Ford Bronco Wildtrak er sannkallað torfærutröll

Tegund: Ford Bronco Wildtrak

Árgerð: 2023

Orkugjafi: Bensín

Afl, aksturseiginleikar
Verð, hljóðeinangrun
269
DEILINGAR
2.4k
SMELLIR

Nú höfum við loksins prófað nýjan Ford Bronco Wildtrak. Það var ekki leiðinlegt ef satt skal segja.

Ford Bronco ber arfleifðina milli kynslóða og þar hafa kanarnir ekki klikkað, frekar en fyrri daginn.

Tækni í fyrirrúmi

Við fórum þrír saman, Bílabloggsmenn og gerðum bílnum góð skil. Hann var tandurhreinn þegar við sóttum hann í Brimborg seinnipart föstudags en drulluskítugur á sunnudeginum er við skiluðum bílnum. 

Vígalegur aftanfrá, Ford Bronco Wildtrak.

Þessi Ford Bronco er stútfullur af tækni og eiginleikum sem gerir hann að því torfærutrölli sem hann er.

Við gefum Jóhannesi Reykdal orðið:

„Ég hef átt allmarga jeppa yfir ævina, og notað fleiri en þá sem ég átti sjálfur. Allt frá gamla góða Willys, Land Rover og fleiri. Notaði Weapon-pallbíla í landmælingum, ásamt nýrri gerð af Willys-jeppa og þá (1965) alveg splunkunýjan Land Rover.

Hér er villihesturinn að láta á sér kræla.

Bronco er goðsögn

Í framhaldinu átti ég sjálfur tvo Bronco-jeppa 1966 og 1974 og síðan fleiri en einn Jeep Cherokee. Allt þetta hefur safnast upp í tæplega sextíu ára reynslubanka, sem ég gat leitað í þegar við vorum að reynsluaka þessum nýja Ford Bronco Wildtrak.

Það er greinilegt að Ford hefur leitað vel í sínum „reynslubanka“ þegar þeir hönnuðu þennan nýja jeppa – enda eru liðlega 40 ár frá því að sá „gamli“ hætti.

Og þeim hefur bara tekist nokkuð vel upp, margt er enn til staðar frá 66-bílnum – en hellingur líka sem kalla má „framför“.

Wildtrak útgáfan er sérlega hentug fyrir íslenskar aðstæður.

Og áfram er það Jóhannes sem á orðið:

Fyllilega sambærilegur

Það er líka greinilegt að Ford hefur verið að horfa sterklega til keppinauta á borð við Jeep Wrangler og slíkra jeppa, og örugglega stefnt að því að gera betur.

Og hefur þetta tekist? Ójá – og vel það! Á fyrstu metrunum virtist bíllinn frekar hastur en svaraði vel. Sérstaklega í stýri því þótt ekið hafi verið á grófum óbyggðaslóða fannst ekki eitt minnsta högg upp í stýrið. Þetta skiptir líka máli því hönnuðir Bronco hafa valið að hafa stýrishjólið frekar lítið, svo ef það hefði fundið áhrif frá ójöfnum í landslaginu hefði það verið verra.

Það eru þrír bílar á núverandi markaði hér á landi sem keppa saman en það eru þessi Ford Bronco, Wrangler Rubicon og Land Rover Defender. Allir hafa sína sérstöðu en segja má að Broncoinn hafi bæði þægindin og torfærueiginleikana. Hann er rúmgóður, stór jeppi sem býður upp á fjölbreytt notagildi.

Hann hefur voða lítið fyrir þessum skvettum sem við fundum uppí Mosfellsdal.

Vel búinn fyrir íslenskar aðstæður

Ford Bronco Wildtrak er vel búinn bíll, hann er með gnótt öryggisbúnaðar en þar er helst að nefna loftpúða í hliðum, hliðarárekstrarvörn, blindhornaviðvörun og skynvæddan hraðastilli. Broncoinn er einnig með akreinaaðstoð og akreinastýringu.

Mjög töff mælaborð með allri nýjustu tækni.

Þú notar G.O.A.T stillinguna

Við skiptum yfir á „mýkri“ fjöðrunarstillingu og þá fannst vel hversu fjöðrunin hefur í raun verið hönnuð til að takast á við ójöfnur í torfærum.

