Ford er að bæta við sex strokka túrbódísil útgáfu af næsta Ranger pallbíl, með það fyrir augum að gera hann að fýsilegri kosti á fleiri mörkuðum en þeim ameríska.
Nýi Ford Ranger mun koma í sýningarsali snemma árs 2023, sagði Ford í tilkynninguá miðvikudag.
Rafmagnaður valkostur, sem gert er ráð fyrir að verði tengiltvinnbíll, verður fáanlegur árið 2024, upplýsti bílaframleiðandinn. Ford sagði einnig að endurhönnun á uppbyggingu framenda muni „gera Ranger tiltækan fyrir aðrar gerðir vélatækni“.

Núverandi Ranger er fáanlegur með 2,0 lítra fjögurra strokka dísilvél í Evrópu, í nokkrum aflstigum. Hann er í boði með tveggja dyra venjulegu stýrishúsi, tveggja dyra fjögurra sæta Super Cab og fimm sæta, með fjögurra dyra tvöföldu stýrishúsi, fyrir farþega- og sem vinnubíll.
Farþegarýmið í nýja Ranger verður „eins og í venjulegum bílum og í það verða notuð mjúk hágæða efni,“ sagði Ford í tilkynningunni.

Tengingareiginleikar Ranger fela í sér 10,1 tommu eða 12 tommu snertiskjá. Stafræna mælaborðið er með SYNC 4 kerfi Ford með innbyggðu mótaldi.
Þessi uppfærsla á búnaði og notkun á hágæða efni endurspegla þá staðreynd að margir viðskiptavinir í Evrópu kaupa hágæða útgáfur.
„Meirihluti Ranger-kaupenda vill mikil gæði,“ sagði Hans Schep, yfirmaður atvinnubíla hjá Ford í Evrópu, á markaðsdegi Ford í maí. „Þú yrðir hissa á þeim peningum sem viðskiptavinir eyða. Ekki bara í farartækið, heldur það sem þeir fjárfesta í á eftir.”
Á fyrsta ársfjórðungi voru 89 prósent seldra Ranger-bíla fimm sæta, fjögurra dyra „double-cab“, sagði Ford. Af heildinni voru 78 prósent hágæða útgáfur eins og Wildtrak og Raptor.

Eru stærstir á litlum markaði
Ford er nú ráðandi á tiltölulega litlum evrópskum pallbílamarkaði með Ranger eftir að keppinautar eins og Mitsubishi, Nissan og Renault hafa skorið niður eða minnkað gerðir.
Núverandi Ranger leiddi flokkinn í lok september með 39,9% hlutdeild í sölu á 45.539 eintökum í 20 Evrópulöndum, sagði bílaframleiðandinn. Helsti keppinauturinn er Toyota Hilux.
Ford hefur sagt að nýr Ranger verði seldur í 180 löndum um allan heim. Engar áætlanir hafa verið kynntar fyrir Bandaríkin, þar sem núverandi Ranger er seldur ásamt hinum farsæla F-150 pallbíl í fullri stærð, en búist er við að fyrirtækið bæti nýju gerðinni við síðar.

Hannaður í Ástralíu
Nýi Ranger var hannaður í vöruþróunarmiðstöð Ford í Ástralíu.
„Teymið okkar vann einbeitt að einu markmiði: Að gera þennan Ranger að þeim öflugasta og hæfasta sem við höfum búið til,“ sagði Graham Pearson, yfirmaður bílaáætlunar Ranger, í yfirlýsingunni.
Ranger-bíllinn notar undirvagn á stigagrind, í takt við fyrri kynslóðir, en Ford sagði að breiðari hönnun á framenda væri með breiðara vélarrými til að taka við 3.0 V-6 dísilvélinni.
50 mm lengra hjólhaf ýtir framhjólunum lengra fram fyrir betri torfærugetu, en sporvíddin hefur verið breikkuð um 50 mm til að hægt sé að hlaða stærri hlutum á pallinn, þar á meðal vörubretti í fullri stærð eða krossviðarplötum.

Hagnýtir eiginleikar
Hagnýtar viðbætur eru meðal annars nýtt hliðarþrep til að komast betur að hleðslurúminu og nýr afturhleri sem hægt er að nota sem vinnubekk þegar hann er lagður niður, með innbyggðri reglustiku og innskotum til að staðsetja klemmur.
„FordPass“-appið leyfir fjarstýringu sumra hluta Ranger, þar á meðal ræsingu, læsingu og ljós, til að lýsa upp byggingarsvæði, til dæmis.
Nýir hönnunarþættir eru meðal annars „C-clamp“ dagljós sem umlykja aðalljósin og meira áberandi hjólbogar á brettum.
„Við fórum virkilega eftir harðri, ráðandi framhönnun með „kraftalegum“ hliðum,“ sagði Max Tran, yfirhönnuður Ranger, í myndbandi sem birt var á netinu á miðvikudaginn.
Samhliða 3,0 lítra V6, geta viðskiptavinir Ranger valið 2,0 lítra dísilvél með annað hvort tveimur eða einni forþjöppu. Engar afl- eða losunartölur voru gefnar upp. Ford segir að V6 hafi „endalaust afl og tog, sem er nákvæmlega það sem viðskiptavinir okkar vildu“.
Hægt verður að panta Ranger í Evrópu síðla árs 2022, sagði Ford.
Bíllinn fyrir Evrópu smíðaður í Suður-Afríku
Ford mun smíða Ranger fyrir Evrópu samhliða Volkswagen Amarok í nýstækkaðri Silverton verksmiðju sinni í Suður-Afríku. Ranger er einnig smíðaður í Ford verksmiðjum í Tælandi og Michigan.
Pallbíllinn verður fyrsta Ford-þróaða gerðin sem verður einnig notuð sem grunnur fyrir samsvarandi bíla hjá VW, samkvæmt iðnaðarsamstarfi fyrirtækjanna tveggja (fyrst kynnt árið 2019). Fyrsta VW-þróaða gerðin sem Ford setur á markað verður Tourneo Connect, fyrirferðarlítill farþegabíll, sem kynntur var fyrir skemmstu.
Ford gaf engar upplýsingar um Amarok við kynninguna, en VW hefur sagt að hönnun hans verði „klárlega öðruvísi“.
(fréttir á Automotive News Europe og fleiri bílavefsíðum – myndir frá Ford)
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein