Íslandsmeistararnir í ralli, Gunnar Karl og Ísak luku keppni í Cambrian rallinu í Norður-Wales, og gott betur en það!
Hér er viðtal við Gunnar Karl sem við birtum í gær og er gaman að geta fylgt því eftir með reglulega góðum fréttum að rallinu loknu.
Þeir unnu sig hratt upp listann, þ.e. þeir óku hratt og örugglega.
Eins og kom fram í viðtalinu í gær voru þeir númer 28 í rásröðinni en hraðinn á þeim sýndi að þar voru þeir vanmetnir því þeir enduðu í 9. sæti yfir heildina. Það verður að teljast æði góður árangur!
Margir á öflugri bílum en fáir gerðu betur en strákarnir
Hundrað þrjátíu og sex áhafnir hófu keppni í morgun. 40 náðu ekki að klára af ýmsum ástæðum. Um miðbik keppninnar kom upp bensínleki í bíl Gunnars Karls og Ísaks en bensínáfyllingar eru bannaðar nema á þar til gerðum svæðum svo þeir þurftu að spara bensínið og slökkva á svonefndum „anti-lag“ búnaði sem eykur afl vélarinnar. Þetta hafði einhver áhrif en rétt viðbrögð þeirra og þjónustuliðsins skilaði þeim í mark, sem er betra en að keyra fulla ferð og geta svo ekki klárað.
Rallið er flokkaskipt og keppa þeir Gunnar Karl og Ísak í flokki sem heitir B13. Bílar í þeim flokki eru sambærilegir toppbílum í rallinu hér heima en samt mátti heyra á Gunnari í gær að flestir hinna B13 bílanna væru talsvert meira breyttir en þeirra bíll og meira í þá lagt. Í mörgum tilvikum tvöfalt dýrari en bíll Íslandsmeistaranna.
Þeir urðu í fjórða sæti í sínum flokki og var það í samræmi við markmið þeirra, svo ég vitni aftur í orð Gunnars Karls frá því í gær:
„Við ætlum að reyna að vera eins ofarlega og við getum. Topp fimm er held ég raunhæft markmið og auðvitað væri rosalega gaman að komast á pall!“
Þeir voru sannarlega nærri því að komast á pall en árangurinn er virkilega góður og megum við vera stolt af „strákunum okkar“!
Umræður um þessa grein