Aftur til fortíðar
Við hjá Bílabloggi heimsóttum samgöngusafnið að Stóragerði í Skagafirði fyrir skömmu [2020]. Þar hittum við fyrir staðarhaldara og spurðum þá nokkurra spurninga um safnið og tilurð þess.
Gunnar Kr. Þórðarson stofnaði þetta safn ásamt eiginkonu sinni Sólveigu Jónasdóttur þann 26. júní árið 2004. Gunnar var menntaður bifvélavirkjameistari og Sólveig er grunnskólakennari.
Gunnar var með brennandi áhuga á samgönguminjum og frá unga aldri safnaði hann sjálfur stórum hluta sýningargripanna. Gunnar gerði upp bæði bíla og vélar en til að varðveislan væri sem best þurfti að byggja skemmu og var því lítið annað í stöðunni en að opna þetta glæsilega safn fyrir gesti og gangandi. Fyrst var safnið um 600 fm salur með lítilli gestamóttöku.
Á nokkrum árum var umfangið á safninu orðið það mikið að stækka þurfti salinn um 800 fermetra ásamt gestamóttökunni; byrjað var á því haustið 2010 og var fullklárað fyrir sumarið 2013. í dag eru um 100 tæki til sýnis í salnum og má þar nefna bíla, rútur, mótorhjól, snjósleða, búvélar, flugþyt og ekki má gleyma öllu því smádóti sem tengist samgöngusögu Íslendinga.
Fyrir utan safnið og í kringum það má svo áætla að séu í kringum 200-250 bílar og tæki í misgóðu ásigkomulagi sem ótrúlega gaman er að skoða. Verkstæði safnsins stendur sunnan við safnið og er öll uppgerð á bílum og tækjum unnin þar.
Á útisvæði og í sýningarsölum eru auðvelt að gleyma stað og stund. Safnið er sérlega vel upp sett og gefur góða innsýn í samgöngusögu íslendinga.
Á útisvæði má sjá gömul tæki sem muna mega sinn fífil fegri en mörg þeirra eiga eflaust eftir að ganga í endurnýjun lífdaga. Gaman er að sjá hversu margir bílar sem nýkomnir eru á fornbílaaldur eru á safninu.
Á Moscovitch kemstu það (úr auglýsingatexta)
Bifreiðar og Landbúnaðarvélar fluttu þessa bíla inn frá Sovétríkjunum. Þessi Moskvitch árgerð 1979 var notaður til að ferja fiskikör á Ólafsfirði. Upphaflega komu þessir bílar með húsi en það hefur verið tekið af þessum til að hann nýttist betur við flutninga. Bíllinn kom á Samgöngusafnið í Skagafirði árið 2007.
„Kaupið Ford, hann hentar íslenskum staðháttum“ (úr auglýsingatexta)
Sveinn Egilsson var með umboðið fyrir Ford bíla á þessum árum. A 1773 er Ford Taunus 1.6, skutbíll árgerð 1981. Þessi bíll er fyrst skráður árið 1982 á Akureyri og er í eigu Magnúsar Friðrikssonar í fjögur ár. Hann selur svo bílinn til Stefáns Vilhjálmssonar sem átti og notaði bílinn í 20 ár. Upphaflegt skráningarnúmer var A 95.
„Allt á sama stað“ (úr auglýsingatexta)
Egill Vilhjálmsson hf, flutti inn Jeep bílana frá árinu 1967. Þennan Willis Jeepster keypti Garðar Hallgrímsson svæfingalæknir nýjan árið 1967. Eftir hans dag eignaðist sonur hans, Steingrímur Garðarsson bílinn og var byrjaður að gera hann upp en sá fram að hann myndi ekki ná að ljúka verkinu. Safnið eignaðist bílinn 3. ágúst 2008. Uppgerð bílsins var lokið veturinn 2012 – 2013 á verkstæði safnsins. Þá sprautaði Páll Magnússon bílinn. Þessi bíll er aðeins ekinn 25.596 km.
Það var hinn 11. Júlí 1969 sem Bókabíllinn var tekinn í notkun. Þessum bíl man undirritaður vel eftir og nýtti þjónustu hans. Ófáar ferðir voru farnar í bílinn og bækur fengnar að láni. Tinnabækurnar, Frank og Jói ásamt fleirum voru vinsælar á þeim tíma. Bílinn var byggður upp úr gömlum strætisvagni sem hafði ekið um götur borgarinnar í ellefu ár áður en honum var breytt í bókabíl.
Smíði innréttinga í bílinn var afar vönduð og þær eru í fínu lagi enn í dag. Bókabíllinn var búinn sjálfstæðu rafkerfi sem keyrt var á rafgeymum sem hlaðnir voru á nóttunni. Þannig var ávallt flott lýsing í bílnum þegar maður kom að skoða bækur. Einnig var sjálfvirk olíukynding á vatnskerfi bílsins sem hélt á gestum hita á köldum vetrardögum.
Rafmagnsteikningar og hönnun gerði Jóhann Indriðason verkfræðingur, Þórarinn Gunnarsson bifreiðasmiður sá um hönnun og smíði kyndikerfis ásamt því að hanna allar innréttingar í bílinn. Torfi Jónsson auglýsingateiknari sá síðan um ytra útlit, litaval og frágang á myndum.
Við látum myndirnar tala sínu máli…og mælum með heimsókn á safnið
Myndband og klipping: Dagur Jóhannsson.
Umræður um þessa grein