Hefur þú séð formúlubíl á keðjum? En í snjó? Það hefur auðvitað ýmislegt verið gert til að vekja athygli á Formúlu 1 og sumt er eftirminnilegra en annað. Hér segir frá því þegar átján ára strákur ók formúlubíl á skíðasvæðinu í Kitzbühel í Austurríki.
Formúlubílar eru auðvitað hannaðir og smíðaðir til aksturs eftir þar til gerðum brautum; sléttum og jöfnum, ef svo má segja. Það er samt ótrúlegt hversu vel hann kemur út í akstri í snjó þegar svona tryllitæki, rúmlega 800 hestafla tæki, er komið á keðjur og negld dekk.
Umdeilt uppátæki
Þetta gerði Red Bull í byrjun janúar árið 2016 á skíðahátíð í Kitzbühel og vakti uppátækið að vonum athygli gesta sem staddir voru á hátíðinni. Ökumaðurinn ungi var Max Verstappen, þá aðeins átján ára gamall og fannst honum þetta ljómandi skemmtilegt. Það þótti áhorfendum líka. Minni gleði ríkti þó hjá yfirvöldum sem sögðu nokkru síðar að Red Bull hafi ekki verið með öll tilskilin leyfi fyrir húllumhæinu á skíðasvæðinu.
Á tímabili leit út fyrir að Red Bull fengi 30.000 evra sekt en ekki virðist hafa komið til þess.
Bíllinn kom fljúgandi, það er að segja að flogið var með bílinn upp í fjöllin. Bíllinn „hékk í spotta“ neðan í þyrlu og þannig var farið með hann upp á skíðasvæðið.
Hæstu tindarnir þarna í kring eru rúmlega 1.700 m háir og skíðasvæðið sjálft er í 1.230 metra hæð. Einhvers staðar las ég að bíllinn hafi ekki verið sá nýjasti, heldur frá árinu 2011, en alvöru formúlubíll engu að síður!
Nú er þetta frá árinu 2016 þannig að einhverjir hafa örugglega séð myndbandið sem er hér fyrir neðan og vita allt um málið. Hins vegar fór þetta alveg fram hjá undirritaðri á sínum tíma og vonandi kætir þetta fleiri.
Örlítið „On board“ sýnishorn:
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein