Enn og aftur er Tesluspæjarinn „okkar“ á ferðinni í námunda við verksmiðjuna í Fremont. Hann er örugglega ekkert voðalega vinsæll hjá framleiðandanum, eftir að hann svipti hulunni af breytingum á Cybertruck í síðasta mánuði. En við (og margir aðrir) kunnum sko að meta kauða!
„Bílaspæjarinn“, eins og ég kýs að kalla þá sem fylgjast með og mynda bíla í prófunarferli og fjallað er ítarlega um hér, hefur tekið miklum framförum í drónastjórnun á fáeinum vikum.
Einlægi spæjarinn
Þetta er ungur maður frá Suður-Ameríku sem ver drjúgum hluta tíma síns við prófunarbrautina við hina risavöxnu Tesla-verksmiðju í Fremont í Kaliforníu. Hann virðist óskaplega einlægur náungi. Þegar einhver ribbaldi gerði ruddalega athugasemd við eitt af fyrstu spæjaramyndböndum hans (um gæði uppökunnar) man ég að hann svaraði eitthvað á þessa leið: „Þakka þér fyrir ábendinguna. Ég skal æfa mig meira við fínhreyfingar drónans.“
Ekki hefðu margir svarað eins ruddalegri athugasemd og þeirri sem ég vísa í (og tók því miður ekki skjáskot af einlægu svarinu) af viðlíka kurteisi og okkar einlægi spæjari. Og fyrir það á hann mörg raf-stig (það eru hin nýju rokkstig sko) skilið.
Enn fleiri stig bætast við fyrir það hversu miklum framförum hann hefur tekið og hér er nýjasta myndbandið hans. Gasalega flott myndband sem sýnir margar fínar Teslur – en það er svo sem enginn hápunktur eða augljós uppljóstrun í myndbandinu. Það þarf ekki alltaf að vera.
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein