Ótrúlegt en satt þá eru þær nokkrar, greinarnar okkar hér á Bílabloggi, sem Facebook hefur einfaldlega hafnað! Og þær eru ekki einu sinni um ófrýnilega bíla. Íslenskir leigubílstjórar, puttalingar við Álftanesveginn og Schumacher-bræður eru dæmi um umfjöllunarefni sem Facebook sagði STOPP við.
Nú erum við ekki þekkt fyrir að skrifa um annað en bíla, bílaframleiðslu, akstur og akstursíþróttir.
Í ljósi þess þykir okkur með eindæmum merkilegt að ritskoðun samfélagsmiðilsins sé slík að á meðan alls kyns furðulegheit lifa góðu lífi á miðlinum og öðlast jafnvel framhaldslíf þar, þá eru nokkrar blásaklausar greinar Bílabloggs flokkaðar sem „stórvarasamar“.
Þessar vildi Facebook ekki
Þær greinar sem ekki hlutu náð fyrir ritrýnum samfélagsmiðilsins koma hér fyrir neðan í þeirri röð sem þær birtust, eða birtust ekki, á árinu. Það sem gerist er að þegar við reynum að „magna“ („boost“) greinarnar á Facebook, til að lengja líftíma þeirra, hefur komið rauð merking sem lítur svona út:
Við „mögnum“ sumar greinar, alls ekki allar. Reynslunni ríkari, að við héldum, eftir fyrstu „höfnunina“ töldum við að Facebook stoppaði af greinar sem fjölluðu á einhvern hátt um forseta Bandaríkjanna. Létum okkur ekki svo mikið sem detta í hug að reyna eitt eða neitt í þeim tveimur greinum sem Joe Biden Bandaríkjaforseti kom við sögu.
En nei, það virðist ekki nokkur rökrétt skýring vera á því hvers vegna sumum greinum er hafnað. Íslenskir leigubílstjórar, puttalingar við Álftanesveginn, Schumacher-bræður, kraftaverkasaga konu sem slasaðist ekki baun í árekstri sem leit út fyrir að vera alvarlegur og bílaklúbbur nokkur í Hollandi eru greinilega umfjöllunarefni sem Facebook kærir sig ekki um.
Hérna eru þessar „STÓRHÆTTULEGU“ greinar Bílabloggs, gjörið svo vel:
1. Bílarnir í lífi Bandaríkjaforseta
2. Forsetar Íslands og puttalingar
3. Pútín forseti Rússlands kynnir nýjan eðalvagn
4. Starf leigubílstjórans: Þriðji og síðasti hluti
5. Kraftaverk að komast lífs af
6. Kannist þið við þá Farouk og Hassan Schumacher?
7. Vondir bílstjórar á fínum bílum
Vonandi varð ykkur ekki meint af lestrinum, þ.e. ef þið hafið hætt ykkur á þær hættuslóðir sem tenglarnir vísuðu á!
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein