Frá og með áramótum mun bílaumboðið Brimborg selja Opel. Mun þetta fylgja í kjölfar skipulagsbreytinga á sölukerfi Opel. Viðskiptablaðið greinir frá þessu í dag. Ekki er það eingöngu salan á Opel sem flyst frá Bílabúð Benna til Brimborgar heldur einnig varahluta-, viðgerðar- og ábyrgðarþjónusta.
Kemur fram að til standi að auka hlutdeild vörumerkisins þýska á íslenskum bílamarkaði og eru markmiðin stór og háleit hvað rafbíla frá Opel snertir. Opel stefnir að því að vera í fararbroddi í orkuskiptum sem og í netsölu bíla hér á landi. Nánar um það má lesa í grein Viðskiptablaðsins hér.
Færist netsala nýrra bíla í aukana?
Það er óhætt að segja að töluverðar breytingar séu í vændum í söluferli nýrra bíla af tegundunum Polestar, Volvo og Opel. Allt merki sem Brimborg selur eða mun selja frá áramótum en bæði hafa framleiðendur Volvo og Polestar gefið út að sala nýrra bíla frá þeim muni eingöngu fara fram á netinu þegar fram líða stundir.
Markmiðið er í grundvallaratriðum að draga úr óþarfa flandri og þar með minnka kolefnisfótsporið.
Það verður spennandi að sjá hvernig þessu vindur fram, sem og hversu breitt úrval Brimborg kemur til með að bjóða úr vörulínum Opel.
Umræður um þessa grein