Síðasti kubburinn rataði á sinn stað í gær og þar með var hann tilbúinn: Stærsti Formúlu 1 Legobíll í heimi.
Bíllinn var byggður á einni viku úr hálfri milljón Legokubba. Atvinnumenn í faginu stóðu að þessu verki, þ.e. „atvinnukubbarar“ eins og undirrituð kýs að kalla þessa mjög svo sérhæfðu meistara sem fást við byggingar úr Legokubbum. Þetta er ekkert grín sko! Þeir eru til, atvinnukubbararnir. Hvort þetta sé lögverndað starfsheiti veit maður þó ekki.
En aftur að bílnum: Saudi Automobile & Motorcycle Federation (SAMF) á heimsmetið í byggingu stærsta F1 Legobílsins en fyrra metið átti Ferrari (met slegið árið 2019) og var sá bíll gerður úr 350.000 kubbum.
Í Sádi-Arabíu er 23. september þjóðhátíðardagur og því þótti vel við hæfi að heimsmetið væri sett einmitt þann dag, eins og raunin varð í gær þegar staðfest var að bíllinn væri réttmætur heimsmethafi á Guinness-mælikvarða.
Bílinn má skoða með eigin augum í The Red Sea Mall í Jeddah, en þar sem það er nú ekki í alfaraleið getur líka verið fínt að sjá byggingarferlið hér í þessu hálfrar mínútu langa „timelapse“ myndbandi sem kom á vefinn í morgun:
Umræður um þessa grein