Endurnýjunarhemlun í rafbíl: Hvað er það og hvernig virkar það?
- Endurnýjunarhemlun breytir hreyfiorku bílsins í rafmagn til að hlaða rafhlöðuna og auka skilvirkni og nýtingu orkunnar
Rafbílar sem eru með rafhlöðu við hliðina á hefðbundinni brunavél, en þarfnast þess ekki að bílnum sé stungið í samband milli ökuferða, eru góður kostur fyrir þá sem hafa ekki aðstæður til að stinga í samband, en vilja samt nýta sér kosti rafbíls til að lækka rekstrarkostnaðinn – og samhliða að minnka kolefnisfótsporið.
Eftir að við sögðum frá reynsluakstri á nýjum Toyota Yaris Hybrid á dögunum þá hafa borist nokkrar spurningar um þessa tækni og því liggur beinast við að koma með framhald.

Ha? Endurnýjunarhemlun!
Ef þú hefur áhuga á að kaupa raf- eða tvinnbíl gætirðu heyrt minnst á endurnýjunarhemlun. En hvað þýðir þetta hugtak og hvernig er að aka bíl með þessu kerfi? Við skulum skoða málið frekar.
Þegar stigið er á hemlafótstig í bensín- eða dísilbíl ýtir hemlavökvinn bremsuklossa á bremsudiska á hverju hjóli (eða tromlur í eldri og ódýrari gerðum). Núningurinn sem myndast vinnur að því að hægja á bílnum, myndar hita og slítur á efninu í púðunum og diskunum í því ferli.
Endurnýjunarhemlun er leið til að taka orkuna sem verður til við að hægja á bíl og nota hana til að endurhlaða rafhlöður bílsins. Í venjulegum bíl eyðir hemlun einfaldlega orku – en við endurnýjunarhemlun er hægt að endurnýta hluta orkunnar.
Endurnýjunarhemlakerfi eru algeng í mörgum nútímabílum. Í bensín- og dísilbílum er þetta notað til að hlaða rafhlöðuna sem keyrir ýmis aukakerfi í bílnum; sem þýðir minna álag á vélina og minni eldsneytiseyðslu. Í þessum bílum er kerfið nánast ómerkjanlegt fyrir ökumanninn en í tvinnbílum og hreinum rafbílum hefur endurnýjunarhemlun virkara og augljósara hlutverk.


Í þessum gerðum getur endurnýjunarhemlun hjálpað til við að hlaða stærri rafhlöður sem eru notaðar til að aka bílnum.
Hvernig virkar endurnýjunarhemlun?
Rafmótorinn í tvinnbílnum þínum eða rafbílnum keyrir í tvær áttir – annar til að keyra hjólin og hreyfa bílinn og hinn til að hlaða rafhlöðuna. Þegar þú lyftir fætinum af bensíngjöfinni og stígur á bremsuna skiptir mótorinn um snúningsátt og byrjar að setja orku aftur í rafgeyminn.
Þegar þetta ferli byrjar finnur ökumaðurinn fyrir því að bíllinn byrjar að hægja á sér. Það er mismunandi tilfinning í hverjum bíl sem hefur þessa aðgerð, því framleiðendur geta forritað hversu mikil endurnýjunarhemlun verður þegar þú lyftir fætinum af inngjöfinni eða stígur á hemlafótstigið.
Allir bílar eru enn með venjulega hemla, þannig að ef stigið er nógu fast á fótstigið þá mun vökvakerfi hemlanna stöðva bílinn fljótt (fer eftir hraðanum). Það er einnig mismunandi hve miklu afli þarf að beita á fótstigið til að fá hemlana til að taka á.
Virkaði vel í reynsluakstri
Í reynsluakstri á Opel Corsa e og síðan í framhaldinu á Toyota Yaris Hybrid gafst gott tækifæri til að prófa þetta, en þessi virkni í bílunum var hámörkuð með því að setja handfang sjálfskiptingarinnar í stillingu sem gerir þetta. Það var mjög sýnilegt á „orkumæli“ í mælaborði bílanna þegar hemlunin var farin að hlaða rafgeyminn, en fyrir bragðið var bíllinn „þunglamalegri“ í akstri, því hvert sinn sem fæti var lyft af inngjöfinni byrjaði bíllinn að „hemla“ og hægja á sér.

Það eru margir bílar með endurnýjunarhemlun og það finnst öllum svolítið öðruvísi að nota hana. Reyndar, í sumum rafbílum getur þú jafnvel sérsniðið hvernig hún virkar og lagað að eigin óskum.

Ef þú vilt uppskera eins mikla tapaða orku og mögulegt er, geturðu stillt hana á hámarksstillingu, eða ef þér líkar þetta ekki og vilt ekki að bíllinn hemli sjálfur getur þú slökkt á þessari virkni. Í sumum rafbílum kviknar á bremsuljósum bílsins ef bíllinn hægir hratt á sér, jafnvel þótt þú snertir ekki einu sinni fótstig hemlanna, því þarna er endurnýtingarvirknin að grípa inn í aksturinn.
Sumir bílar eru meira að segja með sjálfvirkan skriðstilli sem notar endurnýjun hemla. Fylgst er með bílnum fyrir framan með skynjara og hemlabúnaðurinn er notaður til að stilla ökuhraðann af við hraða þess bíls á veginum.
Þegar þú lyftir fótstigi „inngjafar“ alveg í mörgum rafbílum þá er tilfinningin eins og þú sért kominn með fótinn þétt á bremsuna. Þá er oft vísað til „eins fótstigs aksturs“, þar sem það eina sem þarf að gera er að nota hægri fótinn til hröðunar og hægja á, frekar en að færa hann á milli fótstigs hemla og inngjafar.
(byggt á hugmynd á vef Auto Express)
Umræður um þessa grein