Fræin af öspinni geta farið illa með lakkið á bílnum
- Fræin eru með trjákvoðu sem límist við lakkið
- Verður að hreinsa fljótt því annars skemmist lakkið til frambúðar
Öspin er ein algengasta trjátegundin víða um landið og slútir gjarnan yfir bílastæði við húsin.
Þessa dagana dælir tré frá sér fræjum í þúsundavís og móðir náttúra hefur búið svo um að hvert frækorn er með trjákvoðu (harpix) sem límir fræið við það yfirborð sem það lendir á. Þetta á einnig við um lakkið á bílunum okkar og þegar við tökum fræið af lakkinu þá sést hvernig eftir situr rönd af trjákvoðu.
Ef þessi trjákvoða nær að brenna sig fasta við lakkið, til dæmis í sólarljósi, þá er voðinn vís og það getur reynst erfitt að hreinsa þetta af án þess að skemma lakkið.
En ef þetta er hreinsað strax þá er skaðinn enginn og lakkið helst óskemmt.
Besta ráðið til að hreinsa trákvoðuna er að nota spíra, og af honum eiga væntanlega margir nóg þessa dagana vegna Covid-19. Hér á bæ hefur verið notað brennsluspritt eða rauðspritt, en það er búið að sannreyna það að handhreinsisprittið dugar vel líka.
Setja þarf smávegis af spritti í mjúkan klút og nudda létt yfir trjákvoðuna þar til að ummerki um hana hverfa og bóna svo bara yfir lakkið á eftir!
Umræður um þessa grein