Það sem skiptir hér máli er að bíllinn býður upp á stillanlega akstursmáta og fjöðrun (Terrain Managemant System), svokallaðar G.O.A.T („Goes Over All Terrain“) stillingar.

Í Wildtrak útgáfunni eru: Normal, Sport, Eco, Slippery, Sand, Mud/Ruts stillingar til að leika sér með enn frekar.

Í akstri á venjulegum en krókóttum „dreifbýlisvegi“ komu aksturseiginleikarnir enn betur í ljós.

Skortir aldrei afl

Vélin í bílnum er 2,7 lítra og 330 hestöfl – og þau eru svo sannarlega öll til staðar þegar hefið er inn og í akstri upp brekku kemur togið vel í ljós, enda eru alls 557 Nm af togi til staðar þegar á þarf að halda.

Bíllinn kemur á alvöru 17 tommu dekkjum sem henta vel fyrir torfæra slóða hér á landi.

En það verður að halda því til hafa að það heyrist líka vel í vélinni þegar henni er gefið inn!

Slóðastýring og fjöðrun

Broncoinn er með svokallaðri slóðastýringu en það er búnaður sem gerir að verkum að jeppinn beygir krappar á lítilli ferð og í erfiðum aðstæðum. Kaninn kallar þetta Trail Turn Assist.

Stigbrettið er ágætlega gerðarlegt.

Annað sem er eftirtektarvert er HOSS fjöðrunarkerfið en það er hægt stífa fjöðrun um nokkur stig.

Þetta kalla þeir „High Speed Off Road Supspension System“.

Í sem stystu máli hefur Ford tekist hér að koma fram með „alvöru“ jeppa – kannski ekki alveg fullkominn en ansi nálægt því.

Glimrandi aksturseiginleikar

Í fyrsta sæti eru aksturseiginleikar bílsins og nægt afl, þá má nefna fjölbreyttar stillingar á fjöðrun og drifvalkostum. Þá má einnig nefna fullt af tæknilegum atriðum til viðbótar.

Hér virkar jeppinn bara eins og maður sé á leið niður Laugaveginn, með ís í brauðformi.

Meðal atriða sem betur hefðu mátt fara er sem dæmi mikið umhverfishljóð í innanrýminu. Þegar setið er í aftursætum er erfitt að fylgjast með samræðum þeirra sem sitja í framsæti, veghljóð er nokkuð mikið, enda er ekki mikil einangrun í til staðar, því „flekarnir“ sem hægt er að fjarlægja sitja í festingum beint í burðarvirkinu.

Þægilegur í umgengni

Og talandi um innanrýmið er það mjög góður staður til að vera á. Sætin eru sérlega þægileg en setur mættu þó styðja betur við undir hnésbætur. Óþarfi að vera að spara sætin í þetta dýrum jeppa.

Allt er innan seilingar, stýrið er hvorki of stórt né of lítið – þótt lítið sé.

Snúningstakkar eru við hendina og hægt að vinna í drifstillingum með einum snúningstakka.

Verulega öflugur og þéttur bíll.

Þessi jeppi hentar mjög breiðum hópi notenda – allt frá stórum fjölskyldum og upp í ferðaþjónustufyrirtæki. Hann er rúmgóður, aflmikill og tekur sig vel út á vegi.

Umgengni um bílinn er þægileg að flestu leyti en fyrir líkamlega heilsuhraust fólk ætti ekki að vera vandamál að stíga inn og út úr bílnum.

Niðurstaðan er því: Skemmtilegur „alvöru“ jeppi – kannski ekki alveg fullkominn – en nálægt því. Stærsti ókosturinn er verðið sem er 19.990.000 krónur, sem er ansi hátt að okkar mati!

Myndband

Helstu tölur:

Verð: 19.990.000 krónur – 16. júní 2023 á tilboði 19.490.000 kr.

Hestöfl: 330.

Tog: 557 Nm.

Vél: 2,7 l. Ecoboost V6

Þyngd: 2.025 kg.

Dráttargeta: 1.587 kg.

L/B/H: 4.810/1.928/1.851 mm.

Áhöfn í reynsluakstri:

Jóhannes Reykdal, Pétur R. Pétursson og Gunnlaugur Steinar Halldórsson

Myndataka: Gunnlaugur Halldórsson

Klipping á myndbandi: Pétur R. Pétursson

Svipaðar greinar

Svipaðar greinar