Rafeindaruglari, slöngvisæti, huliðshjúpur, skotflaugar, bílnúmeravíxlari, þokuljós að aftan, vélbyssur, eldvörpur á bak við aðalljósin… Hvaða græju úr Bond-bílunum myndi maður nú velja sér í bílinn ef slíkt byðist?
Þetta er skemmtileg spurning sem ótal bílablöð hafa spurt lesendur sína í gegnum tíðina. Hefur maður nú oft óskað sér að margt af þessu dóti sem sést hefur í kvikmyndunum um njósnarann James Bond mætti raungera þó ekki væri nema bara í örlitla stund til að prófa.
Það var gaman að lesa þessar greinar sem ég rakst á, t.d. þessa á vefnum Drive Tribe. Með fullri virðingu fyrir kollegum mínum þá er að mínu mati skemmtilegast að rýna í athugasemdir lesenda þar sem þeir segja hvaða græjur þeim þykja mest spennandi úr Bond-bílunum.
Það væri virkilega forvitnilegt og hressandi að fá að vita hvað þér, lesandi góður, finnst um þessar mögnuðu græjur.
Við höfum nokkrum sinnum fjallað um bílana í Bond-myndunum og eru það góðar greinar sem ég mæli hiklaust með. Svo greinin gamla frá Drive Tribe sé höfð hér til hliðsjónar þá eru þar taldar upp sex snjöllustu Bond-græjurnar að mati greinarhöfundar. Greinin hefst á umfjöllun um þessari græju hér:
6. „Kafbíllinn“ Lotus S1
Jú, það er alls ekki slöpp græja sem valin var í sjötta sætið. Þetta er „græja“ sem birtist áhorfendum myndarinnar The Spy Who Loved Me frá árinu 1977. Bíll af gerðinni Lotus S1 breyttist í kafbát þegar honum var ekið á kaf í vatni. Það er nú ekki svo fjarlæg hugmynd, en þetta gerðist mun hraðar en í þeim vatnabílum sem við kunnum að þekkja.
Sjálf hef ég ekið og siglt mjög skemmtilegum vatnabíl af gerðinni Amphicar sem framleiddur var af Quandt Group. Hér má lesa um þann bíltúr.
Stóri munurinn á Bond-græjunni og t.d. þessum Amphicar ´63 (nú get ég eingöngu miðað við hann) er einkum og sér í lagi sá tími sem fer í að breyta bílnum í vatnabíl. Bond-bíllinn breyttist svo snögglega að Bond-stúlkunni stóð ekki á sama og var skelkuð mjög, þar til hún áttaði sig á að tækninni (og pollrólegum Bond) mætti treysta.
Ég þurfti hins vegar að stöðva bílinn (Amphicar), og að ýmsum formsatriðum þurfti að huga áður en bíllinn varð að báti.
Næststærsti munurinn hlýtur að vera sá að Bond-bíllinn gat farið alveg á kaf og hvergi virtist leka meðfram listum eða neinu. Amphicar vildi ekki kafa og var heldur ekki gerður með slíkar hundakúnstir í huga.
Hér er myndbrot af Lotus S1 „kafbílnum“ og takið eftir hversu sultuslakur Bond er, jafnvel þegar stúlkan grípur andann á lofti í öngum sínum rétt áður en bíllinn skellur á vatnsfletinum:
5. Slöngvisætið (ejector seat) í Aston Martin DB5
Slöngvisætið (ejector seat), einnig kallað þeytistóll á íslensku, er „sætisbúnaður“ sem skýtur manneskju út úr bílnum í þessu tilviki, í myndinni Goldfinger frá 1964. Í þessum Aston Martin DB5 var hnappurinn sem virkjaði mannskotið, í sjálfri gírstönginni. Það kom sér heldur betur vel þegar ömurlegur farþegi miðaði byssu á bílstjórann Bond.
Annars er slíkur búnaður því miður ekki í bílum alla jafna. Hins vegar er slöngvisætið þekkt í sumum flugvélum, einkum herþotum, og er það þá með áfastri fallhlíf. Sætinu má skjóta út úr vélinni í neyð og svífa í því til jarðar.
Það hef ég ekki prófað enn.
4. Ósýnileiki Aston Martin V12 Vanquish
Hér er eins gott að segja ekki of margt þar sem kollegi minn hér á Bílabloggi, Jóhannes Reykdal, vann með tökuliði myndarinnar Die Another Day hér á landi árið 2002 en mikið bílaatriði var tekið upp á Jökulsárlóni. Allt um það hér í grein blaðamannsins.
Ekki þarf að fjölyrða um kosti þess að geta með einni bendingu gert bílinn og allt heila klabbið ósýnilegt. En förum samt ekki nánar út í það.
3. Eldflaugarhreyfillinn í Aston Martin V8 Vantage
Í myndinni The Living Daylights frá 1987 var þessi ljómandi fíni Aston Martin V8 Vantage nokkuð vel búinn.
Eldflaugarhreyfill í bíl getur komið sér virkilega vel, einkum ef menn eru að flýta sér mikið.
Aukinheldur var sá stærðarinnar kostur í þessu tilviki að búnaðurinn bauð upp á þann möguleika að eyða bílnum að notkun hreyfilsins lokinni. Engin sönnunargögn. Ekkert.
2. Flugbíllinn AMC Matador coupe
Jújú, flugbíll er alltaf flugbíll og getur sem slíkur komið sér vel við ýmsar aðstæður. Verst þykir manni þó hversu skelfilega ljótur bíllinn AMC Matador coupe er, og ekki skánar hann þegar vængirnir og annað flugkyns er saman komið á bílnum.
En í myndinni The Man with the Golden Gun frá 1974 kom þessi vængjaði bíll í góðar þarfir á ögurstundu.
1. Skotheldur BMW 750i
Starfsvettvangur James Bond kallar auðvitað á alls kyns tæki og tól sem til dæmis blaðamenn eða bakarar þurfa ekki lífsnauðsynlega á að halda í bílunum sínum. Alla vega ekki svo margir blaðamenn. En sumir. Veit ekki með bakarana.
Bond hittir sannarlega ýmis fúlmenni og slordóna í starfi sínu sem njósnari og oftar en ekki er þessum föntum hreint ekki vel við Bond. Þá er gott að vera á BMW. Svo ekki sé talað um skotheldan BMW eins og 750i bíllinn í myndinni Tomorrow Never Dies frá árinu 1997. Enda var Bond ofsalega ánægður með bílinn.
Auk þess var hægt að stjórna þessum magnaða Bimma í gegnum farsímann hans Bond. Þannig gat hann til dæmis stokkið inn um afturglugga bílsins þegar bíllinn var á blússandi fart, en bíllinn sá var eins og sagt er; hlaðinn aukabúnaði, eins og sjá má í meðfylgjandi myndbandi:
Já, þetta voru nú bara nokkrar Bond-græjur af fjölmörgum. En viljir þú, lesandi góður, deila með okkur hvaða græju þér líst best á, þá færslan nákvæmlega hér á Facebook.
Umræður um þessa grein