Íslensku bílasöfnin
Núna þegar ferðamannatíminn stendur sem hæst og Íslendingar flykkjast um landið sem aldrei fyrr er ekki úr vegi að kíkja á þá staði sem bílamenn ættu að heimsækja. Bílasöfn eru þar vitaskuld efst á listanum, en fjögur slík eru í landinu.
[Athugið að greinin er frá 2020 og hafa ný söfn bæst við síðan þá – sjá hlekk neðst þar sem hægt er að lesa um fleiri bílasöfn]
Safn Fornbílafjélags Borgarfjarðar
Yngsta bílasafn landsins er í Borgarnesi, en þar tóku nokkrir bílamenn sig til og opnuðu safn í gærukjallara gamla sláturhússins í Brákarey árið 2013 og hafa til sýnis gott sýnishorn af fornbílum, ekki síst atvinnubílum, m.a. rútu Sæmundar í Borgarnesi, Ford árgerð 1947, sem fór hringinn í kringum landið í tíu ára afmælisferð Fornbílaklúbbsins árið 1987 en varð fyrir því óláni að velta út fyrir veg.
Samgöngusafnið í Stóragerði
Norðlenskur bílamaður, Gunnar Þórðarson ábúandi á Stóragerði í Skagafirði, lét ekki sitt eftir liggja og byggði skemmur yfir bíla- og dráttarvélaflota sinn, en þar hefur frá árinu 2004 verið rekið myndarlegt samgönguminjasafn sem enginn ætti að láta framhjá sér fara.
Samgönguminjasafnið Ystafelli
Á Ystafelli í Köldukinn, skammt frá Húsavík, setti Ingólfur Kristjánsson upp myndarlegt safn um síðustu aldamót, þá kominn fast að áttræðu. Hafði Ingólfur búið á Ystafelli frá stríðslokum og starfrækt þar vélaverkstæði. Mikið var um viðgerðir á landbúnaðartækjum í sveitinni og sankaði Ingólfur að sér öllu sem til féll af gömlum bílum og járnadóti, enda ekki auðvelt að verða sér úti um varahluti í þá daga. Smám saman fjölgaði í flotanum á grasbalanum fyrir aftan útihúsin og ekki hjá því komist að bjarga heillegustu fornbílunum í hús og hefja rekstur bílasafns, sem nú er í öruggum höndum Sverris, sonar Ingólfs. Síðan safnið var opnað hefur það stækkað umtalsvert og bílunum fjölgað að sama skapi, en þar hafa margir merkilegir fornbílar verið teknir í fóstur af öllu landinu.
Samgöngusafnið í Skógum
Árið 2002 voru reistar viðbyggingar við Minjasafnið í Skógum undir Eyjafjöllum og þar opnuð myndarleg samgöngudeild sem m.a. hýsir tækjasafn Vegagerðarinnar og marga bíla frá Þjóðminjasafninu, auk annarra fornra ríkisbíla, eins og póstbíl frá 1933 og landmælingajeppa frá 1946. Skógasafnið er meðal best sóttu minjasafna landsins, enda í alfaraleið þeirra sem leið eiga um Suðurland.
Umræður um þessa grein