Fyrir 114 árum birtist fyrsta Ford auglýsingin. Síðan þá hafa þær birst margar og alls ekki alltaf í hefðbundnu auglýsingaformi. Oft hefur verið um einhvers konar gjörning að ræða og má þar til dæmis nefna skemmtilegt uppátæki sem hafði með kveikt og slökkt ljós að gera.
Við fjölluðum um fyrir ekki svo löngu síðan, þegar Ford Mustang var settur saman efst uppi á Empire State byggingunni árið 1965.
Fyrst var hann tekinn sundur í skjóli nætur, farið með hann (í bútum) í lyftu og settur saman á 86. hæð byggingarinnar. Og svo var hann tekinn sundur og settur saman aftur o.s.frv. Hér má lesa greinina um þessa klikkuðu en frábæru hugmynd sem fór af hugmyndastigi og alla leið upp á topp.
Ljósasaga til næstu heimsálfu
Fimm árum áður eða árið 1960, greindi Morgunblaðið frá því að stærsta ljósaauglýsing heims hefði verið í höfuðstöðvum Ford. Eftirfarandi texti fylgdi myndinni sem er notuð hér efst en frétt Morgunblaðsins birtist þann 14. janúar 1960 og var fyrirsögnin:
Ford í Dearborn með stærstu ljósaauglýsingu heims
„Fyrir skömmu kallaði Fordfélagið í Dearborn í Bandaríkjunum umboðsmenn sína í Rómönsku Ameríku til skrafs og ráðagerða i höfuðstöðvunum. — Við lok fundarins var það gert til gamans — og auðvitað í auglýsingaskyni jafnframt — að búa til á framhlið Ford-byggingarinnar, sem er að mestu úr gleri, stærstu ljósaauglýsingu í heimi — eða ættum við kannski heldur að segja „skuggaauglýsingu”? — Þetta var nefnilega gert þannig að slökkt var í vissum herbergjum byggingarinnar, þannig að hinir myrkvuðu gluggar mynduðu orðið FORD þvert yfir alla framhliðina, sem er 175 metra löng. Á hæð voru stafirnir rúmir 40 metrar.“
Hvort þetta var í fyrsta skipti sem ljósatrixið var notað veit ég ekki með vissu en hitt veit ég að í nóvember sama ár, þ.e. 8. nóvember 1960 var suðurhlið hússins notuð til að minna vegfarendur að kjósa þann sama dag. Skilaboðin voru einföld: „VOTE“.
Gegnum tíðina hafa ýmis skilaboð birst með þessum hætti á byggingunni, til dæmis á jólum, fyrir kappakstur eða eftir sigur á brautinni; ýmislegt hefur komist til skila með þessum hætti. Þetta hefur greinilega virkað og ekki bara vakið athygli í næsta nágreinni við höfuðstöðvarnar heldur líka á Íslandi, svo dæmi sé tekið.
Tengdar greinar:
Mustang uppi á Empire State
Stiklað á stóru eftir færibandi Ford
?Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein