Það þarf mikið til að ökumenn í Formúlu 1 mæti ekki til keppni sem þeir ætla að taka þátt í. Það hefur gerst nokkrum sinnum í gegnum tíðina og myndband nokkurt fékk mig til að dusta rykið af sögunni af því þegar Juan Manuel Fangio var rænt.
Mannrán er sannarlega gild skýring á fjarveru frá keppni, og sem betur fer ákaflega sjaldgæf skýring.
Argentínski formúluökumaðurinn Juan Manuel Fangio fæddist í bænum San José de Balcarce (í Buenos Aires héraði) árið 1911. Hann varð mikill ökukappi og fimmfaldur heimsmeistari í Formúlu 1.
?
Fangio varð heimsmeistari fyrst árið 1951, þá 1954, 1955, 1956 og svo 1957.
Ferill Fangios er magnaður og rúmlega það. Má ég til með að mæla með myndinni A Life of Speed: The Juan Manuel Fangio Story en þetta er heimildarmynd frá árinu 2020 og er hún aðgengileg á Netflix.
Nema hvað! Keppt var í Formúlu 1 í Havanaborg á Kúbu þrisvar sinnum. Fyrst árið 1957 (þá keppni vann Fangio) og síðast árið 1960. Ekki var keppt þar árið 1959. Það var einmitt rétt fyrir keppnina þar í febrúar 1958 sem hið ótrúlega gerðist.
Brottnám og uppnám
23. febrúar 1958, daginn fyrir keppni, ruddust vopnaðir menn inn á hótel nokkurt í borginni. Hotel Lincoln var byggt árið 1926 og var voða flott í marga áratugi en er í dag tveggja stjörnu hótel sem er frægt fyrir það sem gerðist fyrrnefndan febrúardag og hér er greint frá.
Þessir vopnuðu menn voru ekki í neinni kurteisisheimsókn á Hotel Lincoln. Þetta voru uppreisnarmenn á vegum Fidels Castros og þarna komu þeir og numu á brott heimsmeistarann Fangio.
?
Forseti Kúbu, Fulgencio Batista, hafði komið því í kring að keppt væri í Formúlu 1 á Kúbu og kynna með því móti land og þjóð. Hugmyndin var að Havana yrði eins konar Las Vegas Kúbu og Formúla 1 væri kjörinn viðburður til að laða ríka fólkið að. Hann ætlaði ekki að láta mannrán á einum heimsmeistara eyðileggja það.
Þess vegna skipaði hann svo fyrir að kappaksturinn færi fram á settum degi og ekkert múður. Keppnin fór fram og sigraði Stirling Moss. Fangio var haldið föngnum í 29 klukkustundir og honum sleppt úr haldi rétt eftir að keppni lauk.
Viðbrögð forsetans (að láta sem ekkert væri og halda keppnina) voru auðvitað þess eðlis að Batista öðlaðist frægð fyrir skandal á heimsmælikvarða. Fidel Castro valtaði svo yfir Batista 11 mánuðum síðar en það er nú allt önnur saga.
Meðan hinir óku
Byltingarmennirnir vissu að með því að ræna frægasta karlinum í keppninni, heimsmeistaranum sjálfum, fengi heimsbyggðin öll veður af málstað þeirra. Fangio greindi frá því að ekki hafi verið farið illa með hann og mannræningjarnir hafi meira að segja boðið honum að hlusta á útvarpið þar sem keppninni var lýst.
Honum var færður fyrsta flokks kvöldverður, steik og meðlæti, og svaf Fangio vært á eftir í voða fínni íbúð. Að því er fram kemur í grein nokkurri sem lesa má hér mun Fangio síðar hafa sagt að hann hefði á vissan hátt fundið til með mannræningjunum og að ef það sem uppreisnarmennirnir gerðu „væri gert í góðum tilgangi þá samþykki ég það, sem Argentínumaður,“ og vissulega er það sérstakt, einkum ef menn þekkja ekki til argentínskrar sögu.
Svo aftur sé minnst á kvikmynd þá mun hafa verið gerð mynd sem kom út árið 1999 og heitir Operación Fangio en hana hef ég ekki séð og get því ekkert sagt um hana.
Eins og fram kom í inngangi þá var það myndband sem kom undirritaðri til að rifja upp söguna af mannráninu. Þetta myndband er ekki það besta en fær þó að fylgja með:
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein