- Upprunalegi Ford Escort var vinsæl gerð og hún kom Ford líka inn á rallýbrautina. Nú snýr „frumgerðin“ aftur.
Framleiðslu á upprunalega Mk1 Escort var hætt árið 1975 en nú á að blása nýju lífi í bílinn á ný. Ekki af Ford, heldur af Boreham Motorworks sem ætlar að koma með litla seríu byggða frá grunni með blöndu af upprunalegum teikningum og nútímalegum efnum.
Útgáfan frá Boreham heitir Escort Mk1 Continumod og notar undirvagn með VIN númeri sem Ford hefur samþykkt. Nýi bíllinn býr yfir nútímatækni en á líka margt sameiginlegt með frumgerðinni.
Í fréttinni á vef BilNorge kemur fram að verðmiðinn á bílnum verður á 295.000 bresk pund (sem samvarar 51,5 milljónum króna) og að hann verður aðeins smíðaður í 150 eintökum. Fyrsta eintakið verður sýnt almenningi um mitt ár 2025 og framleiðsla hefst á næsta ári.
Tvær vélar
Viðskiptavinir geta valið á milli tveggja aflrása: 1,8 lítra með 184 hestöflum eða 2,1 lítra með 300 hestöflum og allt að 10.000 snúninga á mínútu. Ef þér finnst það hljóma takmarkað, skulum við bæta því við að markmiðið sé að halda þyngd bílsins í lágmarki 800 kg, segir BilNorge.
Aflið frá vélunum fer í beinskiptan gírkassa – 4 gíra fyrir þá minni og 5 gíra fyrir þá stærri og aflið er sent á afturhjólin.
Eins og ytra byrði er innréttingin líka blanda af nýju og gömlu. Hér er að finna hefðbundið mælaborð og stjórntæki ásamt litlum stafrænum skjá á mælaborðinu fyrir upplýsinga- og afþreyingu. Viðskiptavinir geta valið hvort þeir vilji hafa stýrið hægra eða vinstra megin.
Boreham er einnig að vinna að nútímalegri útgáfu af Ford RS2000 frá níunda áratugnum.
(frétt á vef BilNorge)
Umræður um þessa grein