Flottur frá hlið
Það er ekki annað hægt að segja en að Tesla hafi lætt inn aukaslagi í hjarta bílaáhugamanna með almenningsmódelinu Model 3. Eftirvæntingunni mátti líkja við bítlaæðið á sjötta áratugnum. Áhugasamir hreinlega misstu sig, pantanakerfið bókstaflega sprakk og hundruðir nýrra Tesla eigenda brosa nú hringinn af ánægju með nýja bílinn.
Það er óhætt að segja að bíllinn er fallegur og flottur. Sérstaklega frá hlið. Að framan minnir hann þó meira á fjölskyldubíl úr teiknimynd en eftirlíkingu af Aston Martin.
Aksturseiginleikarnir eru eftirtektarverðir – sérstaklega vegna þess ofurafls sem bíllinn býr yfir. Hann fer frá 0 upp í 100 km/klst. á 3.3 sekúndum.
Ekki fyrir stirðbusa
Það þarf smá útsjónarsemi að setjast inn því bíllinn er lágur og þú sest niður í hann. Meiri útsjónarsemi þarf þó til að stíga út úr honum því þá reynir á lærin og kálfana – og fyrir stirðbusa eins og mig (Pétur R. Pétursson), kominn á sextugsaldur er virkilega erfitt fyrir mig að stíga út úr Tesla Model 3.
Bíllinn sem við prófuðum er Tesla Model 3, Performance. Aflið í hestöflum er í kringum 495 stk. og verður að teljast veglegt fyrir fjölskyldubíl og spurning hvort ekki sé ef til vill aðeins of vel í lagt?
Væri ekki möguleiki að nota örlítið af hröðunarorkunni til að auka drægni?
Góður akstursbíll
Það er gaman að aka þessum glænýja rafmagnsbíl frá Tesla. Sérstaklega er það aflið sem heillar, það er magnað að þrýstast niður í sætið og finna hálsvöðvana taka á móti þegar maður reynir að halda haus við inngjöfina. Hann liggur sérlega vel, tekur hornin frábærlega og veghljóð er afar lítið. Hins vegar veltir maður fyrir sér hvort allt „stöffið” undir bílnum og í hjólabúnaði hans standist álagið af svo miklu afli til lengdar.
Borið saman við Porsche Taycan sem er sérhannaður til aksturs á kappakstursbraut og því álagi sem því fylgir er þetta ef til vill atriði sem myndi vekja áhuga varðandi viðhald og endingu bílsins.
Toppdrægni
Tesla Model 3 Performance er með framúrskarandi drægni og skýtur öllum öðrum rafbílaframleiðendum ref fyrir rass. Við erum að tala um allt að 530 km. drægni skv. WLTP staðli, hámarkshraða upp á 260 km/klst. og þessa gríðarlegu hröðun – þessu hefur enginn náð af samkeppnisaðilunum.
Verð Tesla Model 3 er einnig mjög hagstætt hér á landi en verðið er frá 5,3 og upp í tæpar 8 milljónir. Þú kaupir bílinn á netinu og gengur sjálfur frá kaupum – án aðkomu starfsmanna Tesla.
Hvítur er staðallitur en aðra liti þarf að greiða fyrir en mismunandi mikið.
Kerfisuppfærslur koma síðan yfir netið og sú nýjasta býður meðal annars upp á aukna virkni í sjálfkeyrandi kerfi Tesla.
Stútfullur af tækni
Þegar maður er sestur inn í bílinn gleymist fljótt hve erfitt var að setjast inn í hann. Því stóri skjárinn glepur hug manns allan. Sem betur fer virkar ekki helmingur af „afþreyingarkerfinu” nema bíllinn sé kyrrstæður. Þú getur meira að segja rokið út á bílaplan ef þú ert ekki sáttur við sjónvarpið inni hjá þér og horft á Netflix á bílastæðinu.
Að auki er allskyns skemmtiefni sem hægt er að skemmta sér með eins og til dæmis tölvustýrð „prumpublaðra” sem hægt er að kveikja á til dæmis þegar þú gefur stefnuljós.
Stórar breytingar
Það er deginum ljósara að bílaframleiðsla er að breytast og kröfurnar einnig. Tesla Model 3 er í mínum huga flottur bíll sem markar tímamót með helling af nýjungum sem breyta þörfum okkar hægt og rólega. Næstum eins og stór tölvuskjár með sætum og fjórum hjólum.
Fyrir þá sem eru af gamla skólanum vantar ef til vill pínu upp á karakter í aksturseiginleikana. Jafn þyngdarpunktur bílsins gerir aksturinn algjörlega átakalausan og bíllinn er nánast „sjálfkeyrandi” á sínum fjórum hjólum.?
Góður kostur
Tesla Model 3 er frábær kostur á rafbílamarkaði, tæknilega fullkominn og hentar ákveðnum markhópi mjög vel. Hann kemst langt á hleðslunni og hentar bæði í borgarakstri sem og til lengri ferða.
Bíllinn er meðfærilegur í akstri og fallegur frá flestum hliðum. Efnisval er ágætt og pláss í sætum fínt.
Helstu tölur:
Verð frá 5.300.000 til 7.800.000 kr.
Rafhlaða: 75 kWh.
Drægni: 580 km.
Hestöfl: 490.
0-100 km á klst. 3,3 sek.
Hámarkshraði: 261 km/klst.
CO2: 0 g/km.
L/B: 4693/2087