Nýr Land Rover Defender Trophy II í 2022 árgerð
V8-knúni klassíski Defender er kominn aftur með breytingu á yfirbyggingu og nóg af torfærubúnaði
Aðeins 25 eintök búin til
Þótt hinn klassíski Land Rover Defender hafi formlega hætt þann 29. janúar 2016, þá er Land Rover enn að senda frá sér sérsmíðuð eintök af þessum bíl, að þessu sinni til minningar um torfærukeppnina sem upphaflega hét Camel Trophy, en sleppti síðan Camel-nafninu þegar reykingar duttu úr tísku.
Land Rover er að koma aftur með klassíska Defender í Trophy II búningi – með tilvísun til útgáfu Bob Ives Camel Trophy Defender frá 1989. Þetta gæti hljómað eins og déjà vu, því Land Rover gerði það sama í fyrra með Defender Trophy. Nokkur munur er þó á þessum gerðum.
Eins og fyrri Trophy Defender fær þessi V8 vél. Nánar tiltekið 5,0 lítra V8 bensínvél, sem skilar 399 hestöflum og 515 Nm togi. Þessi er tengd við átta gíra ZF sjálfskiptingu. Til að tryggja að Trophy II hafi hemlunarkraftinn sem samsvarar, hefur Land Rover útbúið uppfært bremsukerfi með 335 mm diskum að framan og 300 mm diskum að aftan, báðir með fjögurra stimpla klossum.
Fjöðrunin hefur einnig verið lagfærð til notkunar utan vega, með meiri færslu og harðari gormum. Seigjan nær til hjólanna og dekkjanna með gljásvörtum 18 tommu þungum stálfelgum sem eru með alvöru drulluhjólbörðum. Vaðdýpt er 500 mm.
Land Rover hefur endurskoðað ytra byrði með hlífðar A-ramma að framan, sem hýsir einnig spil til að hjálpa Trophy II út úr vandræðum.
Satínsvarta vélarhlífin er ekki bara fyrir augað heldur dregur hún úr glampa í björtu umhverfi. Ef farið er á afskekkt svæði í myrkri ætti 1,27 metra LED ljósastikan að veita glæsilegt skyggni. Það er líka hlífðarplata undir bílnum framanverðum til að vernda vélina og stigi að aftan veitir aðgang að þakgrindinni.
Að innan er Trophy II býsna ólíkur hinum upphaflega Defender. Í þessum eru Recaro CS sæti, leðurklæðning á mælaborði, innanverðum hurðum og í lofti. Upplýsinga- og afþreyingarkerfið er frá Land Rover Classic og er það með snjallsímatengingu. Elliot Brown klukkuskífa endurspeglar ytra byrðið á mælaborðinu.
Ólíkt hinum gula „Eastnor Yellow Trophy“ frá 2021 er nýja gerðin hins vegar í svarthvítum felulitum með 23 frægum torfærustöðum, þar á meðal leiðöngrum Land Rover í Suður-Afríku, Laos og Perú.
Michael van der Sande, framkvæmdastjóri Jaguar Land Rover Special Vehicle Operations, sagði: „Defender hefur sigrað landsvæði um allan heim. Nýjasti Classic Works V8 Trophy II okkar heiðrar þessa leiðangursarfleifð með einstakri hönnun og heiðrar suma af þessum töfrandi stöðum. Auk þess sem kaupendur fá bíla sem hafa mikið söfnunargildi, munu þeir fá einstakt tækifæri til aksturs við kjöraðstæður í sérstakri Land Rover Trophy ferð.“
Eins og Defender Trophy á síðasta ári verður fjöldi takmarkaður við aðeins 25. Viðskiptavinir geta keypt bílinn beint frá Land Rover Classic og er verðið frá 225.000 pundum fyrir 90 módelið.
Umræður um þessa grein