Er sjálfskiptingin nógu sterk fyrir vélina?
Til þess að sjálfskipting eða aðrar skiptingar endist lengi þurfa þær að vera nógu sterkbyggðar til að þola togið í vélinni. Það á líka við um kúplingar en við fjöllum ekki um það í dag.
Það eru sennilega ekki margir væntanlegir kaupendur að velta þessu fyrir sér þegar bíll er valinn.
Þetta skiptir kannski ekki miklu máli ef nýi bíllinn verður seldur aftur eftir örfá ár. En ef bíllinn á að vera framtíðareign, notaður mikið eða ef það er verið að kaupa notaðan bíl þá getur þetta verið lykilatriði.
Það eru til dæmi um að nákvæmlega sama sjálfskipting sé notuð með t.d. 4 strokka mótor og líka með mun aflmeiri 6 strokka vél. Sjálfskiptingin endist að sjálfsögðu betur með 4 strokka vélinni og þá sérstaklega ef skiptingin er of veik fyrir aflmeiri mótorinn.
En hvernig er hægt að komast að þessu? Það er ekki öruggt að það sé hægt að komast að þessu í öllum tilfellum en það gerist ekkert nema maður reyni.
Það er t.d. hægt að fara inn á þessa síðu hér og slá inn eins nákvæmar upplýsingar um bílinn og hægt er. Þá er hægt að finna kóða þar fyrir sjálfskiptinguna og leita eftir honum.
Kóðinn sem kemur upp er stundum sérkóði framleiðanda bílsins en hann er oft „þýddur“ yfir í kóða sem framleiðandi sjálfskiptingarinnar notar þegar hann er „gúgglaður.“
Ógrynni upplýsinga er að finna í Wikipedia varðandi þetta efni.
Öfugt við það sem margir halda eru sjálfskiptingar o.fl. ekki sérframleiddar fyrir sérhverja týpu af bíl frá hverjum bílaframleiðanda. Framleiðendur sjálfskiptinganna hanna og framleiða nokkrar útgáfur af skiptingum. Svo eru þær aðlagaðar að vélum í bifreiðum bílframleiðendanna með mismunandi „húsi“ utan um. Þannig getur sama sjálfskiptingin verið í mörgum gerðum frá sama bílaframleiðanda og í mörgum mismunandi bíltegundum. Þetta á reyndar við um alla íhluti í bíla.
Hér er hægt að finna allar sjálfskiptingar sem Aisin framleiðir en togið (torque capacity) er talan sem er neðst í hverjum ramma eða hólfi. Á þessari síðu er líka hægt að finna allar aðrar gerðir af skiptingum og millikössum sem Aisin framleiðir.
Hér er hægt að leita í framleiðslu ZF sem er oft að finna í Evrópskum bílum.
Við látum hér staðar numið en minnum á að „leitið og þér munið finna“ er það sem gildir í þessu eins og svo mörgu öðru.
Umræður um þessa grein