Ekki snerta! Það ætti ekki að þurfa að skrifa það á bílana í Formúlu 1 en kannski þarf það héðan í frá. Max Verstappen verður brátt 50.000 € fátækari (7,5 mkr) en hann álpaðist til að snerta bíl keppinautarins Lewis Hamilton í gær.
Ekki fikta
Hvað hann gerði og af hverju hann kom við bílinn eftir tímatökuna í gær, liggur ekki fyrir en hann bæði snerti afturvæng bílsins og skoðaði hann gaumgæfilega. Þegar bílarnir eru í „Parc Ferme“.
Er alveg bannað að koma inn á svæðið, að örfáum starfsmönnum undanskildum. Bannað er að skoða, gera við eða aðhafast nokkuð án sérstakra leyfa og undanþága.
Hamilton náði besta tímanum í tímatökunum en síðar kom í ljós að afturvængurinn á bílnum opnaðist meira en leyfilegt er og meira um það hér.
Að tímatökum loknum fór Verstappen út úr bílnum sínum, gekk aftur fyrir hann, tók af sér hanskana (þetta er eins og í spennusögu, vantar bara dramatíska tóna með þessu) og bar hægri höndina að vængraufinni á aftari vængnum.
Því næst rölti hann að bíl Hamiltons og endurtók þetta (fyrir utan fyrsta atriðið – að fara út úr bílnum) með örlitlum tilbrigðum.
Á þetta horfði fjöldi fólks og ekki nóg með það heldur má sjá brotið á óteljandi upptökum.
Myndavélar eru bókstaflega út um allt og hvernig Verstappen fór að því að gleyma þeirri staðreynd er auðvitað ráðgáta. En kannski langaði hann bara að klappa fallega bílnum… Maður veit ekki en þetta var alla vega dýrt klapp.
Fyrir utan að brot á reglum er auðvitað háalvarlegt mál.
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein