Ekki er langt síðan [ath. grein frá mars 2021] hér á Bílabloggi birtist grein um óheppileg nöfn á tegundum bíla. Það getur verið áhugavert að rýna í öll þessi nöfn og skoða hvaðan þeir sem ákveða nöfnin sækja innblástur.
Ekki eru það heiti á hlutum. Það er jú vissulega algengt að nöfn (einkum átt við undirtegundaheiti) séu sótt í landslag, veðurfræði, náttúrufyrirbæri o.s.frv. en ekki húsgögn til dæmis. Renault Stóll, Hyundai Borð og Fiat Lampi hafa ekki orðið ofan á.
Mannanöfn eru sjaldgæf á undirtegundum bíla en þó þekkjum við Opel Karl og Opel Adam, svo dæmi séu tekin. Toyota Sigurður myndi sennilega ekki virka vel annars staðar en hér á Íslandi, enda þurfa nöfnin að vera afar alþjóðleg til að þetta gangi upp.
Það verður að segjast eins og er að undirtegundir sem bera nöfn sem merkja eitthvað, geta verið skemmtileg, lýsandi og eftirminnileg. G14, H3, B423 og eitthvað í þá veru henta vel til að skilgreina og aðgreina hillur í pósthúsi, hlið í flugstöð, járnbrautarspor, ganga á vörulagerum eða svæðisskiptingu á flennistórum bílastæðum. En fyrir undirtegundir bíla… Æj, nei.
Þetta kemur sannarlega í veg fyrir að einhver bíll beri „dónalegt“ nafn eða „kjánalegt“ í einhverju landi en um leið lýsa slík nöfn vissu andleysi.
Í það minnsta er auðvelt að gera sér í hugarlund hvernig er að hanna bíl með það í huga að hann muni bera nafnið Oldsmobile Cutlass. Orðið cutlass merkir bjúgsverð eða höggsverð; höggvopn með boginn, eineggjaðan brand. Það færi illa á því að bíll sem bæri nafn er vísaði til flugbeitts sverðs væri í laginu eins og kúla. En ef nafnið væri bara Oldsmobile T42 þá væri það ekki lýsandi fyrir eitt eða neitt.
Helst ekki fjölfætt, loðin eða slímug
Af nógu er að taka og í stað þess að fara yfir allt heila klabbið, alla flokka, í eitt skipti fyrir öll er betra að skoða einn flokk tegundaheita sem er nokkuð vinsæll. Það eru nöfn sem sótt eru í hið virðulega og jafnframt ógnvænlega dýraríki.
Svo ótrúlega mörg tegundaheiti bíla snúa að dýrum að við gerum okkur eflaust ekki grein fyrir því. Yfirleitt vísa nöfnin til dýra sem búa yfir ákveðnum styrk, þokka, blíðu, grimmd, snerpu og áfram mætti telja.
Skordýr eru örfá á þeim lista sem undirrituð hefur sett saman yfir nöfn bíla fengin úr dýraríkinu. Eru þær „pöddur“ sem um ræðir ekki af þeim toga sem vekja skelfingu eða taugaveiklun hjá mannfólki.
Þ.e. ekki pöddur sem eru með marga fætur, slepjulegar, slímugar, loðnar, meindýr eða þess eðlis að fyrsta hugsun fólks sé, þegar heitið ber á góma, að kremja kvikindið!
Flugur og önnur vængjuð skorkvikindi hafa ekki verið hátt skrifuð hjá nafnasmiðum bílaframleiðenda. Ford Hrossafluga eða Morris Margfætla myndu til dæmis afskrifa samstundis stóran hóp kaupenda.
Volkswagen Beetle eða bjalla eins og hún nefnist hér á landi er gott dæmi. Bjallan er „krúttleg“ og fæstum illa við tegundarheitið sem löngu er orðið fast við ökutækið. Nánar um bjölluna má lesa HÉR.
Upphaflega var formlegt heiti einfaldlega Volkswagen Type 1. Ekki leið á löngu þar til gælunafnið Käfer (þýska orðið yfir skordýrið bjöllu) tók yfir og framhaldið þekkjum við.
Hudson Hornet er reyndar á gráu svæði sé tekið mið af því sem ritað var hér að ofan því hornet þýðir geitungur (Hudson Wasp kom síðar) og í dag virðast æði margir missa dómgreindina og jafnvel vitið þegar gaddvespa eða geitungur kemur of nálægt.
Hornet var framleiddur á árunum 1950 til 1957 en í dag þykir þessi nafngift sennilega álíka viðeigandi og Hudson Lúsmý eða eitthvað í þá veru.
Einnig má minnast á Datsun Honeybee, Dodge Super Bee, hinn og þennan Spider, Scorpion og eflaust sitthvað fleira. Þess ber þó að geta að hvorki köngulær né sporðdrekar eru beinlínis „pöddur“ eða skordýr heldur tilheyra annars vegar ættbálki áttfætlna (Scorpiones) og hins vegar náskyldum ættbálki í áttfættu stórfjölskyldunni (Araneae).
Rétt er að halda þessu til haga svo lesendur haldi ekki að á Bílabloggi tíðkist að fara með staðreyndir af léttúð!
Garðslöngur og aðrar slöngur
Til er fólk sem haldið er sjúklegum ótta eða fælni (phobia) þegar skriðkvikindi eru annars vegar. Þá er einkum og sér í lagi átt við slöngur (nöðrur og snákar eru að mati undirritaðrar býsna góð orð yfir sama fyrirbæri) og ótrúlegt en satt, í augum okkar sem búum á snákafrírri eyju, þá er þetta sennilega algengasta skilgreinda fælni sem mannfólk á við að etja.
Þessi fælni, sem kemur hetjum eins og Indiana Jones í fósturstellinguna, hefur ekki haft mikil áhrif á þá nafnasérfræðinga sem galdra fram heitin á bíltegundum. Það eru nefnilega allnokkur nöðruleg nöfn til á bílum.
Áður en farið verður yfir þau nöfn er eiginlega óhjákvæmilegt að benda á eina stórmerkilega staðreynd. Hún er sú að skriðdýrafælni nefnist Ophidiophobia og er dregið af grísku orðunum yfir slöngur og hræðslu. Óþjált kann orðið að virðast í fyrstu en það á þó ekkert í eitt lengsta orð sem fyrirfinnst í orðabókum heimsins en það er: Hippopotomonstro-sesquippedaliophobia. Það (voðalega langa orðið) vísar til ofsahræðslu við hið klunnalega spendýr sem blessaður flóðhesturinn er. En aftur að bílunum:
Ford Shelby Cobra, Ford Mustang Cobra og AC Cobra hampa heiti ógurlega eitraðra slöngutegunda af ættkvíslinni Naja. Höfum ekki fleiri orð um þessar eitruðu snúrur en vindum okkur að öðrum spottum.
Dodge Viper sækir einnig nafn sitt í fóbískt umhverfi skriðkvikindanna. Þegar ég var lítil vildi ég ekki trúa að svona fínn bíll héti eftir höggormi eða frændum hans og taldi mér einfaldlega trú um að hér væri um að ræða Dodge Rúðuþurrku.
Það er auðvitað ekki skrifað með vaffi en tilhugsunin var skemmtileg. En nei, onei! Viper er ekkert annað en baneitrað band sem orðið getur 85 sentímetrar að lengd og drepur gjarnan aðrar slöngur. Pottþétt mjög óvinsæl.
Þetta er ekki tæmandi listi en sennilega er best að láta þessu baneitraða „slangri“ um spotta, bönd og snúrur lokið. En svona rétt í blálokin þá má auðvitað velta fyrir sér, þar sem það þykir svalt að nefna bíla eftir eiturnöðrum, af hverju engir bílar heita eftir algjöru eitri; AC Arsenic eða Dodge Blásýra?
Úr bölvuðu eitrinu í blessaða fuglana
Maður er kominn með hnút í magann eftir þessa niðurdrepandi eiturumfjöllun. Þá er aldeilis við hæfi að hugsa heldur um hina fiðruðu gleðigjafa (oftast eru þeir gleðigjafar fyrir mannfólkið a.m.k.) sem blessaðir fuglarnir eru. Þeir hafa heldur betur gert það gott í bílanafnasúpunni. Byrjum á sprenghlægilegum bíl til að hrista af okkur eitrunaráhrifin.
Hann er kenndur við glóbrystinginn, fugl af þrastarætt sem syngur svo fallega. Bíllinn sem um ræðir gefur þó heldur frá sér gæsahúðarörvandi, tannpínukveikjandi surg-hljóð þegar hann skrapar malbikið í beygjum og á hringtorgum. Það gerist þegar hann veltur.
Jú, hér er átt við hinn óborganlega Reliant Robin. Þriggja hjóla fimbulfamb sem sannarlega má reiða sig á: Reiða sig á að taki eins og eina góða veltu við næsta tækifæri, sé það yfirleitt gangsett og því ekið af stað. Fuglinn sá var framleiddur frá 1973 til 1981 og svo með langþráðum hléum til ársins 2002.
Mr. Bean og bíllinn hans, Mini, áttu svarinn óvin af þessari gerð (Reliant Robin) og Jeremy Clarkson (Top Gear) hefur farið þær nokkrar, velturnar, í slíku apparati.
Hlaupagaukurinn og „meep meep“ flautan
Plymouth Roadrunner kom á markað árið 1968 og er hann nefndur eftir fugli af gauksætt (Geococcyx californianus) sem á íslensku kallast hlaupagaukur.
Gaukurinn sá heldur sig mest á jörðu niðri og hleypur ótrúlega hratt, og ná þeir spretthörðustu allt að 40km/klst.
Ætli hlaupagaukurinn sé ekki jarðtengdasta tegund fugla sem bílar heita eftir? Í það minnsta er manni ekki kunnugt um að bílar su nefndir í höfuðið á ófleygum fuglum; geirfugl, kíví, strútur, dúdú, emúi eða mörgæs… Og þó! Alnetið heldur að eitthvað bílkyns heiti kíví en það hlýtur að vera eftir hinum furðulega ávexti.
Nú eða þá er það einfaldlega prentvilla. Og ekki orð um það meir! Aftur að hlaupagauknum:
20 árum áður en Plymouth Roadrunner varð að veruleika, árið 1948, var teiknimyndakarakter kynntur til sögunnar hjá Warner Bros. Könnumst við nú mörg hver við Road Runner sem var stöðugt á hlaupum í stuttum teiknimyndum og á hæla honum skrattaðist banhungraður sléttuúlfur.
Auðvitað náði hann ekki hlaupagauknum; gaukurinn fór svo hratt að jörðin logaði eftir yfirferð hans.
Plymouth mun hafa greitt Warner Bros.-Seven Arts fúlgur fjár á sínum tíma fyrir afnot af hinu einkennandi „meep meep“ hljóði teiknimyndafígúrunnar. Til hvers? Jú, bílflautan þurfti auðvitað að gefa þetta hljóð frá sér og er dálítið hljóðdæmi hér að neðan.
Ránfuglar, fuglar úr goðafræði og fleira gott
Ránfuglarnir fyrirfinnast víða í tegundaheitum bíla og má þar til dæmis nefna Ford Raptor, sem þýðir einfaldlega ránfugl en nafnið getur líka vísað til snareðlu (Velociraptor) og er það nokkuð öflug blanda.
Ford Falcon, Eagle Talon, Studebaker Golden Hawk, Packard Hawk, Humber Hawk og fleiri mætti nefna.
Bíltegundin Eagle var sannarlega til en að fara ofan í eignarhald, upphaf endi og framhaldslíf þess er eitt sinn hét Eagle er of þreytandi svo því skal sleppt!
Dulúðugur blær er yfir Eldfuglinum, eða Firebird en Pontiac Firebird vísar til hins risastóra goðsögulega fugls; fönix. Fuglinn sá er tákn upprisu og lífs en samkvæmt sögunni lifði hver fönix í 500 ár.
Þegar honum var farið að fatast flugið gerði hann sér hreiður í Egyptalandi, kveikti í hreiðrinu og upp reis úr öskunni nýr fugl! Það virkar þó ekki að leggja eld að bílnum sínum því ekki er víst að annað en sviðalykt stígi upp af þeirri brennu. Ekki nýr bíll.
Vissulega eru mun fleiri bíltegundir sem kenndar eru við fugla: Nissan Bluebird, Studebaker Lark, Kissel White Eagle og já, eflaust fleiri. En nóg um blessaða fuglana!
Kettir eltast við fugla, eða er það á hinn veginn?
Að lokum er við hæfi að fjalla agnarögn um kattarheitin í bílheimum. Í það minnsta látum við hundana alveg eiga sig því engin bíltegund virðist kennd við hunda. Sem fyrr, og síðar, get ég auðvitað farið með fleipur. Sannleikurinn er sá að engin tegund skýtur upp hundshausi í fljótu bragði.
Kettir: Sjálf er ég með ofnæmi fyrir þeim en það virðist ekki rista dýpra en svo að minn eldgamli Jaguar virðist engin ofnæmisviðbrögð kalla fram.
Nema kannski ofnæmi sem tengist öðru (þétting vatnskassa, morknum ventlalokspakkningum og þess háttar sem hafa reynst eiganda bifreiðar óþrjótandi uppspretta andvarpa, vonleysis og almenns niðurbrots sjálfsmyndar).
Kattliðugur.
Lipur sem köttur.
Fimur eins og köttur.
Hvæsir eins og köttur.
…að kaupa köttinn í sekknum…
Já, margt er sagt um og margt bendlað við ketti. Kattardýr eru einstaklega vinsæl þegar kemur að því að gefa bíltegundum heiti.
Af öllum þeim ógnvænlegu tegundum er kattarkyni tilheyra er sennilega best að byrja á því meinlausa: Kettlingnum.
Framleiðsla Reliant Kitten hófst árið 1971 og lauk árið 1982. Bifreiðin datt af sama perutré og fyrrnefndur Reliant Robin og hefur þann mikla kost fram yfir Robin að undir honum eru fjögur hjól! Já, það er sannarlega gott, en yfirburðirnir eru ekki margir aðrir en þeir sem felast í þeirri staðreynd að vera EKKI bíll á þremur hjólum.
Vélin, 850 cc, sem á góðum degi skilaði fjörutíu hestöflum, var sú sama og í þríbarðanum. Eitt má þó nefna sem þótti virkilega gott sem var að finna í þessum bíl frá og með árinu 1976 í DE LUX útgáfu – og haldið ykkur nú fast! Í bílnum var útvarp, og ekki nóg með það heldur tveir hátalar að auki. Eins og útvarpið eitt og sér væri ekki ótrúlegur munaður.
Nei, þá voru í bílnum hátalarar líka! Eða eins og maðurinn sagði þegar hann kom með bílinn sinn á radíóverkstæðið til útvarpsísetningar – spurður hvort hann vildi ekki hátalara líka: Nei, hann ætlaði nú bara að hlusta á fréttir. Annað ekki!
Kveðjum nú kettlinginn og bregðum okkur í dýragarðinn!
360 hestafla villingur
Næsti köttur er Buick Wildcat. Hann var framleiddur frá 1963 til 1970. Fyrsta kynslóð villikattarins fékkst með 6.6L vél annars vegar (401) og 7.0L (425) hins vegar. Nailhead V8.
Næsta kynslóð fékkst bæði með 7.0L (430) og 7.5L (455) vél. Hvort tveggja Buick V8.
Hrikaleg óargadýr og svo…nokkur meinlaus
Í þessum flokki eru alveg hreint rosalegir bílar! Bílar eins og Buick Cheetah, Mercury Cougar, Sunbeam Tiger og sannarlega nokkrir af ætt Jaguar.
