Einhver líkti bílnum á myndinni hér að ofan við „hastarleg ofnæmisviðbrögð“ því að framan virðist hann kannski eilítið bólginn… Sannleikurinn er sá (eins og margir eflaust vita) að sá græni var útkoma tveggja bíla blöndu þar sem blandarinn var Photoshop.
Engu að síður eru bílarnir tveir raunverulegir og þeir eru aðeins sýnishorn af þeim mögnuðu breytingum sem maðurinn Pierre Tissier gerði á fjölda bíla; einkum á Citroën DS.
Glussakerfið frábæra
Allt er þetta nú byggt á hinu einstaka glussakerfi Citroën sem margir tengja við bílinn Citroën 2CV sem árið 1948 birtist veröldinni. Að minnsta kosti Evrópu, svona ti lað byrja með. Kerfið í 2CV er útskýrt býsna vel í þessu myndbandi hérna sem við birtum fyrir nokkrum mánuðum.
Þannig var, að því er fram kemur nokkuð víða, að Tissier vann hjá framleiðandanum Panhard í kringum 1960. Dag einn þegar Tissier var í óttalegu basli með að finna bílaflutningabíl og gat engan veginn orðið sér úti um slíkt apparat, datt honum í hug að gera dálitlar breytingar á Citroën DS.
Breytingarnar urðu þó nokkrar og þremur mánuðum síðar var tilbúinn hinn prýðilegasti bílaflutningabíll. Næstu þrjá áratugina fékkst Tissier við nákvæmlega þetta: Að gera breytingar á Citroën DS, DX og XM. Þetta urðu vinsælir bílaflutningabílar, bílar til flutninga á búfénaði og síðast en ekki síst sem sjúkrabílar.
Ekki má gleyma að margir slíkir bílar þóttu fínir húsbílar en Penthouse hét ein útfærslan af CX sem kynnt var 1980.
Hér á landi hafa slíkir bílar nú verið til (og eru enn), eins og lesa má um hér í grein á Vísi þar sem segir frá einum slíkum „sem kom hér nýr í Borgarnes og [er búinn] að þjóna sem sjúkrabíll, líkbíll, blómabíll, brauðbíll og í allskonar hlutverkum,“ eins og maður nokkur, Guðsteinn Oddsson, sagði í þessu viðtali sem vitnað er í hér að ofan og birtist í Vísi. Þar er einnig að finna myndband af bílnum.
Bílarnir gegndu, sem fyrr segir, hinum ýmsu hlutverkum. Í grein sem lesa má hér,kemur m.a. fram að bíllinn hafi reynst ljómandi vel til að flytja dagblöð landshluta á milli í Frakklandi; þægilegt þótti með eindæmum að aka bílnum og sitja í honum á lengri ferðum, auk þess sem bílstjóri gat hæglega lagst sig stundarkorn í bílnum á lengstu leiðunum.
1981 tók Pierre Tissier þátt í Algeríurallinu á sjúkrabíl nr 15 og á Íslandi var hann viðloðandi rall hér árið 1983 en þori ég ekki að fullyrða hvort hann var að vinna við rallið eða hvort hann keppti sjálfur. Ábendingar vel þegnar á netfangið malin@bilablogg.is og þá verður framhald!
Tengt efni:
„Þægilegasti bíll í heimi,“ segir hann
Cityrama Citroën 55: Furðulegasta furðufar sögunnar?
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein