert?
Skurðurinn er ferlið við að skera þunnar rifur þvert yfir yfirborð dekksins til að bæta grip við akstur í snjó, bleytu eða hálku.
Svona skurður getur einnig hjálpað til við að stjórna hita í dekkjum þegar vegurinn er of heitur.
Skurðurinn er gerður með því að setja dekkin (ný eða notuð) á sérhannaða vél sem snýr dekkjunum á meðan búnaðurinn býr til litla, næstum ósýnilega 90 gráðu skurði í slitfletinum á dekkinu. Það er í raun stundum auðveldara að segja til um hvort búið sé að míkróskera dekkið með því að finna það í akstri en sjá það með berum augum.
Betri hemlun
Óháðar rannsóknir hafa leitt í ljós að dekk með míkróskurði stöðvist fyrr þegar hemlað er; þ.e. hemlunararvegalengdin sé styttri á bíl sem er á míkróskornum dekkjum. Míkróskurður bætir grip og hemlun, gerir aksturinn mýkri og lengir endingu dekkja.
Míkróskurður mun ekki draga úr frammistöðu dekkja á nokkurn hátt.
Dekkið heldur seiglu sinni vegna einkaleyfis á skurðarferlinu. Þetta skilur óskorin svæði, sem kallast bindistaðir, eftir ósnert og heldur slitlagi dekkjanna sterku.
Betra grip
Yfirborð dekksins samanstendur af mörgum smærri flötum sem kalla má slitlagskubba. Þessir fletir á „kubbunum“ eru sérstaklega mikilvægir þegar kemur að hálum eða blautum vegum.
Slitkubbarnir fá gripkraft sinn frá fjölmörgum hvössum brúnum í kring. Míkróskurður býr til enn meira af þessum gripbrúnum.
Bætt hemlun
Rannsóknir hafa sýnt að áhrifaríkasti hemlunarkrafturinn á sér stað strax áður en gripið tapast. Míkróskurðurinn eykur tímann þar sem hámarks hemlunarkraftur er til staðar, með því að rétta núverandi slitlagi „hjálparhönd“.
Mýkri akstur
Dekkin taka á sig högg frá yfirborði vegarins. Þegar yfirborðið er grófara eða hrjúft, reynir enn frekar á dekkin.
Míkróskurður gefur dekkjunum mun meiri sveigjanleika, sem leiðir til meiri mýktar í akstri.
Þetta dregur aftur á móti úr sliti á belgnum á dekkinu (slitfleti, hliðarveggjum, kanti og strigalögum) og lengir endinguna á dekkinu.
Lengri líftími dekkja
Hitamyndun er algeng orsök fyrir hröðu sliti og jafnvel bilun í dekkjum. Þó að þessi hiti sé náttúruleg afleiðing af núningi, getur of mikill hiti verið neikvæður.
Míkróskurður dregur úr núningshita og áhrifum hans á dekkið með því að leyfa dekkinu að kólna.
Örfínu raufarnar eftir míkróskurðinn virka með því að einangra hitann í litlum „hólfum“ og leyfa lofti að fara á milli þeirra og dreifa þannig hitanum og kæla dekkið á náttúrulegan hátt.
Af hverju koma dekk ekki míkróskorin frá framleiðanda?
Í fyrsta lagi væri ferlið sem notað er við míkróskurðinn of dýrt og tímafrekt fyrir framleiðendur. Auk þess skilur dæmigerður verksmiðjuskurður eftir litlar, lausar eyður í slitlaginu.
Ferli míkróskurðar sem er til dæmis kennt við „Les Schwab“ býr til gripbrúnir án millibila og án þess að fjarlægja gúmmí, sem gerir einstökum raufum eða rifum kleift að styðja hver aðra.
(byggt að hluta á vefsíðu Tyres Les Scwab)
Umræður um þessa grein