Að „slá“ í gegn er ekki endilega það sem sóst er eftir á golfvellinum. Í það minnsta getur það verið tvíeggjað sverð. Burtséð frá því hvernig og hvert er „slegið“ þá er óhætt að segja að vissar reglur gildi um margt á vellinum. Klæðaburður lýtur sérstökum lögmálum og til er eitthvað sem kallast „golffatnaður“.
Slíkur fatnaður er snyrtilegur og rándýr en það er nú önnur saga sem ekki á vísa hýsingu hér á vefnum okkar góða.
Golfbíll er það sem vekur áhuga margra. Ekki VW Golf heldur golfbíll sem notaður er til að ferja kylfinga, kylfur, kúlur og fleira nauðsynlegt tengt leiknum, á milli staða á golfvellinum.
Eru til töff golfbílar?
Í fljótu bragði má ætla að svarið sé „nei“ því golfbílar eru flestir áþekkir smáum götusópum, án sóps og sogbúnaðar. Í augum margra eru allir golfbílar eins.
Í dag fangaði áhugavert farartæki athygli mína: forn-golfbíll. Rauður og hvítur: Eins og krúttleg útgáfa af danska fánanum. Hjólin eru þrjú, orkugjafinn er rafmagn og framleiðsluárið 1965.
Það engum blöðum um það að fletta: Þetta er hallærislega töff þríhjól með sætisbekk eins og á amerískri hamborgarabúllu frá sjöunda áratug síðustu aldar. Þessi tiltekni golfbíll er á uppboði í Ameríkunni stóru og lýkur uppboðinu annað kvöld, þ.e. 6. september.
Eins og glöggir lesendur hafa sennilega gert sér ljóst hentar apparat á borð við þennan golfbíl engan veginn hér á landi vegna hinnar séríslensku veðráttu. Betur færi á að nota þessa 3.000 dollara, eða hvað hann nú selst á, til að kaupa pollagalla, hjólabretti og heitt kakó. En að öllu glensi slepptu þá varð þetta tæki til þess að undirrituð fór að grúska.
Og haldið ykkur nú fast!
Golfbíllinn í sögulegu samhengi
Fyrsti golfbíllinn, segir sagan, var smíðaður árið 1932 í Flórída en það var maður að nafni Lyman Beecher sem átti hugmyndina. Beecher þessi var fótafúinn og kunni því illa að komast ekki í golf út af einhverjum heilsutengdum leiðindum. Þess vegna útbjó hann eins konar léttivagn sem tveir menn þurftu að draga en það var nú bara í upphafi. Svo fjölgaði hjólum undir golfbílnum þannig að hægt var að kalla hann „bíl“. Hlekkirnir hér að ofan leiða áhugasama lesendur að tæknilegu hlið golfbíla fjórða áratugarins.
Á þessum fyrstu árum golfbílanna var það einkum eldra og lasburða fólk sem þá brúkaði. Og jú, rétt er að nefna að bílarnir voru alla jafna rafknúnir og eru enn.
Fyrir því eru margar góðar ástæður en ein sú besta er auðvitað sú að hávaði, reykur og mengun á ekki heima á golfvelli. Enda voru bensínknúnir golfbílar bannaðir víðast hvar upp úr 1950.
Eftir sem áður litu margir kylfingar golfbílana hornauga og kærðu sig ekki um farartæki á grænum og vel hirtum golfvöllum. Því var læknisvottorðs þörf á sumum völlum til að fá að nota golfbíl. Það er nú sennilega liðin tíð og það fyrir löngu síðan!
Harley Davidson og sjálfur Elvis
Það kann að koma lesendum spánskt fyrir sjónir að framleiðandinn Harley Davidson, hinn eini og sanni, skyldi árið 1963 hefja framleiðslu á golfbílum. Sjálfri brá mér svo mikið þegar þetta kom í ljós að ég þurfti að hlaupa þrjá hringi í kringum húsið, spæla nokkur egg og drekka tvo lítra af vatni áður en heilinn meðtók þetta.
Finnir þú, lesandi góður, einhverja furðulega hrúgu undir þreskivélinni í vélaskemmunni hjá afa þínum þá gæti þetta verið lóttóvinningur: eldgamall Harley Davidson golfbíll sem ótal safnarar úti í heimi reiða fram fúlgur fjár fyrir.
Mótorhjól og…golfbílar? Já, þetta gekk einhvern veginn og þó svo að maður sjái ekki fyrir sér sjóðheita töffara á Harley-golfbílum á Hallærisplaninu þá þótti þetta nokkuð töff á golfvöllum víðast hvar. Meira um framleiðsluna og vöruúrvalið af Harley Davidson golfbílum má lesa hér.
En hvernig í veröldinni tókst mér að troða sjálfum Elvis Presley inn í millifyrirsögnina hér að ofan? Spilaði hann kannski á golfbíl?
Nei, og hann spilaði ekki einu sinni golf, svo kallast geti. Hann átti eftir sem áður þriggja hjóla Harley Davidson golfbíl ´61 árgerðina og á því farartæki munu þau Elvis og Priscilla hafa ferðast um flennistóra landareign Graceland. Alla vega árið 1967 þegar þau voru nýgift og allt í lukkunnar velstandi. En golfbíllinn kom víst aldrei nálægt golfvelli meðan hann var í eigu Elvis.
Golfbíllinn sá var til sölu á síðasta ári og hér má lesa meira um það ferli.
Frá Ford T til Ferrari F5
Það er hægt að fá golfbíla af öllum gerðum nánast, hafi fólk efni á að láta sérsmíða þá fyrir sig. Þeir eru margir hverjir subbulega og ruddalega dýrir eins og sjá má í umfjöllun hér.
Dæmi nú hver fyrir sig en persónulega þykir mér útkoman hörmuleg. Unique Carts eru á meðal þeirra sem smíða golfbíla eftir dyntum manna. Hér eru sýnishorn fyrir áhugasama.
Svo eru enn aðrir sem setja nokkra bíla í blandara og útkoman getur verið þokkalegasti golfbíll, eins og þessi sem skartar framhluta Ford T ´47.
Æji, fáðu þér bara svifnökkva!
Svo var það atvinnukylfingurinn Bubba Watson, Ástrali sem fékk sig fullsaddan af golfbílum og „svífur“ um golfvellina á golf-svifnökkva. Yfir vötn, holt og hæðir og blæs ekki úr nös. Er „golfnökkvinn“ það sem koma skal?
Hvað sem því líður, lesendur góðir, er morgunljóst að engin ástæða er til að vera púkó á golfvellinum. Það er hægt að flakka á milli brauta á töff golfbíl, gömlum golfbíl, spaugilegum golfbíl, „golfnökkva“ og auðvitað líka á tveimur jafnfljótum.
Leyfum þessari svölu langömmu að eiga lokaatriðið: Driftað í snjónum á golfbíl!
Umræður um þessa grein