Fjölmörgum lesendum var misboðið þegar fjallað var um árekstur á Hringbrautinni og annar bíllinn kallaður „bíldrusla“. Nei, þarna fór blaðamaður yfir strikið að mati lesenda, sem margir höfðu samband við Morgunblaðið því þar höfðu „meiðyrðin“ nefnilega ratað á prent.
Bíldrusla, skrjóður, beygla, bílgarmur, blikkdós, bílskrifli, bíltík, bílhrak, bílhræ … Þetta eru orð sem við könnumst eflaust flest við en kippum okkur kannski ekki upp við nema þau séu notuð um bíla sem maður á sjálfur. Sennilega líka ef sum þeirra myndu rata í umfjöllun fjölmiðla um umferðaróhapp.
Á baksíðu Morgunblaðsins þann 18. október árið 1956 sagði m.a. eftirfarandi: „Snemma í gærmorgun mölbrotnaði gamall hálfkassabíll suður á Hringbrautinni. […] Þessi gamla bíldrusla, R-1806, var á leið vestur Hringbrautina.“
Greint var frá helstu atvikum og hve ótrúlegt væri að enginn hefði slasast.
„Það skipti engum togum að gamla „druslan” rakst af þvílíku afli aftan á leigubílinn, að hann kastaðist nokkra metra áfram. — Garmurinn braut undan sér bæði framhjólin við áreksturinn, tókst á loft og kom á hvolfi niður á malbikaða götuna. Spítnabrak og alls konar drasl úr þessum gamla bíl, þeyttist í allar áttir og yfirbyggingin mölbrotnaði, svo hann eyðilagðist gersamlega,“ sagði þar enn fremur og eitthvað fleira en það skiptir ekki máli hér. Hlekkur á fréttina er fyrir ofan.
Viðbrögðin
Eitthvað hefur nú gengið á inni á ritstjórn blaðsins þann daginn og má segja að unnið hafi verið nokkuð skemmtilega úr þessu „uppþoti“ því daginn eftir, þann 19. október, birtist eftirfarandi á síðu 12 í Morgunblaðinu undir yfirskriftinni „Hvers á bíllinn að gjalda?“
„Þeir voru ekki svo fáir, sem komu að máli við Mbl. í gær, vegna frásagnar þess af því, er gamall bíll eyðilagðist í hörðum árekstri suður á Hringbraut í fyrradag. En mynd var birt af bílflakinu með frásögninni.“
„Það sem fólkið hafði við frásögn blaðsins að athuga voru orð, sem þvi fannst Mbl. ekki geta notað, þar eð þau væru allt að því meiðandi.? Þessi gamli bíll hafði verið kallaður: Bíldrusla, garmur og öskuhaugamatur í umræddri frásögn. — Hvers átti þessi gamli bíll að gjalda?!“
Það er nú ekki oft sem maður sér spurningarmerki og upphrópunarmerki hlið við hlið í Morgunblaðinu. En jæja, þetta er ekki búið:
„Jafnvel þótt bíllinn væri orðinn gamall og heldur ósjálegur innan um spegilgljáandi „Mercedesa”, „Bjúikka” og „Fordara”, þá væri með öllu ástæðulaust fyrir blaðamanninn að nota þessi orð um hann, nema ef vera skyldi að hann á einhvern hátt hefði móðgað blaðamanninn!
Það má segja, að þessi frétt hafi enn sýnt eina góða hlið á lesendum dagblaðanna. — Þeir taka það óðara óstinnt upp, þegar blöðin veitast með miður heppilegu orðavali að gömlum bíl, sem lengi hefur þjónað húsbónda sínum, og krefjast fullrar tillitssemi við hann.“
Frábært svar og skemmtileg nálgun hjá Morgunblaðsmönnum en ritstjóri á þessum tíma var Valtýr Stefánsson (sem gegndi stöðu ritstjóra í tæp 40 ár).
Fleira hressandi úr blöðunum frá árunum fyrir tíma athugasemdakerfanna:
Skellinöðrufaraldurinn og Hannes á horninu
Skroppið á rúntinn ´64
Dauðinn á þjóðveginum [Miklubrautinni]
Þegar bílar voru vondir og óhöpp skondin
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein