„Góð hugmynd, en gagnslaus,“ segir maðurinn minn stundum þegar einhver kemur með arfavitlausa hugmynd. Stundum er þessi „einhver“ reyndar ég. En já, sumar hugmyndir hljóma vel en þjóna engum tilgangi eða hafa ekkert hagnýtt gildi.
Svo eru það hugmyndir sem eru einfaldlega vondar. En sem betur fer verða flestar þeirra aldrei annað en það sem þær einmitt ættu bara að vera; hugmyndir.
Flugbíllinn ConvAirCar var í upphafi hugmynd en svo komst mynd á hugmyndina og hún fór á flug. En þó aldrei í framleiðslu.
Tvær frumgerðir af flugbílnum ConvAirCar (einnig nefndur Hall Flying Automobile) voru smíðaðar og tók sú fyrri á loft þann 15. nóvember árið 1947.
Bandaríski flugvélaframleiðandinn Convair ætlaði að hrinda hugmyndinni um bílinn fljúgandi í framkvæmd og fór maður að nafni Ted Hall fyrir verkefninu. Verkefni sem fékk, sem fyrr kemur fram, nafnið ConvAirCar.
Aftur í bílnum var loftkæld 25 hestafla Crosley vél sem knúði bílinn en 190 hestafla Lycoming vél sá um flughlið fyrirbærisins.
Flugmaður úti á þekju
Það kom nú ekki til af góðu að tvö eintök voru smíðuð. Nei, síður en svo. Flugmaðurinn sem flaug flugbílnum þann 18. nóvember 1947, hét Reuben Snodgrass. Nafn sem hljómar ekkert allt of vel (Snoð-gras?) en hvað um það. Þetta var annað tilraunaflugið á flugbílnum.
Snodgrass var kannski eitthvað smá úti á þekju því hann gleymdi að setja eldsneyti á vélina. Þau mistök gera menn yfirleitt bara einu sinni.
Skemmst er frá því að segja að bíllinn brotlenti. Þ.e. flugbíllinn.
Snodgrass slapp með skrekkinn, jú og nokkrar skrámur, blessaður. Eins og sést á meðfylgjandi myndum skánaði flugbíllinn ekkert í útliti við það að verða að klessu en hann varð samt ekki að algjörri klessu því vængurinn var ekki alveg ónýtur og hvað gerðu menn þá?
Jú, notuðu auðvitað vænginn í annan flugbíl. Reyndar þurfti að útvega allt annað; Bíl, vélar og annað smálegt. Þann 29. janúar 1948 tók eintak númer tvö af ConvAirCar á loft. Af einhverjum ástæðum var Snodgrass ekki sá sem flaug í það skiptið. Hann hefur verið eitthvað upptekinn karlinn. W.G. Griswold flaug bílnum í það skiptið. Sérstök nöfn á þeim körlum, Grísvaldur og Snoðgras…
Þó að allt hafi virkað ágætlega í flugi Griswolds var eins og neistinn væri ekki lengur til staðar. Áhuginn á verkefninu var á bak og burt og ekki fór flugbíllinn í framleiðslu.
Hefði fallið illa inn í hópinn
Kannski hafði það eitthvað að segja hversu svakalega bíllinn hefði skorið sig úr í umferðinni svona almennt. Með skrúfu, vængi og stél einhvern veginn eins og harmonikku fasta ofan á sér. Maður veit ekki.
Ekki það, að sem flugvél var ConvAirCar líka svolítið spes. En nóg um það.
Í lokin er rétt að geta þess að Snodgrass var, sem fyrr segir, ekki alveg með á nótunum þegar hann framkvæmdi „pre-flight-tékkið“. Hann glápti á bensínmælinn fyrir bílinn sjálfan en ekki flugvélina. Fór altsvo í loftið með tóman eldsneytistank fyrir flugvélina en nóg bensín fyrir litla 25 hestafla bílmótorinn. Það var bara ekki nóg.
Umræður um þessa grein