Þegar litið er á þennan grafalvarlega dreng ætti manni að vera ljóst að hann er gríðarlega einbeittur. Ekki leiður, því hann brosir aðeins. Enn þann dag í dag brosir hann sjaldan og er ákaflega einbeittur. Þetta Max Verstappen.
Mamma og pabbi bæði í kappakstri
Formúlu 1 ökumaðurinn Max Emilian Verstappen fæddist þann 30. september 1997 á Hasselt sjúkrahúsinu í Belgíu. Á vefsíðu hans segir að hann hafi alltaf verið snöggur.
Til að mynda hafi hann komið í heiminn á mettíma.
Tíu dögum eftir fæðingu drengsins fór faðir hans til Japan að keppa í Formúlu 1 í Suzuka. Þangað hafði Max litli lítið að sækja á þeim tímapunkti.
Jos Verstappen, faðir Max, var farsæll keppandi í Formúlu 3 og keppti síðar í Formúlu 1. Án þess að ferill hans sé rakinn hér sérstaklega þá hefur Jos komið víða við í akstursíþróttum og er hvergi nærri hættur þó svo að hann hafi í nógu að snúast í kringum soninn.
Sophie Kumpen, móðir Max, er fyrrum meistari í gókart og því kom það ekkert eins og þruma úr heiðskíru þegar Max sýndi akstursíþróttum áhuga ungur að árum. Sama á við um systurina Victoriu (tvemur árum yngri en Max) sem er líka í kappakstri. Meira um það fólk síðar.
Hvað sem því líður þá hafði Max mætt út á braut með foreldrunum oft og mörgum sinnum áður en hann byrjaði að ganga.
Keppti fyrst sjö ára gamall
Árið 2005 keppti Max í Mini flokki í belgíska gókartinu og burstaði alla krakkana, þá 7 ára gamall. Hann sigraði hverja keppnina eftir aðra það árið og var orðinn Belgíumeistari í gókarti fáeinum dögum eftir 8 ára afmælið.
2006 vann hann hverja einustu keppni sem hann kom nálægt, eða 21 keppni og varð Belgíumeistari annað árið í röð. Þannig hélt það áfram og hér má lesa um þennan magnaða feril hans á barnsaldri.
Meðfylgjandi myndband er frá árinu 2009 og var það tekið í keppni í Hollandi. Það er grjótmagnað að sjá einbeitinguna hjá þessum pjakki (11 ára að verða 12). Öll athygli á nákvæmlega því sem skipti hann máli: Keppa og vinna.
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein