Forsýning á nýjum Cadillac sem verður frumsýndur í New York í næsta mánuði
2020 Cadillac CT5 – lúxusfólksbíll í millistærð kynntur, og það er nægt turbóafl til staðar, en hin raunverulega frumsýning verður á alþjóðlegu bílasýningunni í New York í næsta mánuði.
Cadillac hefur verið á fullu að kynna nýja „cossover“-bíla síðustu 12 mánuði. Á síðasta ári fékk vörumerkið eftir langa bið nýja jeppa, 2019 XT4 og 2020 XT6.
En núna á mánudaginn var röðin komin að fólksbílunum hjá þessum framleiðanda lúxusbíla með því að uppfæra fólksbílana sem full þörf var á að mati margra, sérstaklega í Bandaríkjunum.
Lengi verið í fararbroddi lúxusbíla
Um leið og nafnið Cadillac ber fyrir augu þess sem þetta skrifar, leitar hugurinn langt aftur, eða þegar ég var tíu ára. Á þeim tíma bjó Björn Ólafsson, fyrrum ráðherra og þá eigandi Coca Cola á Íslandi í næsta húsi við hús afa míns og ömmu í Reykjavík. Björn þessi var greinilega áhugamaður um bíla og á þessum árum upp úr 1950 stóð all nýstárlegur kolsvartur bíll, af gerðinni Tatra í innkeyrslunni við Hringbrautina í Reykjavík; svartur að lit og með hálfgerðan „hákarlsugga“ að aftan fyrir ofan stór loftinntök fyrir vélina sem var að aftan í bílnum.
En 1954 var Tatra-bílnum skipt út fyrir nýjan gljáandi stóran Cadillac. Í huga stráksins í næsta húsi var þessi bíll toppurinn á tilverunni, enda fékk hann stundum að sitja í þessum fína bíl og meðal annars er ofarlega í minningunni þegar heimasæturnar í húsinu fengu strákinn lánaðan sem afsökun til að skreppa í Tívolí sem var handan Vatnsmýrarinnar og þá var okkur skutlað þangað í þessum flotta bíl.
Annar Cadillac kom raunar einnig við sögu á þessum árum hjá mér því þegar farið var í sumarbústaðinn á Þingvöllum var þar iðulega enn stærri Cadillac á bílastæðinu við vatnið, R10 sem Vilhjálmur Þór átti á árunum í kring um 1960. En nóg um gamlar minningar og aftur til dagsins í dag.
Cadillac CT5 Luxury
2020 árgerðin af Cadillac CT5, fólksbíl í millistærðarflokki var forsýnd á mánudaginn, en formleg frumsýning hans er í næsta mánuði á alþjóðlegu bílasýningunni 2019 í New York. Nýi fólksbíllinn sækir mikið til Escala-hugmyndabílsins sem var sýndur árið 2016 í Pebble Beach, þar á meðal öflugan framenda, formaða vélarhlíf og lóðrétt framljós.
CT5 mun koma í stað CTS, sem einnig var í millistærðarflokki, og mun keppa við aðra bíla í svipaðri stærð frá Þýskalandi og Asíu, þó að CT5 gæti verið nokkuð minni en útflutningsþotan.
Túrbó og meira túrbó
Af hálfu Cadillac liggja ekki fyrir miklar upplýsingar um nýja bílinn, þar á meðal hversu mikið hann myndi kosta eða hvenær hann myndi fara í sölu en þó kom fram að CT5 væri búinn 2,0 lítra Turbo-4 eða 3,0 lítra Turbo-6, annað hvort parað eingöngu við 10-hraða sjálfskiptingu, með afturdrifi eða aldrifi. CT5 verður seldur í Luxury og Sport gerðum búnaðar, með örlítið mismunandi útliti og hugsanlega mismunandi vélum.
Þessar vélar í hinum nýja CT5 koma frá CT6-fólksbílnum sem er í „fullri stærð“ fólksbíla í Bandaríkjunum, en sá bíll er þegar á útleið. CT6 var með 265 hestafla 2,0 lítra Túrbó-4 eða 3,0 lítra Túrbó V-6 sem er 404 hestöfl með 10 hraða sjálfskiptingu og afturhjóla- eða fjórhjólhjóladrifi. CT6 bauð í stuttan tíma upp á útgáfu með tengitvinntækni, en það er óljóst hvort CT5 muni bjóða upp á rafdrifinn valkost í náinni framtíð.
Hvað skilvirkni og sparneytni snertir, fæst CT5 með 4,2 lítra V-8 með tvöfaldri forþjöppu (túrbó) sem var í CT6-V-sportútgáfu sem seldist næstum eins hratt upp og hún var kynnt á sínum tíma.
Reiknað er með að Cadillac muni bæta við nýjustu tækni í CT5, þar á meðal SuperCruise aðstoðarkerfi fyrir ökumanninn, nýjustu gerð af upplýsingatæknikerfi með „smellustýringu“ og nýjustu tækni í tengingu fyrir snjallsíma þegar bíllinn fer í sölu fljótlega.
Fljótlega má búast við nýjum bíl frá Cadillac í kjölfar CT5 þar sem reiknað er með að minni gerð fólksbíls muni koma í stað ATS, sem er einnig á leiðinni út á þessu ári.
Umræður um þessa grein