Í gær fjölluðum við um „gaurinn sem keypti sportbíl í kassa“ á síðasta ári. Sportbíllinn reyndist plat og maðurinn fékk miður fallegt rafsmælki í staðinn. Sportbílinn fékk hann endurgreiddan en smælkið á hann enn. Maðurinn hefur t.d. sett „húdd-scope“ á rafbílinn, sem er sjaldgæf vitleysa.
Já, það er eins og að setja reykháf á stafrænan arineld. En maðurinn, sem kallar sig The Inja (einhver hefur náð „The Ninja“ á undan honum) hefur sýnt og sannað að skopskyn hans er í sjaldgæfum flokki og kannski er þetta „húdd-scope“ bara gott grín á heimaslóðum Inja.
Voðalega margt „slæmt“
Þega Inja lítur yfir farinn veg og rifjar upp svikin voðalegu (sem nauðsynlegt að kynna sér til að átta sig á því sem fjallað er um hér) lýsir hann ógurlegum tíma í lífi hans sjálfs og fjölskyldunnar:
„Við vorum nýbúin að kaupa þetta hús og nýflutt inn þannig að allt var bara slæmt. Ástandið var bara slæmt í alla staði. Þegar ég sá svo þetta bleika þak [þegar hann „kíkti í kassann“ sem átti að geyma kínverska sportbílinn Qiantu K50] þegar ég horfði ofan í kassann, þá var það bara mjög slæmt móment,“ segir hann.
Margt „slæmt“ þarna og hann var bara svona gasalega óheppinn, strákurinn. Hann nefnir ekki þá staðreynd að það hafi verið „slæm“ ákvörðun að borga kínversku fyrirtæki rúmar fjórar milljónir króna fyrir sportbíl sem hann hafði ekki einu sinni séð. Fyrir utan að það hljómar furðulega að rembast við að kaupa hús en ætla svo að kaupa nýjan sportbíl á sama tíma…
Hefur hjálpað öðrum
Áhorfstölur myndbandsins sem við fjölluðum um í gær eru svakalegar. 3.500.000 áhorf eru ekkert smáræði og Inja segir að myndbandið hafi hjálpað fjölda fólks. Rýnum aðeins nánar í fjöldann og orð Inja:
„Það var fullt af fólki sem var svikið á sama tíma af Tony [Kínverjinn sem seldi honum þann bleika]. Ég hef sennilega talað við sex eða sjö manns sem hafði borgað honum 30.000 dollara eða meira […] þannig að þetta hefur hjálpað fullt af fólki alveg helling,“ segir Inja.
Kannski kemur talnaruglið í manninum fram einmitt í þessum orðum. Án þess að ætlunin sé að draga orð hans, upplifun, sorgir og sigra í efa eða gera lítið úr einu eða neinu, þá er þetta samt áhugavert reikningsdæmi (tölur, einmitt):
Segjum að á bak við áhorfin 3.500.000 séu 3.500.000 einstaklingar. Það er „fullt“ af fólki. Hafi hann talað við sex manns og hann kallar það „fullt“ af fólki þá leynist kannski örlítil vonarglæta í þessu: Að það séu hlutfallslega fáir sem láta gabbast og borga platfyrirtækjum fúlgur fjár fyrir platbíla.
En nóg um plat og skellum okkur beinustu leið í gullhúðaðan raunveruleikann!
Gullbíllinn verður til
Það er alla vega ljóst að Inja hefur ekki mikið viðskiptavit og ætti ef til vill að halda sig í góðri fjarlægð frá stærri fjárfestingum.
Hann virðist nokkuð handlaginn og verkvitið vonandi meira en viðskiptavitið. Í Þessu myndbandi er nefnilega „time-lapse“ af ferlinu þegar hann breytir bleika bílnum úr kassanum frá Kína í gullbíl með „húdd-scope“ og ég veit ekki hvað og hvað.
Hann hafði mikið fyrir þessu, blessaður karlinn, og hvað svo sem manni kann að finnast um útkomuna þá er nú aðalatriðið að Inja sé sáttur í eigin skinni.
Í hans augum er þessi bíll algjört gull.
Nú er hann sko glaður
Inja er heldur betur kátur í meðfylgjandi myndbandi og brosir hann svo breitt að ef vel er að gáð þá má sjá að hann er með ljómandi fína endajaxla, en slíkt heyrir nú til undantekninga, þar sem flestir láta fjarlægja þá. En það er nú allt önnur saga.
Það er allt annað að sjá upplitið á manninum hér í samanburði við þá hryggðarmynd sem við áhorfendum blasti í myndbandinu sem við birtum í gær.
Umræður um þessa grein