Svo bara gerist eitthvað alveg spes. Þessir ofnæmisvaldandi og taugatrekkjandi kettir verða að einhverjum hálfgildings kisum;
Opel Tigra, frábært nafn, reyndist tígur í engri gæru. Framhjóladrifinn með 1.4L og 1.6L vél. Með þeirri stærri gat ökumaður „tígursins“ verið, þegar best lét, 10.5 sekúndur frá 0 upp í 100 km/klst. Þetta var ekki gott! Ekki fyrir sportkött.
Seat Leon bar sannarlega stórt nafn. Þ.e. seinna nafnið; Leon. Nafnið SEAT er álíka spennandi og VR (Verzlunarmannafélag Reykjavíkur) því þetta er skammstöfun fyrir Sociedad Española de Automóviles de Turismo. Ekki er þetta enskt orð sem merkir sæti. Nei, SEAT er dótturfyrirtæki Volkswagen Group og eru bílar af gerðinni Seat sjaldséðir flækingar hér á Íslandi.
Í upphafi var Seat Leon umbúðirnar nánast einar saman, í augun undirritaðrar. Hann leit þokkalega út, nokkuð vígalegur að sjá í fyrsta kasti. En vélarnar sem buðust voru nú ekki endilega þær skemmtilegustu (fer auðvitað eftir hver er spurður).
Annars vegar 1.4L 16V vél (74 hö) og hins vegar 1.6L 16V vél (99 hö).
Þegar fram liðu stundir auðnaðist ljóninu að skila góðu afli. Þá með 2.9L VR6 vél sem skilaði 201 hestafli. Ljónið hefur sennilega aldrei verið hér á veginum, þ.e. á íslenskum vegum en eflaust hressilegur bíll í akstri.
Án þess að ætla að slá köttinn úr tunnunni svona í blálokin þá kemur það varla við kaunin á neinum að enda þessa umfjöllun á fjallaljóni. Ford Puma. Það er rosalegt nafn!
Hér skal áréttað að um er að ræða Ford Puma, sportarann, sem framleiddur var frá 1997-2002. Ekki crossover, þá gerð sem framleidd hefur verið frá árinu 2019.
Þegar Puma kom á markað árið 1997 man ég að mér fannst bíllinn ekkert smá flottur! Svo fór ég að lesa um hinn „innri“ bíl og flökti þá logi fegurðar uns hann hreinlega slokknaði. 1.4L vél sem skilaði 90 hestöflum? Nei, onei!
Fór ég minna ferða þá frekar á reiðhjóli, sem ég neyddist raunar til að gera því ég var bara 16 ára gömul árið 1997. Samt stórhuga.
Allir bílar voru skoðaðir og lesið um þá þar til bílablöðin urðu að kuski; með það fyrir augum að nú þyrfti að velja og hafna!
Puma, það fagra fjallaljón, brást algjörlega. Svo rækilega að undirrituð veitti því ekki einu sinni athygli þegar fjallaljónið varð fáanlegt um aldamót með 1.7L, 16V Zetec-S VCT vél sem skilaði 153 hestöflum. Án efa skemmtilegur bíll en aldrei reyndi á það í þessu dæmi.
Hér erum við svo gott sem komin að leiðarlokum í nafnaskoðun (ekki naflaskoðun!) dagsins.
En hestarnir maður!
Jú, þessi pistill er nánast alveg búinn. En svo það sé á hreinu þá gleymdust hestarnir ekki! Það er gríðarstór skeiðvöllur, fullur af miklum gæðingum og yfir þann völl verður ekki valhoppað í snarheitum.
Kæru lesendur, ef þið hafið gaman af þessari nafnayfirferð greinarhöfundar, þá megið þið endilega hafa hóffjaðrirnar klárar því við erum að fara að járna og beisla hestana! Hestategundir og bílategundir eru nefnilega næsta umfjöllunarefni!
[Greinin birtist fyrst 14. mars 2021]
Umræður um þessa grein