Eflaust vildu margir Bretar að þessi saga væri löngu gleymd. En svo er nú ekki. Þetta er sagan af því þegar sonur Margaret Thatcher forsætisráðherra Bretlands, týndist rækilega í Dakar rallinu árið 1982.
Árið 1982 var nafnið Paris-Dakar að festast í sessi á þeirri keppni sem við köllum í dag Dakar-rallið. Förum ekki nánar út í það í þetta skiptið. Nema hvað að árið 1982 var skráður í keppnina maður nokkur að nafni Mark Thatcher. Sonur forsætisráðherrans umdeilda Margaret Thatcher.
Frúin, eða „járnfrúin“ eins og hún var gjarnan kölluð, var þó ekki með syninum í rallinu en sonurinn keppti ásamt frönsku akstursíþróttakonunni Anne-Charlotte Verney en hún var aðstoðarökumaður (navigator) Marks. Með þeim var vélvirki að nafni Jacky Garnier en í dag eru þriggja manna áhafnir í Dakar-rallinu eingöngu í trukkaflokki. Þau voru sannarlega ekki á trukki heldur Peugeot 504.
Týnd í Saharaeyðimörkinni
Fyrir sléttum 40 árum upp á dag var þessi áhöfn týnd. Já, það er ótrúlegt en satt að þau voru týnd í eyðimörkinni í sex daga!
Það er aðalhlutverk aðstoðarökumannsins (navigator) að þekkja leiðina en það getur komið fyrir alla að villast aðeins. Og ekki var Mark Thatcher heldur sá sem rataði en hann reyndist algjör rati í staðinn og því fór það svo að þau rötuðu einungis í ógöngur. Það varð uppi fótur og fit í húsakynnum „járnfrúarinnar“ að Downing stræti 10 í Bretlandi þegar ljóst þótti að þau þrjú á Peugeot-inum í Saharaeyðimörkinni myndu ekki skila sér af sjálfsdáðum. Þá höfðu þau verið týnd í þrjá daga!
Pabbi hans Marks var sendur á staðinn en hann flaug til Dakar, ekki til að leita sonarins í eyðimörkinni (að leita að strák í eyðimörk er flóknara en að leita að nál í heystakki, skilst manni) heldur til að stjórna aðgerðum. Þrjár herflugvélar frá jafnmörgum löndum voru leigðar auk hermanna úr alsírska landhernum.
Eftir stórtæka tveggja daga leit fann alsírski herinn týnda soninn auk ökumanns og vélvirkja. Þau höfðu villst um 50 kílómetra af leið. Margaret Thatcher var alveg trítilóð út í soninn sem hún taldi sig hafa alið upp með járnaga en svo gerðist þetta. Málið var víst algjör skandall en járnfrúin þurfti að reiða fram fúlgur fjár fyrir lánið á hermönnum og flugvélum o.s.frv. Reyndar kemur fram víða að hún hafi krafist þess að greiða úr eigin vasa fyrir fíflagang sonarins.
Illa undirbúinn hrokagikkur?
Í umfjöllun BBC um málið í janúar 1982 kom fram að sonurinn, Mark, hafði lýst því fjálglega fyrir keppnina að þetta rall yrði nú lítið mál:
„Nú er ég búinn að keppa í Le Mans og fleiri keppnum þannig að þetta rall verður sko enginn vandi.“
Árið 2004 skrifaði Mark grein um þessa lífsreynslu; að týnast í eyðimörkinni og greindi hann m.a. svo frá:
„Ég undirbjó mig nákvæmlega ekkert fyrir keppnina. Ekkert.“
„Við hljótum að hafa klesst á eitthvað. Við stoppuðum. Hinir stoppuðu líka, punktuðu hjá sér hvar við værum stopp [staðsetninguna] og héldu svo áfram. En þessir bjálfar – þegar þeir kláruðu sögðu þeir fólkinu að við værum stopp 25 mílum austar en ekki 25 mílum vestar,“ skrifaði Mark 22 árum síðar. Auðvitað var þetta einhverjum „öðrum“ að kenna.
Það var kannski ekki fallegt að gefa í skyn, í millifyrirsögninni hér að ofan, að Mark hafi verið hrokagikkur en eitt og annað bendir til að hann hafi ekki „gengið á öllum“ blessaður.
Í fyrsta lagi var ástæða þess að hann var óundirbúinn einfaldlega sú að hann var búinn að gleyma að hann ætlaði að keppa í rallinu. Má lesa nánar um það í fyrrnefndri grein en hér er hlekkurinn.
Í öðru lagi var ekki traustvekjandi að lesa í grein frá 2012 í The Telegraph að feitur reikningur hafi verið ógreiddur á hóteli (á nafni Marks) frá því rétt áður en áhöfnin týndist, og var rúmlega helmingur upphæðarinnar fyrir drykki á hótelbarnum. Eitthvað sem samræmist ekki líkamlegum undirbúningi fyrir eitt erfiðasta rall sem keppt er í. Jæja, nóg um skussahátt karlsins fyrir rall.
Biðin í hvítum Peugeot 504
Áhöfnin var sammála um að yfirgefa ekki bílinn. Þau skyldu bíða þar til hjálp bærist. Þau voru með 5 lítra af vatni og agnarögn af þurrkuðum mat sem kom að litlu gagni. En á þessu lifðu þau.
„Ég held að ég hafi ekki áttað mig á að þau [væntanlega starfsfólk keppninnar] vissu ekki hvar við vorum niðurkomin. Þegar enginn kom fyrsta daginn þá man ég hvernig ég gerði áætlun fyrir næstu fimm daga, svo viku. Eftir fyrstu nóttina hafði ég upphugsað tveggja vikna áætlun,“ skrifaði óskipulagði maðurinn sem í minningunni var með allt á hreinu úti í eyðimörkinni.
„Ég óttaðist aldrei um líf mitt. Við hefðum getað verið þarna í margar vikur án þess að vera í hættu. Við áttum jú allt vatnið á vatnskassanum eftir og ég var búinn að tæta niður dekkin af bílnum; tilbúinn að kveikja í ef við yrðum vör við bíl,“ skrifaði Mark Thatcher. Afsakið, Sir Mark Thatcher, því búið er að veita manninum aðalstign.
Látum það nú vera lokaorð sögunnar um týnda soninn. Eitt stutt myndband fann ég um þetta „hneykslismál“ og læt það fylgja.
Annað undarlegt og jafnvel dularfullt úr heimi akstursíþrótta:
Formúluökumanni rænt
Kappakstursbrautin bara bráðnaði
Kannist þið við þá Farouk og Hassan Schumacher?
[Birtist fyrst í janúar 2022]
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein