Heimsmeistari í Formúlu 1 öðlast með titlinum rétt til að nota keppnisnúmerið 1. Það ætlar Max Verstappen að gera á komandi keppnistímabili. En svo bar tímavélin blaðamann aftur til númersins 0 sem eitt sinn fékk að vera með í Formúlu 1.
„Já, ég æta að nota það [númerið],“ svaraði Max þegar hann var spurður að því hvort hann hygðist hvíla keppnisnúmerið 33 og nota númerið 1 í staðinn. Það var vefurinn F1 sem spurði.
„Hversu oft fær maður tækifæri til þess? Ég veit það ekki en kannski er þetta eina tækifæri mitt til þess. Þetta er nú besta númer sem völ er á þannig að ég mun pottþétt setja það á bílinn,“ sagði Max sem hefur brosað mikið síðan á sunnudagskvöld þegar hann varð heimsmeistari í Formúlu 1.
Ekki verið notað í 7 ár
Síðast var keppnisnúmerið notað af Sebastian Vettel árið 2014, (þá þrefaldur að verða fjórfaldur heimsmeistari). Það var nefnilega í byrjun keppnistímabilsins 2014 sem þetta val um númer heimsmeistara var tekið upp. Lewis Hamilton hefur haldið sínu númeri, 44. Nico Rosberg sem varð heimsmeistari árið 2016 hætti eftir tímabilið og því hefur númerið voðalega lítið verið notað.
Eiginlega er númerið bara alveg ónotað.
Var bara númer 0
Þessi talnasúpa öll sömul varð til þess að maður reiknaði sig aftur í tímann og komst alla leið á núllið. Damon Hill var nefnilega með keppnisnúmerið 0!
Sá háttur var hafður á, fram til ársins 2014, að keppnisnúmerið ákvarðaðist af stöðu keppanda við lok fyrra tímabils. Þá fékk heimsmeistarinn keppnisnúmerið 1 við upphaf nýs keppnistímabils, næsti fékk þá númerið 2 og svo framvegis.
Keppnistímabilin 1993 og 1994 var þó númerið 0 notað og sem fyrr segir var það Damon Hill sem var með það á sínum bíl.
Samkvæmt reglunum sem þá giltu var það aðeins heimsmeistarinn sem mátti nota númerið 1. Nigel Mansell, ökumaður Williams-liðsins varð heimsmeistari árið 1992 en hætti í Formúlu 1 þegar hann hafði unnið titilinn. Liðsfélagi hans, Riccardo Patrase, sem varð í öðru sæti, fór yfir til Benetton-liðsins.
Liðið hefði því með réttu átt að fá númerin 1 og 2 en þar sem Mansell sagði skilið við Formúlu 1 þá fékk liðið númerin 0 og 2. Mjög spes!
Nýju liðsmennirnir voru þeir Alain Prost ( þá, árið 1993, þrefaldur heimsmeistari) og Damon Hill, sem kom frá Brabham-liðinu. Nú, þrefaldur heimsmeistarinn vildi ekki keppa undir númerinu 0 og fékk Damon Hill því núllið.
Þannig atvikaðist það að í fyrsta skipti í sögu Formúlu 1 var einhver númer núll.
Skemmst er frá því að segja að Prost varð þetta ár, 1993, heimsmeistari í fjórða sinn en hætti í Formúlu 1 eftir tímabilið. Hill var áfram hjá Williams og aftur var liðsfélagi hans þrefaldur heimsmeistari; Ayrton Senna.
Ekki kærði Senna sig um að vera númer núll og áfram hélt Hill, með sitt keppnisnúmer 0. Rétt er að geta þess að það númer hefur ekki verið notað síðan 1994.
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein