Það verður eiginlega að segjast að ég varð smá hissa þegar ég rakst á þessa frumgerð Ford á bíl sem þeir vildu kalla Aurora. Þetta var á draumatímabilinu í Detroit í kringum 1965 þegar kúpubakar, sport- og blæjubílar flæddu út úr amerískum bílaverksmiðjum.
En Ford tók áhugaverðan pól í hæðina með þessum bíl árið 1964.
Aurora var kynntur á heimssýningunni í New York 1964, þar sem Mustang 1965 kom, sá og sigraði. Aurora var hannaður til að sýna neytendum hvernig skutbíll framtíðarinnar gæti orðið. Keyrandi „lúxus setustofa”, sagði Gene Bordinat yfirmaður hönnunardeildar Ford á þessum tíma.
Aurora var hlaðinn framsýnum hugmyndum og það var ný sýn á þægindi – alls voru þetta 23 hugmyndir í allt, samkvæmt því sem Ford kynnti.
Skutbílar voru í tísku
Á þessum tíma var Ford, sem var nokkurnveginn ókrýndur leiðtogi í flokki skutbíla að missa viðskipti yfir til General Motors og Chrysler. Og það var Aurora sem átti að takast á við þetta vandamál.
Ein athyglisverð hugmynd var afturhlerinn, með teppalögðum neðri hluta sem varð að innstigi fyrir krakkana þegar hann var opnaður.
Risahjólhaf (um 131 tomma) gerði ráð fyrir miklu innanrými sem var þematískt skipt í þrjá hluta: aftasta svæði (með glerskilrúmi) fyrir börn og svo var hálfur sófi í annarri sætaröðinni en frammí var farþegastóllinn eins og hægindastóll. Og það var bara ein hliðarhurð, staðsett hægra megin.
Gler og aftur gler
Takið eftir toppnum á bílnum, mikið af gleri og grindin sem glerið er í kringum var hugsuð sem veltivörn. Og það voru ljós eftir endilöngu til að búa til stemningu og að bíllinn sæist betur í myrkri – er þetta ekki eitthvað sem við erum að sjá í nýjum bílum í dag?
Setustofa á hjólum
Þetta furðulega sætaskipulag er svo sem ekkert sérlega furðulegt í dag. Það eru fullt af ökutækjum með svona fídusum. Þó er kannski skemmst að minnast nýrrar Lanciu hugmyndar sem var að líta dagsins ljós fyrir nokkru og við skrifuðum um hér. Og sextíu árum síðar kynnir Lancia gegnsæistækni sem virkar mjög svipað og í Aurora, þú ýtir á takka og rúður verða ógegnsæjar.
Aftur í var það svo „búmerang lagaður“ sófinn sem vakti gríðarlega athygli en þar er eiginlega lítil setustofa, með borði og allskyns dóti.
Stýrishjólið var eins og í flugvél og svo var leiðsögukerfi með prentuðu korti sem snerist á tromlu eftir því hvert var ekið.
Þó að þessi dreki hafi aldrei komist á framleiðslustigið – kannski af augljósum öryggisástæðum kom önnur hugmynd frá Ford sem þeir kölluðu Aurora II.
Sú hugmynd kom fram árið 1969 og var aðeins hógværari en hún var byggð á standard LTD Country Squire grunni.
Það má þó sjá leifar af þessum hönnunarhugmyndum í 1964 árgerðinni af Ford Thunderbird því sófalaga aftursætið í þeim bíl minnir óneitanlega á Aurora.
Umræður um þessa grein